Meðgöngueitrun/yfirvofandi fæðingarkrampi

Ef konan fær krampa í kjölfar háþrýstings á meðgöngu er talað um fæðingarkrampa (e. eclampsia). Fæðingarkrampi er hættulegt ástand á meðgöngu og er þess vegna reynt að finna konur með byrjunareinkenni meðgöngueitrunar tímanlega í mæðraverndinni og halda einkennum í skefjum. Fyrri stig sem leiða að fæðingarkrampa eru skilgreind sem yfirvofandi fæðingarkrampi (e. preeclampsia) sem yfirleitt er talað um sem meðgöngueitrun (1).

Meðgöngueitrun einkennist af háþrýstingi, próteini í þvagi, og bjúg sem kemur í ljós á síðari helmingi meðgöngunnar. Einkennin eru skyndileg þyngdaraukning, hár blóðþrýstingur og bjúgsöfnun. Þegar kona fær alvarleg einkenni meðgöngueitrunar getur hana svimað og sjónin truflast (2). Sé meðgöngueitrunin orðin alvarleg þarf að leggja konuna inn, gefa henni lyf og reyna að halda meðgöngunni áfram á sem öruggastan hátt. Sé annað hvort lífi eða heilsu móður eða barns ógnað er fæðing framkölluð eða barnið sótt með keisaraskurði (3,4). Meðgöngueitrun er algengust meðal frumbyrja og hjá konum yngri en 16 ára eða eldri en 35 ára, í fjölburameðgöngu og hjá konum með fjölskyldusögu um meðgöngueitrun (2).

Þrátt fyrir miklar rannsóknir er ekki enn vitað með vissu um orsök meðgöngueitrunar (4,1). Sjúkdómurinn fékk heitið meðgöngueitrun því rannsakendur töldu að hin barnshafandi kona framleiddi einhvers konar eitur til að reyna að bregðast við framandi próteinum sem kæmu frá fóstrinu og að eitrið kallaði fram þessi einkenni. En engin slík eiturefni hafa nokkurn tímann verið greind (1).

Heimildir:

Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing Family (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.

  1. Lepley, M. og Gogoi, R. G. (2006). Prenatal enviroment: effect on neonata outcome. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 11-36). St. Louise: Mosby
  2. Abramovici, D. og Sibai, B. M. (1999). Preeclampsia-Eclampsia. Í J. T. Queenan, Management of high-risk pregnancy (bls. 368-377). Boston: Blackwell Science.
  3. Sibai, B., Dekker, G. og Kupferminc, M. (2005). Pre-eclampsia. The Lancet, 365, 785-799.