Kengúrumeðferð (húð-við-húð)

Þegar barn fær að liggja á bringu foreldris er talað um að það sé í ,,kengúru“ hjá foreldri. Kengúrumeðferð snýst í meginþáttum um samveru og húð-við-húð snertingu foreldris og barns og brjóstagjöf. Kengúrumeðferð er liður í þroskahvetjandi meðferð sem veitt er á Vökudeild. Hægt er að líta á tilgang húð-við-húð meðferðar sem nokkurs konar áframhald á meðgöngunni, með því að liggja upp við foreldri finnur barnið áfram hlýjuna, hjartsláttinn og hljóðin frá foreldrinu (1). Nafnið kengúrumeðferð vísar til þess hvernig kengúruungar komast á legg. Þeir fæðast agnarsmáir og skríða sjálfir ofan í poka móðurinnar þar sem þeir dvelja mánuðum saman og nærast á spena móðurinnar. Þegar þeir stækka og fara að kynnast heiminum halda þeir svo áfram að leita í hlýjuna og öryggið í poka móðurinnar (2).

Mælt er með því að kengúrumeðferð hefjist sem fyrst eftir fæðingu og að barnið sé sem mest í „kengúru“ þar til fullri meðgöngulengd er náð og sé ekki styttra en klukkutíma í senn. Það verður þó að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvað ástand barns leyfir. Barn sem er í hitakassa og tengt við öndunarvél eða síblástursvél getur vel komið í fang foreldris ef ástand þess er nægilega stöðugt (1,3). Barnið er haft á bleyjunni og látið leggjast í „froskastellingu“ á bera bringu foreldris sem kemur sér fyrir í hægindastól. Það er einnig hægt að nota burðarpoka eða burðarsjal til að binda barnið við foreldri ef aðstæður leyfa. (1).

Ávinningur af kengúrumeðferð

Barnið finnur hlýju og öryggi hjá foreldri, hjartsláttur foreldris og rödd þess minnir barnið á lífið í móðurkviði (4) og foreldri heldur hita á barninu, jafnvel betur en hitakassinn (3). Kengúrumeðferð dregur úr streitueinkennum hjá börnum og þau gráta minna, dregur úr sársauka við sársaukafullar aðgerðir (t.d. blóðprufu) (4). hjálpar til við taugaþroska, almennan þroska og seinna meir andlegan þroska barnsins (3). Öndun barnsins verður reglulegri og öndunarhlé og hægsláttur minnka. Börnin eru einnig talin þyngjast hraðar og komast fyrr heim af sjúkrahúsinu (1,4,3).

Kengúrumeðferð gerir foreldrana öruggari í foreldrahlutverkinu og hún leyfir þeim að taka virkan þátt í umönnun barnsins, stuðlar að brjóstagjöf, hjálpar til við mjólkurmyndun hjá móður og við að koma barninu á brjóstið. Það dregur úr neikvæðum áhrifum fyrirburafæðingar og aðskilnaðar og hjálpar til við tengslamyndun. Kengúrumeðferð er ekki síður góð fyrir föður og barn að kynnast og mynda tengsl (1,5,3).

Upphaf kengúrumeðferðar

Kengúrumeðferð er upprunnin í Bogota í Kólumbíu og voru það tveir nýburalæknar að nafni Edgar Rey og Hector Martínez sem fyrstir kynntu þessa aðferð árið 1983 (3). Ástandið í Kólumbíu hafði verið mjög slæmt, ekki voru til hitakassar fyrir alla fyrirburana og varð að setja þá saman í kassa sem skapaði aukna sýkingarhættu og var dánartíðni fyrirbura um 70%. Mæðurnar forðuðust að tengjast dauðvona barni sínu og voru börnin því oft yfirgefin á nýburadeildinni. Með því að skikka móður til að vera hjá barninu og hafa það í fanginu allan sólahringinn gátu læknarnir bæði haldið lífi í börnunum og komið í veg fyrir að mæðurnar yfirgæfu þau, því þær bundust börnunum fljótlega eftir að þær fengu þau í fangið. Dánartíðni fyrirburanna snarlækkaði úr 70% í 30% í kjölfarið og vakti það strax mikla athygli um allan heim, meðal annars hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og UNICEF (3).

Heimildir:
  1. World Health Organization. [WHO]. (2003). Kangaroo mother care: a practical guide. Geneva:, World Health Organixation. Sótt 29. mars 2009 af http://www.who.int/making_pregnancy_safer/documents/9241590351/en/index.html
  2. KangarooMotherCare.com (á.á.). Why the title “Kangaroo Mother Care”? Sótt 20. apríl 2009 af http://www.kangaroomothercare.com/photo_kanga01.htm
  3. Lundington-Hoe og Golant, S. K. (1993). Kangaroo Care. The Best You Can Do To Help Your Preterm Infant. New York: Bantam Books.
  4. Gardner, S. L. og Goldson, E. (2006). The neonate and the environment: impact of development. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 273-349). St. Louise: Mosby.
  5. Gardner, S. L. og Johnson, J. L. (2006). Initial nursery care. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 79-121). St. Louise: Mosby