Æðaleggur

Flestir fyrirburar þurfa að fá æðaleggi (e. intravenous lines) (1) til að koma til þeirra vökva, söltum, næringu og nauðsynlegum lyfjum. Æðaleggur er settur inn í æð rétt undir húð barnsins í fæti, hönd eða á höfði. Þegar börnin geta ekki fengið mjólk, er hægt að gefa þeim næringu í gegnum æðalegginn (1). Einnig fá þau lyf gegnum legginn og þarf þá ekki að stinga þau við hverja lyfjagjöf (2).

Óþægilegt getur verið fyrir barnið að fá æðalegg og þess vegna vilja hjúkrunarfræðingar halda æðaleggnum á sama stað eins lengi og hægt er en oftast þarf að skipta um stað á nokkurra daga fresti. Þegar æðalegg er komið fyrir á handlegg eða fótlegg er settur svampur í kringum legginn og síðan er vafið um hann svo hann megi haldast á sínum stað, og til að hann meiði ekki barnið (2). Börnunum þykir vitaskuld óþægilegt að láta stinga sig en rannsóknir hafa sýnt að fram á að sykurlausn í munn tveimur mínútum fyrir gjöf dregur úr sársaukanum. Sykurlausnin er úr reyrsykri (e. sucrose), samsetning af glúkósa og frúktósa og fær barnið sykurlausnina á snuðið sitt. Áhrif sykurlausnarinnar og sogsins eru taldar vinna saman að minni sársauka hjá barninu (3,4).

Það getur verið óþægileg sjón að sjá æðalegg í höfði barnsins síns en sá staður hefur þó ákveðna kosti umfram handlegg og fótlegg. Æðar í höfðinu eru greinilegri og auðveldara að stinga í þær, barnið er ólíklegra til að losa legginn og ekki þarf að vefja svampa og vafninga um legginn líkt og þegar hand- eða fótleggur er notaður. Æðaleggur í höfðinu er þess vegna barninu oft á tíðum þægilegri (1).

Heimildir:

  1. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.
  2. Zaichkin, J. (2002b). A different beginning. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 15-31). California: NICU INK Book Publishers.
  3. Gardner, S. L, Hagedorn, M. I. E. og Dickey, L. A. (2006). Pain and pain relief. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 223-270). St. Louise: Mosby.
  4. Rakel Björk Jónsdóttir og Guðrún Kristjánsdóttir. (2003). Sykurlausn í munn við verkjum hjá fyrirburum og fullburða nýburum. Tímarit íslenskra hjúkrunarfræðinga, 79, 20-27.