Vitað er að reykingar á meðgöngu eru skaðlegar bæði móður og barni. Fylgni reykinga og fyrirbura- og léttburafæðinga er vel þekkt. Reykingakonur eru í meiri áhættu en aðrar konur að eiga fyrir tímann og áhættan eykst með auknum reykingum (1,2,3,4) og hafa óbeinar reykingar einnig áhrif (2). Reykingar á meðgöngu geta dregið úr vexti fóstursins. Börn mæðra sem reyktu á meðgöngunni eru því líklegri að vera léttari, styttri og hafa minna höfuðummál en börn mæðra sem ekki reyktu að meðgöngunni. Þessi staðreynd hefur verið mönnum ljós í nær þrjá áratugi (5). Reykingar á meðgöngu auka líkurnar á fyrirsætri fylgju, fylgjulosi, utanlegsfóstri og ótímabæru belgjarofi (1).
Íslenskar rannsóknir á reykingum meðal mæðra sem áttu litla fyrirbura á árunum 1982-1990 og 1991-1995 sýndu að hlutfallslega fleiri fyrirburamæður reyktu en mæður sem ekki áttu fyrirbura. Reykingar meðal fyrirburamæðra voru á öðru tímabilinu 37% og hinu 46% samanborið við aðeins 13% hjá mæðrum fullburða barna í samanburðarhópi (6). Rannsóknir hafa einnig sýnt að reykingar á meðgöngu auka líkurnar á því að barnið fái sýkingu eftir fæðingu (7) og að barnið látist vöggudauða (8,9).
Á vefsíðunni Reyklaus.is er hægt að fá stuðning við að hætta reykingum. Reyksíminn 800-6030 er grænt númer þar sem veitt er persónubundin ráðgjöf og í gegnum tölvupóst.
Heimildir:
- Castles, A., Adams, E. K., Melvin, C. L., Kelsch, C. og Boulton, M. L. (1999). Effects of smoking during pregnancy: five meta-analyses. American Journal of Preventive Medicine, 16, 208-215.
- Fantuzzi, G., Aggazotti, G., Righi, E., Facchinetti, F., Betucci, E., Kanitz, S., o.fl. (2007). Preterm delivery and exposuer to active and passive smoking during pregnancy: a case-control study from Italy. Paediatric and Perinatal Epodemiology, 21, 194-200.
- Nabet, C., Ancel, P., Burguet, A. & Kaminski, M. (2005). Smoking during pregnancy and preterm birth according to obstetric history: French national perinatal survey. Paediatric and Perinatal Epidemiology, 19, 88-96.
- Wisborg, K., Henriksen, T. B., Hedegaard, M. og Secher, N. J. (1996). Smoking during pregnancy and preterm birth. British Hournal of Obstetrics and Gynaecology,103. 800-805.
- Sweet, A. Y. (1986). Classification of the Low-Birth-Weight Infant. Í M. H. Klaus og A. A. Fanaroff (Ritsj.), Care of the High-Risk Neonate. (3. útgáfa, bls. 69-95). Philadelphia: W. B. Saunders Company.
- Ingibjörg Georgsdóttir, Evald Sæmundsen, Ingibjörg Símonardóttir, Jónas G. Halldórsson, Snæfríður Þ. Egilsson, Þóra Leósdóttir o.fl. (2003). Litlir fyrirburar á Íslandi. Heilsufar og þroski. Læknablaðið, 89, 575-581.
- Jeppesen, D. L., Nielsen, S. D., Ersbøll, A. K. og Valerius, N. H. (2008). Maternal smoking during pregnancy increases the risk of postnatal infections in preterm neonates. Neonatology, 94, 75-78.
- Haglund, B. og Cnattingius, S. (1990). Cigarette smoking as a risk factor for sudden infant death syndrome: a population-based study. American Journal of Public Health, 80, 29-32.
- Shah, T., Sullivan, K. & Carter, J. (2006). Sudden infant death syndrome and reported maternal smoking during pregnancy. American Journal of Public Health, 96, 1757-1759.