Ef hættuástand greinist á meðgöngu sem gæti leitt til fyrirburafæðingar fer meðferð móður hverju sinni eftir eðli og alvarleika þess (1,2). Sumar konur gætu þurft að fara í sérstakt eftirlit fyrir konur í áhættumeðgöngu, hitta fæðingarlækna og sérfræðinga og fara í auknar skoðanir, blóðprufur, mælingar og ómskoðanir. Lyfjagjöf gæti þá reynst nauðsynleg og gæti til dæmis verið þörf á lyfjum við samdráttum, blóðþrýstingslyfjum og sýklalyfjum. Það fer allt eftir því hvert ástand konunnar er og hver ástæðan er fyrir yfirvofandi fyrirburafæðingu. Ef miklar líkur eru taldar á fæðingu næstu daga eða vikur er ráðlagt að verðandi móður séu gefnir barksterar til að flýta fyrir lungnaþroska barnsins (3,2). Hjá sumum konum nægir að hætta að vinna eða taka því rólega en aðrar þurfa að liggja fyrir, ýmist heima við eða á sjúkrahúsi (1,2).
Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans (4) veitir barnshafandi konum er þess þurfa sérstaka þjónustu á meðgöngu og þar er meðal annars sinnt þeim konum sem eiga á hættu að fæða fyrir tímann. Margar verðandi mæður koma í eftirlit á svokallaða dagdeildareiningu innan deildarinnar en einnig getur innlagnar verið þörf um lengri eða skemmri tíma. Sumar konur eru rúmliggjandi meðan þær eru á deildinni. Ljósmæður og læknar eru á vakt allan sólahringinn og annast konurnar. Ágæt aðstaða er á meðgöngudeildinni og inniliggjandi konur geta verið í netsambandi. Ef konur þurfa að dvelja lengi á deildinni geta þær notið þjónustu frá iðjuþjálfa, sjúkraþjálfa og næringarráðgjafa. Verðandi foreldrar geta líka óskað aðstoðar félagsráðgjafa. Á spítalanum eru starfandi sjúkrahúsprestar sem veita sálgæslu þeim sem þess óska.
Einkenni þess að kona sé að fá hríðir fyrir tímann
Erfitt getur reynst að greina hvort hríðir séu hafnar og að greina þær frá fyrirvaraverkjum. Mikilvægt er að konur séu vakandi fyrir einkennum og leiti sér aðstoðar ef þær finna fyrir einkennum hríða. Þessi einkenni geta verið:
- Langvarandi óþægilegur verkur neðarlega í bakinu.
- Pílur eða stingir í leggöngum.
- Þrýstingur í grindinni eða einhver óeðlileg spenna.
- Krampar sem minna á túrverki.
- Aukin útferð úr leggöngum.
- Samdrættir í legi.
- Krampar eða verkir í ristli (2).
Rúmlega
Sumar konur þurfa að liggja fyrir á meðgöngunni vegna áhættu á fyrirburafæðingu. Rúmlega hefur verið umdeild aðferð vegna þeirra slæmu áhrifa sem hún getur haft fyrir líkamlega heilsu barnshafandi kvenna, andlega líðan þeirra og fyrir fjölskylduna. Því er mikilvægt að konur sem þurfa að liggja fyrir séu duglegar að hreyfa útlimi og teygja úr sér í rúminu og þegar þær standa upp, til að koma í veg fyrir líkamleg óþægindi og leiti ráðgjafar. Einnig er mikilvægt fyrir andlega heilsu að hafa eitthvað fyrir stafni og vera í samskiptum við vini og ættingja og fyrir mæður að ná að njóta tíma með börnunum sínum (5).
Ráð til kvenna sem eru rúmliggjandi vegna hótandi fyrirburafæðingar:
- Ef læknir hefur sagt þér að vera í algerri rúmlegu nema þegar þú ferð á klósett þarftu að fara eftir því og standa sem minnst upp.
- Þú getur legið fyrir inni í rúmi og í sófa. Það getur verið góð tilbreyting að liggja inn í rúmi yfir nóttina en færa þig fram á daginn. Til að líða betur hefur mörgum þótt gott að klæða sig í hefðbundin föt á daginn í stað þess að vera í náttfötum allan daginn.
