Leghálsbilun

Leghálsinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna á meðgöngunni og sér um að halda leginu lokuðu. Við eðlilegar kringumstæður er hann um þriggja til fimm sentimetra langur fram að síðasta þriðjungi meðgöngunnar og ef hann styttist fyrir þann tíma aukast líkurnar á fyrirburafæðingu (1). Ef leghálsinn styttist án teljandi verkja og samdrátta niður fyrir tvo sentimetra á öðrum þriðjungi meðgöngunnar er talið að um leghálsbilun sé að ræða. Þá er leghálsinn veikur og getur opnast með þeim afleiðingum að rof kemur á belginn og/eða fæðing fer af stað auk þess sem hætta er á sýkingu þar sem legið er óvarið (2,3). Leghálsbilun er talin stafa af veikleika í leghálsi sem veldur því að þegar fóstrið stækkar og álag kemur á innra op leghálsins er mótstaðan ekki nægileg og leghálsinn fer að gefa sig (4). Oft kemur leghálsbilun í ljós í kringum 20 vikna meðgöngu og greinist oft ekki fyrr en eftir að kona hefur misst fóstur (5). Leghálsbilun er talin eiga sér stað hjá 0,8 til 1,8% ófrískra kvenna (3). Aðgerðir á leghálsi, svo sem keiluskurður vegna frumubreytinga, útskaf vegna fósturláts eða fóstureyðingar geta haft áhrif á leghálsinn og þannig aukið líkurnar á fyrirburafæðingu (6). Líklegt er að leghálsbilun sé undirliggjandi ástæða sterkra tengsla milli þess að kona sem misst hefur fóstur á öðrum þriðjungi eignist fyrirbura næst þegar hún gengur með (7,8).

Greinist kona með leghálsbilun á meðgöngu fer meðferð eftir því hversu langt er liðið á meðgönguna og heilsufari hennar. Að öllu jöfnu er meðferðin fólgin í rúmlegu á sjúkrahúsi, með eða án s.k. cerclage saums, sem kallast leghálssaumur á íslensku. Nokkrar aðferðir eru til við sauminn og eru þær þekktustu kenndar við Shirodkar og McDonald, læknana sem fyrstir kynntu þær upp úr 1950 (4). Ef kona er greind með leghálsbilun á meðgöngu er í sumum tilvikum hægt að sauma fyrir op leghálsins. Þegar saumurinn er gerður seint á meðgöngu er hann kallaður neyðarsaumur og er áhættusamari en hinn hefðbundni saumur (3). Það verður að meta hverju sinni hvort neyðarsaumur sé ráðlegur. Það er ekki alltaf talið æskilegt og verður að meta kostina hverju sinni (9). Áhættuþættir eru meðal annars blæðingar, að fæðingarhríðir fari af stað, belgurinn rofni eða sýking komi og er aðgerðin áhættusamari þegar leghálsinn hefur styst mikið (2). Ekki er víst að leghálssaumur henti fyrir konur sem ganga með fjölbura og eru með leghálsbreytingar. Rannsóknir hafa gefið til kynna að rúmlega ein og sér gæti skilað betri árangri en rúmlega og leghálssaumur fyrir fjölburamæður (10).

Ef aðrir kvillar hafa komið í kjölfar breytinga á leghálsi, til dæmis að samdrættir séu hafnir eða grunur leiki á sýkingu er einnig veitt meðferð við þeim (3). Einnig er talið að sé konu gefið meðgönguhormónið prógestrón sé hægt að minnka líkurnar á fyrirburafæðingu (11,12) og að sú meðferð geti hentað fyrir konur með legháls undir 1.5 cm (gefið 200 mg á dag) (12).

Hafi leghálsbilunin verið staðfest á fyrri meðgöngu er hægt að setja fyrirbyggjandi leghálssaum á þeirri næstu. Saumurinn er þá gjarnan settur þegar konan er gengin 12 til 16 vikur og með ýmsum varúðarráðstöfunum getur meðgangan heppnast vel og saumurinn þá fjarlægður eftir 37 vikna meðgöngu (2,3). Ef aðgerðin heppnast vel eru líkurnar á því að meðgangan endi vel taldar vera um 80 til 100% (3).

Heimildir:

Iams, J. D., Goldenberg, R. L., Meis, P. L., Merger, B. M., Moawad, A., Das, A. o.fl. (1996). The length of the cervix and the risk of spontaneous premature delivery. New England Journal of Medicine, 334, 567-572.

 1. Callahan, T. L. og Caughey, A. B. (2008). Blueprints Obstetrics and Gynecology. Philadelphia; Lippincott Williams & Wilkins.
 2. Kivikoski, A. I. (2000). Incompetent cervix. Í Winn, H. N. og Hobbins, J. C. (Ritstj.) Clinical maternal-fetal medicine bls. 35-39. New York: Parthenon Publishing Group.
 3. McDonald, I. A. (1980). Cervical Cerclage. Clinics in Obstetrics and Gynaecology, 7, 461-479.
 4. Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing Family (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.
 5. Jakobsson, M., Gissler, M., Sainio, S., Paavonen, J. og Tapper, A. (2007). Preterm delivery after surgical treatment for cervical intraeptihelial neoplasia. Obstetrics & Gynecology, 109, 309-313.
 6. Lepley, M. og Gogoi, R. G. (2006). Prenatal enviroment: effect on neonata outcome. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 11-36). St. Louise: Mosby.
 7. Tough, S. C., Svenson, L. W:, Johnston, D. W. og Schopflocher, D. (2001). Characteristics of preterm delivery and low birth weight among 113,994 infants in Alberta: 1994-1996. Canadian Journal of Public Health, 92, 276-280.
 8. Slattery, M. M. og Morrison, J. J. (2002). Preterm delivery. The Lancet, 360, 1489-1497.
 9. Newman, R. B. og Rittenberg, C. (2008). Multiple Gestaton. Í R. S. Gibbs, B. Y. Karlan, A. H. Haney og I. Nygaard. Danforth´s obstetrics and gynecology. (10. útgáfa, bls. 220-245). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
 10. Carey, J. C. og Gibbs, R. S. (2008). Preterm Labor and Post–term Delivery. Í R. S. Gibbs, B. Y. Karlan, A. H. Haney og I. Nygaard. Danforth´s obstetrics and gynecology. (10. útgáfa, bls. 165-186). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
 11. Fonseca, E. B., Celik, E., Parra, M., Singh, M. og Nicolaides, K. H. (2007). Progesterone and the risk of preterm birth among women with a short cervix. The New England Journal of Medicine, 357, 462-469.