Meiri áhætta felst í að ganga með fjölbura en einbura. Fjölburar eru líklegri til að fæðast fyrir tímann og með lága fæðingarþyngd og er áhættan meiri ef börnin eru eineggja (1,2,3,4). Fyrirburafæðing er algengari meðal mæðra sem ganga með eineggja en tvíeggja tvíbura og einnig á fyrirburafæðing sér stað fyrr hjá þeim fyrrnefndu (5).
Fjölburameðgöngur eru áhættusamari meðgöngur, einnig vegna þess að auknar líkur eru á vaxtarskerðingu fósturs, auknar líkur eru á fyrirsætri fylgju, fylgjulosi, (e. intrapartum asphyxia), háþrýstingi og þvagfærasýkingu. Fjölburar sem deila fylgju geta þróað með sér sjúkdóminn Twin-to-twin transfusion sem verður þegar tengsl eru milli blóðrásar fóstranna þannig að annar tvíburinn tapar blóði yfir í hinn. Eins og gefur að skilja getur það ástand verið hættulegt fyrir bæði fóstrin (6).
Fjölburamæður eru mun líklegri en aðrar til að vera lagðar inn á sjúkrahús á meðgöngunni. Konur sem eru með eineggja tvíbura, sérstaklega ef þeir deila fylgju, teljast í meiri áhættu (6) og eru fengnar í nánara eftirlit í áhættumeðgönguvernd.
Tvíburar sem fæðast áður en 28 vikna meðgöngu er náð hafa ekki jafn góðar lífslíkur og einburar fæddir eftir jafn langa meðgöngu (4). Tvíburar vaxa að öllu jöfnu á svipaðan hátt og einburar fyrstu tvo þriðjunga meðgöngunnar en eftir 30 vikur fer að hægjast á vexti tvíburanna, líklegast vegna líffræðilega áhrifa frá móður og fylgju (1). Því er líklegt að tvíburar sem fæðast áður en 30 vikum er náð hafi svipaða fæðingarþyngd og einburar eftir jafn langa meðgöngu. Á árunum 1999-2005 voru á bilinu 14-24% fæddra tvíbura lagðir inn á Vökudeild í styttri eða lengri tíma og allir þríburar sem gögn náðu yfir (7).
Tvíbura- og fjölburameðgöngum fjölgar vegna vaxandi tíðni tæknifrjóvgana og frjósemislyfja sem auka líkurnar á fjölburum. Líffræðilegir þættir hafa einnig áhrif á aukna tíðni fjölburameðgangna, þar sem konur á aldrinum 35-39 ára eru taldar mun líklegri til þess að verða þungaðar af fjölburum og hefur aldur fæðandi kvenna farið hækkandi á undanförnum árum (3). Tvíburar geta verið eineggja eða tvíeggja. Eineggja tvíburar eru alltaf af sama kyni. Ein af hverjum 330 fæðingum er fæðing eineggja tvíbura. Þetta þýðir að eitt af hverjum 160 börnum eru eineggja tvíburar (3).
Í Bandaríkjunum árið 2002, voru 12% tvíbura, 36% þríbura og 60% fjórbura fædd áður en 32 vikna meðgöngu var náð (5). Af öllum fyrirburafæðingum (fyrir 37 vikur) má telja að 17% eigi sér stað vegna fjölburameðgöngu, 23% af fyrirburafæðingum fyrir 32 vikur. Fjölburar voru 24% af þeim börnum sem fæddust með lága fæðingarþyngd (<2500 g) og 26% af börnum með mjög lága fæðingarþyngd (<1500) (6).
Fjölburafæðingar eru um 1,6-2,0% af heildarfæðingum á Íslandi. Tíðni tvíburafæðinga á tímabilinu 1995-2007 hefur verið um 69 til 94 tvíburafæðingar af alls 3977 til 4498 fæðingum árlega (8,9,10,11). Á tímabilinu áttu að jafnaði á bilinu ein til fjórar þríburafæðingar sér stað árlega (9,10,11). Hlutfall náttúrulegra tvíburafæðinga er talið vera ein á móti 88 einburafæðingum, sett fram 1:88. Hlutfallslega er þannig eitt af hverjum 44 fæddum börnum tvíburi (3). Árin 1982 til 1987 voru hlutföllin þannig að ein tvíburafæðing var á móti 103 einburafæðingum eða 1:103. Á tímabilinu 1988 til 1993 voru hlutföllin 1:85 og á tímabilinu 1993-1998 var hlutfallið 1:55 (8) og er hlufall tvíburafæðinga enn svipað á tímabilinu 1999-2007 (11).
