Stærð og vöxtur

Þegar vöxtur fyrirbura er metinn er notast við sömu vaxtarkúrfu og fyrir fullburða börn, nema að miðað er við leiðréttan aldur og minnstu fyrirburarnir eru gjarnan metnir á sérstökum fyrirburakúrfum (1). Börn sem fæðast fyrir tímann með lága fæðingarþyngd eru oft áfram minni og léttari en jafnaldrar þeirra. Fyrirburar og léttburar geta þó vaxið hraðar en fullburða börn fyrstu árin og er oft talað um að þau séu að ná upp vexti. Börnin geta líka þyngst hægt og átt við næringarvandamál að stríða, sérstaklega ef þau hafa verið veik. Mikilvægt er ráðfæra sig við heimilislækni og/eða barnalækni ef áhyggjur vakna yfir vexti barnsins (1). Fyrirburar og léttburar þurfa að fá góða næringu og mikilvægt er að þau stækki vel, en varast verður að gefa barninu of mikið að drekka til að reyna að þyngja það óeðlilega hratt, það er ekki gott fyrir börn að þyngjast of mikið of hratt (2).

Sum börn ná jafnöldrum sínum í stærð og þyngd um 2-3 ára aldur. En sem hópur eru fyrirburar með lága fæðingarþyngd almennt lægri og léttari að meðaltali en fullburða börn fram að skólaaldri (3) og áfram fram yfir unglingsár (4,5). Samanburður á hæð og þyngd lítilla fyrirbura og systkina úr vaxtarmælingu við 5 ára aldur allra barna sýndi að fyrirburarnir voru að jafnaði minni og léttari en systkini sín (6).

Heimildir:
  1. Anna Björg Aradóttir, Sesselja Guðmundsdóttir og Geir Gunnlaugsson (Ritstj.). (2009). Ung- og smábarnavernd. Leiðbeiningar um heilsuvernd barna. (Rafræn útgáfa). Reykjavík: Landlæknisembættið. Sótt 13. ágúst 2009 af http://landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4138
  2. Allen, M. C., Donohue, P. A. og Porter, M. J. (2006). Follow-up of the neonatal intensive care unit infant. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls.953-970). St. Louis: Mosby Elsevier.
  3. 3.      Ingibjörg Georgsdóttir, Evald Sæmundsen, Þóra Leósdóttir, Ingibjörg Símonardóttir, Snæfríður Þóra Egilson og Atli Dagbjartsson. (2004). Litlir fyrirburar á Íslandi. Niðurstöður þroskamælinga við fimm ára aldur. Læknablaðið, 90, 747-754. 
  4. Darendeliler, F., Çoban, A., Baş, F., Bundak, R., Dişçi, R., Şükür, M. ofl. (2008). Catch-up growth in appropriate- or small-for-gestational age preterm infants. The Turkish Journal of Pediatrics, 50, 207-213.
  5. Euser, A. M., de Wit, C. C., Finken, M. J. J., Rijken, M. og Wit, J. M. (2008). Growth of preterm born children. Hormone Research, 70, 319-328.
  6. Kilbride, H. W., Thorstad, K. og Daily, D. K. (2004). Preschool outcome of less than 801-gram preterm infants compared with full term siblings. Pediatrics, 113, 742-747.