Fæðingarþyngd

Á Íslandi er gjarnan talað um merkur þegar rætt er um fæðingarþyngd barna. Ein mörk er 250 grömm (g) og er meðal fæðingarþyngd íslenskra barna um 3650 g eða 14-15 merkur (1). Hjá fyrirburum eru merkur ekki nægilega nákvæm mælieining og því er yfirleitt rætt um þyngd þeirra í grömmum. Meðal fæðingarþyngd fyrirbura er um 600 g við 24 vikur, 750 g við 25 vikur, 850 g við 26 vikur og 1000 g við 27 vikur. Sum börn eru þyngri og önnur léttari (2).

Áður var skilgreiningin lág fæðingarþyngd (e. low birth weight) notað um öll börn fædd undir 2500 g. Þegar lífslíkur léttari barna fóru að aukast og sífellt fleiri léttari börn lifðu þurfti að finna nýtt hugtak til að lýsa enn minni fæðingarþyngd og var mjög lág fæðingarþyngd notað sem skilgreining á börnum með fæðingarþyngd undir 1500 g. Fljótlega var ljóst með bættum lífslíkum að aðgreina þyrfti enn léttari börn sérstaklega og börn með fæðingarþyngd undir 1000 g voru því skilgreind með einstaklega lága fæðingarþyngd (e. extremely low birth weight). Nú hafa börn sem fæðast með fæðingarþyngd undir 500 g lifað og hefur verið vísað til þeirra í rannsóknum sem örbura (e. micropremies) (3).

Vaxtarskert börn og léttburar

Ef börn eru léttari við fæðingu en meðgöngulengdin segir til um er talað um léttbura (e. small for gestational age – SGA) eða vaxtarskerðingu í móðurkviði (e. Intrauterne growth retardation – IUGR (4). Skilgreiningin á vaxtarskertu barni er að fæðingarþyngd sé meira en tvö staðalfrávik undir meðal fæðingarþyngd miðað við meðgöngulengd og fullburða barn sem er léttara en 2500 g við fæðingu kallast léttburi (5).

Vaxtarskertir nýburar eru að jafnaði í meiri áhættu en þeir sem eru eðlilega þungir við fæðingu. Ef samræmi er á milli lengdar, þyngdar og höfuðmáls barnsins bendir það til þess að barnið hafi vaxið hægt í lengri tíma yfir meðgönguna. En ef barnið er mun léttara en lengd þess og höfuðmál gefa til kynna, eru líkur á að styttra sé síðan vaxtarskerðing hófst (4,6). Vaxtarskerðing stafar oftast af vanstarfsemi fylgjunnar og getur verið að barnið sé ekki að fá nægilega næringu til sín. Hættuástand getur þá skapast fyrir fóstrið í móðurkviði vegna þessa og eru vaxtarskert börn oft látin fæðast fyrir tímann til að tryggja öryggi þeirra (4).

Heimildir
  1. Hagstofa Íslands. (2009). Lifandi fæddir eftir þyngd 1998-2008. Sótt 20. maí 2009 af http://hagstofan.is/?PageID=627&src=/temp/Dialog/varval.asp?ma=MAN05111%26ti=Lifandi+f%E6ddir+eftir+%FEyngd +1998%2D2008+++%26path=../Database/mannfjoldi/Faeddir/%26lang=3%26units=sm/gr
  2. Ringer, S. A. (2008). Care of the extremely low-birth-weight infant. Í J. P. Cloherty, E: C. Eichenwald, og A. R. Stark (Ritstj.), Manual of Neontalal Care (6. Útgáfa, bls. 78-86). Philadelphia: Wolters Kluwer Health/Lippincott Williams & Wilkins.
  3. Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
  4. Anderson, M. S. og Hay, W. W. (2005). Intrauterine growth restriction and the small-for-gestation-age infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. útgáfa, bls. 486-524). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
  5. Kramer (1987). Determinants of low birth weight: mehodological assessment and meta-analysis. Bulletin of the World Health Organization, 65, 663-737.
  6. Sweet, A. Y. (1986). Classification of the Low-Birth-Weight Infant. Í M. H. Klaus og A. A. Fanaroff (Ritsj.), Care of the High-Risk Neonate. (3. útgáfa, bls. 69-95). Philadelphia: W. B. Saunders Company.