Sýking

Sýking er ein af helstu ástæðum fyrirburafæðinga, sérstaklega áður en 30 vikna meðgöngu er náð en að sama skapi ekki talin jafn algeng ástæða við síð-fyrirburafæðingar (1). Sýking er talin geta átt þátt í allt að þriðjungi fyrirburafæðinga (2). Bakteríur, veirur eða sveppir geta orsakað sýkingar (3) og geta þær verið staðsettar í leggöngum og legi konunnar, í legvatninu, í fylgju og naflastreng og hjá fóstrinu (4). Ef barnshafandi kona greinist með sýkingu getur verið um lífshættulegt ástand að ræða fyrir ófædda barnið. Það getur valdið fyrirburafæðingu og sýkingu hjá barninu eftir fæðinguna og síðan haft áhrif á vöxt þess og þroska (3).

Einkenni sýkingar geta verið blóðlituð útferð, hiti og verkir hjá móður en í mörgum tilvikum greinist sýkingin ekki fyrr en í aðdraganda fæðingar. Sýking getur leitt til fyrirburafæðingar á marga vegu, leghálsinn getur styst og styrkur hans minnkað, rof getur komið á belginn og legvatn farið að leka. Einnig getur sýkingin valdið samdráttarverkjum og auk þess getur þurft að framkalla fæðingu vegna alvarleika sýkingar (4). Auk þess er talið að sé fóstrið orðið sýkt geti það sent frá sér bólguboðefni sem koma fæðingarferlinu af stað (5). Oft er erfitt að greina sýkingu sem undirliggjandi ástæðu fæðingarinnar þar sem orsakasamband er ekki alltaf vitað, sýking getur valdið styttingu á leghálsi og stuttur legháls getur valdið sýkingu, sýking getur valdið rof á belg og rof á belg getur valdið sýkingu. Því getur verið erfitt að greina á milli orsakar og afleiðingar (2,4).

Ef sýking greinist hjá konu fer meðferð eftir öðrum þáttum. Þannig getur skipt máli hvers konar sýking er á ferðinni, lengd meðgöngunnar og hvort útvíkkun sé hafin eða legvatnið farið. Hægt er að gefa sýklalyf og í sumum tilvikum hægt að seinka fæðingunni í nokkurn tíma meðan barnið vex og fær barkstera til að hraða lungnaþroska. Ef talið er að sýkingin hafi náð til fóstursins getur reynst nauðsynlegt að framkalla fæðingu (4,3)

Heimildir:
  1. Mueller –Heubach, E. Rubinstein, D. og Schwarz, S. S. (1990). Histologic chorioamnionitis and preterm delivery in different patient populations. Obstetrics & Gynecology, 75, 622-627.
  2. Carey, J. C. og Gibbs, R. S. (2008). Preterm Labor and Post–term Delivery. Í R. S. Gibbs, B. Y. Karlan, A. H. Haney og I. Nygaard. Danforth´s obstetrics and gynecology. (10. útgáfa, bls. 165-186). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
  3. Pompa, K. M. og Zaichkin, J. (2002). The NICU baby. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 117-139). California: NICU INK Book Publishers.
  4. Goldenberg, R. L., Hauth, J. C. og W. W. Andrews (2000). Intrauterine infection and preterm delivery. The New England Journal of Medicine., 342, 1500-1508.
  5. Yoon, B. H., Romero, R., Jun, J. K., Maymon, K., Gomez, R., Mazor, M. o.fl. (1998). An increase in fetal plasma cortisol but not dehydroepiandrosterone sulfate is followed by the onset of preterm labor in patients with preterm premature rupture of the membranes. American Journal of Obstetrics and Gynecology, 179, 1107-1114.