Aðdragandi fyrirburafæðingar getur verið misjafn: Hríðir fara af stað í 40-45 % tilvika, legvatnið fer í um 25-30% fæðinga og í um 30% tilvikanna er fæðing framkölluð (1). Meðferð á meðgöngu fyrir konur sem greinast í áhættuhópi er því ekki alltaf sú sama. Í sumum tilfellum er aðalmarkmiðið að reyna að lengja meðgönguna en í öðrum að ljúka henni til að bjarga barni og/eða móður (2,3).
Hríðir fara af stað fyrir tímann
Í um 40-45% tilvika hefst fyrirburafæðing á því að hríðar fara af stað of snemma. Um 9-10% barnshafandi kvenna fá ótímanbærar hríðar á meðgöngunni. Skilgreining er reglulegir samdrættir sem áhrif hafa á leghálsinn, eftir styttri meðgöngu en 37 vikur (1). Konur með reglulega samdrætti oftar en 4 sinnum á hverjum 20 mínútum ættu að teljast komnar með hríðir og fæðingarferlið telst farið af stað þegar leghálsinn hefur þynnst og útvíkkun er hafin (3). Ef fæðing fer af stað fyrir tímann á þennan hátt er hægt að beita meðferð til að hægja á ferlinu. Hún getur falist í innlögn á sjúkrahús þar sem konan á að liggja fyrir og lyfjagjöf til að stoppa samdrætti (3).
Legvatn fer fyrir tímann
Í 25-30% tilvika er aðdragandi fyrirburafæðingar sá að legvatn fer vegna rofs á líknarbelg. Þetta á við þegar konan er gengin styttra en 37 vikur og rof á sér stað með þeim afleiðingum að legvatn fer að leka, að minnsta kosti klukkustund áður en samdrættir og verkir hefjast. Yfirleitt er ástæðan óþekkt en oft er talið að um sýkingu sé að ræða (1). Hjá mörgum konum sem missa legvatn hefst fæðing af sjálfsdáðum innan fárra daga en stundum er hægt að halda meðgöngunni áfram í einhvern tíma. Eftir að líknarbelgurinn hefur rofnað og legvatnið er byrjað að leka eykst sýkingarhætta í leginu. Þetta er oft ástæða þess að fæðing fer af stað eða er framkölluð. Sýkingin getur haft áhættu í för með sér fyrir barnið (1).
Fæðing framkölluð fyrir tímann
Þurft getur að framkalla fæðingu eða taka barn með keisaraskurði vegna ástands þess eða móður og er það talin ástæða um 30-35% fyrirburafæðinga. Þar kunna að liggja að baki sýkingar hjá móður eða barni, eða vegna veikinda á meðgöngu, yfirvofandi fæðingarkrampa eða meðgöngueitrunar, vandamála tengdum fylgju og vaxtarskerðingu, eða næringarskorti fósturs. Í þeim tilvikum getur barnið átt betri lífsskilyrði á nýburagjörgæsludeild en í móðurkviði (1 ).
Heimildir:
- Goldenberg, R. L., Gullane, J. F., Iams, J. D. og Romero, R. (2008). Epidemiology and causes of preterm birth. The Lancet, 371, 75-84.
- Sweet, A. Y. (1986). Classification of the Low-Birth-Weight Infant. Í M. H. Klaus og A. A. Fanaroff (Ritsj.), Care of the High-Risk Neonate. (3. útgáfa, bls. 69-95). Philadelphia: W. B. Saunders Company.
- Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing Family (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.