Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Margir foreldrar fyrirbura velta fyrir sér hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir barnið þeirra. Það er því miður ekki hægt að segja fyrir um það með vissu hvernig útkoman er fyrir einstaka barn. En hér verður leitast við að gefa upplýsingar um ýmis vandamál sem mögulegt er að einhverjir fyrirburar hafi og almennar upplýsingar um framtíðarhorfur fyrirbura (1). Mikilvægt er að muna að þetta eru tölur um fyrirbura sem hóp og að þetta eru meðaltalstölur um auknar líkur en ekki eitthvað sem öll börn eiga eftir að glíma við.

Rannsóknir um útkomu fyrirbura miða oft við börn sem fædd eru fyrir 32 vikna meðgöngu og með fæðingarþyngd undir 1500 g (1). Þegar barn fæðist fyrir tímann eru öll líffæri þess óþroskuð. Það eru sérstaklega lungun og heilinn sem eru hvað viðkvæmust og líklegast að skaði verði á þeim svæðum, sem leiðir til þess að fyrirburar eru líklegri til að eiga við taugaraskanir og heilsuvandamál (2). Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að lífslíkur lítilla fyrirbura (<1000) hafa aukist mikið eða frá 22% á tímabilinu 1982-1990 í 52% á árunum 1991-1995 og jukust enn frá 1996-2007 (3). Þrátt fyrir aukna lifun hefur hlutfall fyrirbura með fötlunargreiningar ekki aukist marktækt milli þessara tímabila. Meðal barna fæddum á fyrra tímabilinu eru aðeins 16% talin fötluð og 17% af börnum seinna tímabilsins (4).

Í viðtölum við íslenska foreldra lítilla fyrirbura kom fram að flestum foreldranna fannst börnin hafa spjarað sig mjög vel og voru bjartsýn á framtíð þeirra (5,6).

Heimildir:
  1. Allen, M. C., Donohue, P. A. og Porter, M. J. (2006). Follow-up of the neonatal intensive care unit infant. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls.953-970). St. Louis: Mosby Elsevier.
  2. Saigal, S. og Doyle, L. W. (2008). An overview of mortality and sequelae of preterm birth from infancy to adulthood. The Lancet, 371, 261-269.
  3. Ragnheiður Sigurðardóttir og Rakel Björg Jónsdóttir. (2007). Börn á Vökudeild 1976-2006. Landspítali Háskólasjúkrahús – Barnaspítali Hringsins
  4. Ingibjörg Georgsdóttir og Atli Dagbjartsson. (2003). Litlir fyrirburar á Íslandi. Lífslíkur og fötlun. Læknablaðið, 89, 299-302.
  5. Ingibjörg Georgsdóttir, Evald Sæmundsen, Ingibjörg Símonardóttir, Jónas G. Halldórsson, Snæfríður Þ. Egilsson, Þóra Leósdóttir o.fl. (2003). Litlir fyrirburar á Íslandi. Heilsufar og þroski. Læknablaðið, 89, 575-581.;
  6. Jónína Einarsdóttir. (2005). Máttug mannabörn fædd fyrir tímann. Í „Ungir Íslendingar í ljósi vísindanna“: Erindi flutt á málþingi umboðsmanns barna og háskólarektors 5. nóvember 2004 (bls. 269-276). Reykjavík: Háskólaútgáfan.