- Gerðu teygjuæfingar. Þegar þú stendur upp til að fara á klósettið skaltu t.d. teygja úr þér og standa upp á tær. Þú getur gert rólegar teygjuæfingar meðan þú liggur til að þér líði betur, leitaðu ráða hvernig þú getur gert þær.
- Drekktu vel af vökva, helst átta til tíu glös daglega. Hafðu könnu af vatni á borðinu hjá þér svo þú þurfir ekki að standa upp til að sækja það.
- Ef þú ert á lyfjum (t.d. vegna háþrýstings eða samdrátta) vertu viss um að taka þau ávallt á réttum tíma. Stilltu vekjaraklukku til að vakna á nóttunni ef það er nauðsynlegt.
- Fylgstu með samdráttum og fósturhreyfingum á hverjum degi.
- Haltu þér upptekinni við eitthvað áhugavert t.d. lesa, prjóna, föndra, vafra um netið eða horfa á kvikmyndir til að koma í veg fyrir að þér leiðist.
- Ef þú átt börn getur þú notið samveru með þeim þó þú þurfir að liggja fyrir, t.d. hlusta saman á tónlist, syngja saman, lesa saman, púsla, fara í orðaleiki eða horfa á kvikmynd.
- Hafðu allt það helsta sem þú þarft að nota yfir daginn hjá þér, t.d. fjarstýringu og síma.
- Vertu í sambandi við vini og vandamenn, í gegnum síma eða tölvu eða bjóddu þeim í heimsókn ef þú hefur heilsu til. Þú getur einnig leitað stuðnings í gegnum spjallsíðu fyrirburaforeldra.
- Forðastu allt áreiti sem gæti örvað samdrætti, t.d. að örva geirvörtur og strjúka bumbuna.
- Hafðu strax samband við lækni eða ljósmóður ef þú finnur merki þess að belgurinn hafi gefið sig, t.d. skyndilega mikla útferð úr leggöngun eða ef blæðing kemur úr leggöngum.
- Láttu vita ef þú hefur grun um þvagsýkingu eða sýkingu í leggöngum (einkenni geta verið bruni við þvaglát og tíð þvaglát, kláði eða verkur í leggöngum).
- Láttu vita ef þú finnur fyrir öndunarerfiðleikum eða þrýsting á brjóstkassa, sem gæti verið aukaverkun af lyfi sem þú ert að taka.
- Ef þú ert heima í rúmlegu. Fáðu ráðleggingar hjá lækninum þínum varðandi kynlíf, sem líklegt er að sé óæskilegt á meðan á rúmlegu stendur þar sem það getur örvað samdrætti og komið fæðingu af stað (hjá konum sem eru með hótandi fyrirburafæðingu).
Ef samdrættir og verkir eiga sér stað:
- Tæmdu þvagblöðruna til að minnka þrýstinginn á leginu.
- Leggstu fyrir á vinstri hlið til að tryggja sem best blóðflæði í legið.
- Drekktu tvö eða þrjú glös af vökva.
- Bíddu og athugaður hvort þetta líði hjá.
- Láttu lækni eða ljósmóður vita ef þetta líður ekki hjá. (5,2).
Unnið var út frá töflunni „Measures to Help Prevent Reccurence of Preterm Labor for Women on Bed Rest“, bls. 398 í Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.
Hér er hægt að mæla tímann milli samdrátta á auðveldan hátt. Með því að ýta á start og stop við upphaf og enda hvers samdráttar er hægt að fylgjast náið með samdráttum og meta hvort fæðing sé að hefjast.
Heimildir:
- Merkatz, I. R. og Fanaroff, A. A. (1986). Antenatal and intrapartum care of high-risk infant. Í M. H. Klaus og A. A. Fanaroff (Ritsj.), Care of the High-Risk Neonate. (3. útgáfa, bls. 1-30). Phildelphia: W. B. Saunders Company.
- Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing Family (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.
- Lepley, M. og Gogoi, R. G. (2006). Prenatal enviroment: effect on neonata outcome. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 11-36). St. Louise: Mosby.
- Landspítali Háskólasjúkrahús. (á.á.) Um kvennadeildir. Sótt 1. ágúst 2009 af http://lsh.is/pages/13372
- Lowdermilk, D. L. og Perry, S. E. (2004). Maternity & Women´s Health Care (8. útgáfa). St. Louise:St. Louise: Mosby.