Hitakassi

Eftir fæðingu verður hitatap vegna uppgufunar frá blautri húð fyrirburans, sem er þess vegna þurrkaður sem fyrst og komið er í veg fyrir hitatap með því að vefja barnið inn í heitt lak og það sett í hitakassa (e. incubator). Allt þetta fer eftir umfangi aðstoðarinnar sem barnið þarf (1). Líkt og aðrir verða fyrirburar að hafa stöðugan líkamshita við um 37°C. Ef líkamshiti barnsins er of hár eða of lágur getur það reynst streituvaldandi og valdið því að barnið þyngist ekki sem skyldi, hraðari hjartslætti eða óreglulegri öndun (2).

Lokaður hitakassi er með tvöföldu gegnsæju plasti og á hliðunum eru opnanlegar lúgur þar sem hægt er að setja hendur inn í kassann til að hjúkra barninu og annast það. Einnig er hægt að opna kassann á hlið til að taka barnið úr kassanum. Hlutverk hitakassa er að halda hita á barninu. Hægt er að stilla kassann eftir því hversu mikinn hita barnið þarf. Í þessu skyni er líkamshiti barnsins mældur, fylgst með honum reglulega og hitastig kassans stillt eftir því. Einnig er rakastigi stjórnað innan hitakassans, en það er afar mikilvægt fyrir viðkvæma húð fyrirburans. Utan á hitakassanum eru upplýsingar um hitastigið inni í honum (1,2). Opið hitaborð er með hita undir dýnunni og yfir borðinu og hentar vel stærri börnum sem þurfa mikla aðhlynningu (1,3).

Barn í hitakassa þarf ekki að klæðast fötum og er yfirleitt aðeins í bleyju en er vafið inn í „hreiður“ sem minnir helst á hlýjuna og öryggið í móðurkviði. Hægt er að breiða ábreiðu yfir hitakassann til að skýla barninu fyrir ljósum og áreiti nýburagjörgæslunnar. Oft er hitakassinn hafður óhulinn til að auðvelda starfsfólki að fylgjast með barninu. Þegar barnið þroskast og nær að stjórna líkamshita sínum betur getur það flust yfir í vöggu með eða án hitadýnu (1).

Myndir af hitakassa

Heimildir:
  1. Bradford, N. (2000). Your premature baby. London: Frances Lincoln Ltd.
  2. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.
  3. Kitchen, W. H., Ryan, M. M. Rickards, A. L. og Doyle, L. W. (1989). Fyrirburar: foreldrahandbók (Sigríður Sigurðardóttir þýddi). Reykjavík: Mál og menning (Upphaflega gefið út 1985).