Útlit og þroski barnsins við fæðingu

Þegar barnið fæðist fyrir tímann er það ekki orðið fullþroskað, eins og sjá má á útliti þess. Á meðgöngunni er húð fóstursins gegnsæ og æðar mjög sjáanlegar. Eftir því sem líður á meðgönguna dekkist húðin og þykknar og verður ógegnsærri. Húð barna sem fæðast löngu fyrir tímann er því oft þunn og gegnsæ. Fóstur í móðurkviði byrjar að fá hár um allan líkamann eftir 20 vikna meðgöngu. Í kringum 28 vikur fara hárin að hverfa í andliti og á framhluta líkama barnsins (1).

Fyrirburar hafa þess vegna fósturhár á líkamanum, sem eru ýmist dökk eða ljós. Fullburða nýbura geta einnig haft fósturhár á líkamanum, sérstaklega um axlirnar. Hárið á höfði fóstursins fer einnig að myndast eftir um 20 vikna meðgöngu og á 23. til 24. viku meðgöngu fara augnhár og augabrúnir að myndast. Frá 28. til 34. eða 36. viku er hárið oft fínkennt og ullarkennt, það helst saman og getur staðið út í loftið (1).

Hægt er að staðfesta eftir hve langa meðgöngu barn er fætt með því að meta þroska þess. Þetta er gert með því að skoða hvernig barnið getur beygt útlimi, húðlit þess, hversu mikil fósturhár það hefur, húð undir iljum, hvernig brjóstkassi og geirvörtur barnsins eru, augu þess, eyru og kynfæri (1).

Heimildir
  1. Gardner, S. L. og Johnson, J. L. (2006). Initial nursery care. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 79-121). St. Louise: Mosby.