Tilfinningar foreldra

Algengar tilfinningar sem foreldrar upplifa í kjölfar fyrirburafæðingar eru vanmáttur, ótti, reiði, sektarkennd og missir (1). Foreldrahlutverkið hefst á óvenjulegan hátt þegar barn fæðist fyrir tímann. Foreldrar sitja eftir á fæðingarstofunni meðan hópur sérfræðinga fer með barnið yfir á nýburagjörgæsludeild að sinna því (2). Það getur haft mikil áhrif á móður að vera aðskilin frá nýfæddu barninu sínu, einnig þó barnið sé fætt eftir fulla meðgöngu og sé ekki alvarlega veikt (3). Foreldrar hafa gjarnan myndað sterk tengsl við barnið strax í móðurkviði og geta upplifað missi þegar barn fæðist fyrir tímann, yfir fyrirfram hugmyndum um óskafæðingu og heilbrigt fullburða barn. Margar konur sakna meðgöngunnar og sakna þess að finna fyrir barninu inni í móðurkviði (1). Foreldrar upplifa sig vanmáttuga og finnst þeir lítið geta gert til að hjálpa barninu sínu, þeir óttast að missa barnið og hafa áhyggjur af líðan þess og framtíðarhorfum. Sumir foreldrar upplifa reiði út í aðra, starfsfólk, vini, ættingja eða maka og finnst enginn skilja hvað þeir eru að ganga í gegnum (2,1). Sektarkennd er algeng tilfinning, sumir fara yfir það í huganum aftur og aftur hvað hafi ollið fæðingunni og hvort það sé þeim að kenna að barnið hafi fæðst fyrir tímann. Þetta eru mjög eðlilegar hugsanir sem algengar eru meðal fyrirburaforeldra og mikilvægt fyrir foreldra að gefa sér tíma til að vinna úr tilfinningum sínu (2).

Ein fyrirburamóðir lýsir tilfinningum sínum svona:

,,Þegar hann fæddist, var ég viss um að það hafi verið vegna einhvers sem ég hafði gert. Ég fann fyrir svo mikilli sektarkennd. Sú tilfinning fylgdi mér í langan tíma, en loks sagði mér einhver að ég væri að eyða orkunni í það. Þú getur ekki farið til baka og breytt því sem hefur gerst, það er nú þegar gert. Þú þarft að halda áfram, setja orkuna þína í það að vinna með barninu þínu og hjálpa því“ (2, bls. 8).

Fyrirburaforeldrar eru líklegri til að upplifa kvíða, streitu og depurð í kjölfar fæðingar og rannsóknir hafa sýnt að þessi áhrif geta varað áfram og valdið vanlíðan og streitu hjá foreldrum fyrstu mánuðina eftir heimför og jafnvel fyrstu árin fái þeir engan stuðning eða aðstoð (4,5).

Heimildir:
  1. Kearns, S. M. (2002). Getting acquainted. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 31-45). California: NICU INK Book Publishers.
  2. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.
  3. Nylström, K. og Axelson, K. (2002). Mothers‘ experience of being separated from their newborns. JOGNN, 31, 275-282.
  4. Singer, L. T., Salvator, A., Guu, S., Collin, M., Lilie, L. og Baley, J. (1999). Maternal psychological distress and parenting stress aftur the birth of a very low-birh-weight infant. Journal of American Medical Association (JAMA), 281, 799-805.
  5. Olshtain-Mann og Auslander, G. K. (2008). Parents of preterm infants two months after discharge from the hospital: are they still at (parental) risk? Health & Social Work, 33, 299-308.