Í íslenskri rannsókn á þrí- og fjórburafæðingum yfir 17 ára tímabil frá 1982 til 1998 kom fram að 34 slíkar fæðingar áttu sér stað á tímabilinu, þar af 33 þríburafæðingar og 1 fjórburafæðing (8). Í þeirri rannsókn kemur fram að aðeins tvær af þessum 34 fæðingum áttu sér stað fyrir 28 vikna meðgöngu, sem sé ólíkt erlendum niðurstöðum, þar sem talið er að um 17-20% líkur séu á fæðingu fyrir 28 vikur á þríburameðgöngu. Niðurstöðurnar eru þó nálægt niðurstöðum sænskrar rannsóknar þar sem lengd meðgöngu var styst 27 vikur og lengst 37 vikur. Meðal meðgöngulengdin í íslensku rannsókinni var 33,3 vikur. Fjórar konur gengu með innan við 30 vikur, tíu voru á bilinu 32 til 34 vikur og 18 gengu með lengur en 34 vikur. Meðalaldur mæðra í íslensku rannsókninni var 30 ár. Allar þrí- og fjórburamæðurnar þurftu að liggja inni á meðgöngunni vegna sjúkdóms eða til hvíldar fyrir fæðingu og undirgengust allar keisaraskurð. Fyrst fæddi fjölburinn var að jafnaði þyngstur og hinn síðast fæddi léttastur. Margir þeirra áttu við veikindi að stríða að fæðingu lokinni.
Fjölburaforeldraforeldrum er bent á tvíburafélagið og þríburafélagið.
Heimildir:
- Blickstein, I. (2002). Normal and abnormal growth of multiples. Seminal of Neonatology, 7, 177-185.
- Gardner, M. O., Goldenberg, R. L., Cliver, S. P., Tucker, J. M., Nelson, K. G. og Copper, R. L (1995). The origin and outcome of preterm twin pregnancies. Obstetrics & Gynecology, 85, 553-557.
- Hall, J. G. (2003). Twinning. The Lancet, 362, 735-743.
- Rydhstroem, H. og Heraib, F. (2001). Gestational duration, and fetal and infant mortality for twins vs singletons. Twin Research, 4, 227-231.
- Carey, J. C. og Gibbs, R. S. (2008). Preterm Labor and Post–term Delivery. Í R. S. Gibbs, B. Y. Karlan, A. H. Haney og I. Nygaard. Danforth´s obstetrics and gynecology. (10. útgáfa, bls. 165-186). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
- Newman, R. B. og Rittenberg, C. (2008). Multiple Gestaton. Í R. S. Gibbs, B. Y. Karlan, A. H. Haney og I. Nygaard. Danforth´s obstetrics and gynecology. (10. útgáfa, bls. 220-245). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
- Ragnheiður Sigurðardóttir og Rakel Björg Jónsdóttir. (2007). Börn á Vökudeild 1976-2006. Landspítali Háskólasjúkrahús – Barnaspítali Hringsins.
- Guðjón Vilbergsson og Sæmundur Haraldsson. (1999). Þrí- og fjórburafæðingar á Íslandi 1982-1998. Læknablaðið, 85, 975-980.
- Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Gestur Pálsson og Alexander K. Smárason (Ritstj.). (2006). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 2005. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins, Landspítali Háskólasjúkrahús.
- 10. Ragheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson (Ritstj.). (2007). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 2006. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins, Landspítali Háskólasjúkrahús.
- 11. Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson (Ritstj.). (2008). Skýrsla frá fæðingarskráningunni fyrir árið 2007. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins, Landspítali Háskólasjúkrahús.