Fósturæðin (e. ductus arteriosus) er við hjarta barnsins og er staðsett á milli ósæðarinnar og lungnaslagæðarinnar. Hún hefur mikilvægu hlutverki að gegna á meðgöngunni með því að leyfa blóði að streyma um líkamann án viðkomu í lungunum sem ófædda barnið er ekki byrjað að nota. Eftir fæðingu lokast þessi æð vanalega þar sem hún hefur ekki lengur hlutverk.
Stundum helst fósturæðin þó opin eða opnast aftur (e. patent ductus arteriosus – PDA) og á það sér sérstaklega stað hjá litlum fyrirburum (1,2). Greining á opinni fósturæð fer fram með ómskoðun á hjarta. Fósturæðin getur lokast án aðstoðar en það er sjaldgæfara hjá fyrirburum en meðal fullburða barna. Þá þarf að gefa barninu lyf til að loka fósturæðinni og dugi það ekki til þarf að framkvæma aðgerð til að loka æðinni (3). Opin fósturæð á sér stað hjá um 20% barna með fæðingarþyngd 1000 til 1500 g (1) og hjá um 50% barna undir 1000 g (3).
Heimildir:
- Askin, D. F. (2002). Major medical problems. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 165-209). California: NICU INK Book Publishers.
- Kitchen, W. H., Ryan, M. M. Rickards, A. L. og Doyle, L. W. (1989). Fyrirburar: foreldrahandbók (Sigríður Sigurðardóttir þýddi). Reykjavík: Mál og menning (Upphaflega gefið út 1985).
- Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).