Fylgja er sögð lágsæt sé hún staðsett það neðarlega í leginu að hún nái að legopi og fyrirsæt þegar hún nær að hluta til eða öllu leyti yfir legopið. Fyrirsæt fylgja skapar hættuástand á meðgöngu fyrir bæði móður og barn, aukin hætta er á blæðingu og getur barnið þurft að fæðast fyrir tímann vegna þess (1). Uppgötvast getur að fylgjan sé fyrirsæt í kjölfar blæðingar á síðari hluta meðgöngunnar en undanfarna áratugi hefur tæknin gert læknum kleift að staðsetja fylgjuna með ómskoðun og auka þannig eftirlit og öryggi kvenna sem hafa fylgjuna staðsetta á hættulegum stað (2).
Fæðing í gegnum fæðingarveg er vænlegri kostur fyrir börn. Því er mikilvægt að staða fylgjunnar sé nákvæmlega ákvörðuð fyrir fæðingu (1). Ef fylgjan er staðsett nálægt legopi en fylgjukantur nær meira en 2 cm frá miðju legops er hægt að reyna fæðingu í gegnum fæðingarveg hafi engar blæðingar átt sér stað. Ef fylgjukanturinn er staðsettur um 1-2 cm frá legopi getur reynst erfitt að meta hvort hún sé líkleg til að haldast frá opinu þegar leghálsinn fer að opnast. Ef engin blæðing hefur verið er hægt að reyna fæðingu í gegnum fæðingarveg. Ef fylgjukanturinn er minna en 1 cm frá legopinu eru líkur til þess að barnið verði að fæðast með keisaraskurði til að tryggja öryggi móður og barns (2). Ef fylgjan er alveg fyrir leghálsinum geta æðarnar sem tengjast henni rifnað þegar leghálsinn opnast, með tilheyrandi blæðingu. Í slíkum tilfellum eru börn alltaf látin fæðast með keisaraskurði. Konur með fyrirsæta fylgju eiga oftar fyrir tímann en konur með eðlilega staðsetta fylgju (3).
Það er algengara að fylgjan sé fyrirsæt meðal fjölbyrja, kvenna eldri en 35 ára og þeirra sem áður hafa farið í keisaraskurð. Konur með fyrirsæta fylgju eiga frekar á hættu að fá blæðingu í kjölfar fæðingar og börnin eru líklegri til að eiga í erfiðleikum eftir fæðinguna. Borin saman við önnur börn voru þau sem fæddust eftir fyrirsæta fylgju líklegri til að hafa 1) lægra apgar-skor fimm mínútum eftir fæðingu; 2) vera léttari við fæðinguna; 3) líklegri til að þjást af glærhimnusjúkdómi eða fyrirburaandnauð; 4) fá gulu og 5) dvelja lengur á nýburagjörgæslu eftir fæðinguna. Því er eftirlit nauðsynlegt þegar fylgjan er fyrirsæt (3).
Tíðni er ekki há og er talið að kvillinn eigi sér stað við eina af hverjum 100 til 200 meðgöngum eða 0,5% til 1% tilvika (2). Líkurnar á fyrirsætri fylgju eru aðeins 1 af 1500 meðan frumbyrja en allt að 1 á móti 20 meðal kvenna sem eiga margar meðgöngur að baki. Hafi fylgjan verið fyrirsæt á fyrri meðgöngu eru auknar líkur á að fylgjan staðsetji sig aftur á sama stað (2).
Heimildir:
- Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing Family (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.
- Kay, H. H. (2008). Placenta previa and abruption. Í R. S. Gibbs, B. Y. Karlan, A. H. Haney og I. Nygaard. Danforth´s obstetrics and gynecology. (10. útgáfa, bls. 385-399). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
- Zlatnik, M. G., Cheng, Y. W., Norton, M. E., Thiet, M. og Caughey, A. B. (2007). Placenta previa and the risk of preterm delivery. The Journal of Maternal-Fetal and Neonatal Medicine, 20, 719-723.