Fylgjulos

Fylgjulos getur átt sér stað þó fylgjan sé staðsett á eðlilegan hátt og á eðlilegum stað (1). Fylgjulos lýsir sér þannig að fylgjan losnar frá legveggnum og fer að blæða í kjölfarið. Einkenni fylgjuloss eru blæðingar og verkir hjá móður og uppgötvast fylgjulos gjarnan í kjölfar blæðinga frá legi en einnig getur blæðingin verið staðbundin inni í leginu.

Fylgjulosi er skipt í fjögur stig eftir alvarleika:

  1. frá því að vera mjög lítið og greinast ekki fyrr en við skoðun fylgju eftir fæðingu
  2. í lítilsháttar rifu sem orsakar blæðingar og hefur áhrif á móður en engin áhrif á lífsmörk barns
  3. í miðlungs rifu frá legvegg þar sem hægt er að greina streitu hjá fóstri, legið er spennt og verkir fylgja alvarlegasta stigið er svo
  4. algert fylgjulos þar sem án skjótra læknisinngripa mun móðir missa blóð og barnið lendir í lífshættu (1).

Fylgjulos getur verið lífshættulegt ástand fyrir móður og barn vegna blæðinga og þegar fylgjan losnar frá legveggnum stöðvast blóð- og súrefnisflæði til barnsins. Ef algert fylgjulos á sér stað verður barnið því að fæðast sem fyrst (2) og er oft gripið til þess að sækja barnið með bráðakeisaraskurði (1). Ef blóð- og súrefnisflæði til barnsins stöðvast í kjölfar fylgjuloss getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir barnið (2).

Ástæða fylgjuloss er ekki að fullu viss en eftirfarandi vísbendingar teljast áhættuþættir: Konan er fjölbyrja, naflastrengurinn er stuttur, langvarandi háþrýstingur hefur hrjáð móður eða hún hefur haft hann á meðgöngu. Einnig er vitað að fylgjulos getur verið afleiðing af slysi eða áfalli sem kona verður fyrir, til dæmis bílslysi eða falli. Einnig auka reykingar og vímuefnaneysla hættuna á fylgjulosi (1).

Heimildir:

Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing Family (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.

  1. Pompa, K. M. og Zaichkin, J. (2002). The NICU baby. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 117-139). California: NICU INK Book Publishers.