Gula (e. jaundice) er mjög algeng meðal fyrirbura. Mjög ólíklegt er að barn með fæðingarþyngd undir 1000 g þurfi ekki á ljósameðferð að halda vegna gulu (1). Einkennin lýsa sér þannig að húð barnsins verður gulleit, minnir jafnvel á sólbrúnku og börnin fá gulan lit í augun. Nýburar eru með mikið magn rauðra blóðkorna í líkamanum. Þetta aukna blóð brotnar niður í gult efni sem nefnt er gallrauði (e. bilirubin) sem myndast við niðurbrot á blóðrauða. Þau efnahvörf í lifrinni sem þarf til að skila gallrauðanum út úr líkamanum eru lítið virk fyrstu dagana eftir fæðingu og þess vegna safnast gallrauðinn fyrir í líkamanum og veldur gulu.
Gulan er ekki hættuleg, sé hún meðhöndluð, en ef hún verður mikil getur hún verið það. Gula er greind með því að taka blóðprufu og mæla magn gallrauða í blóðinu. Eftir því sem barnið er minna og veikara, þeim mun fyrr er byrjað að veita meðferð við hækkun í gallrauða. Í langflestum tilfellum dugir ljósameðferð til meðhöndlunar gulu en annars verður að gefa barninu blóðgjöf með blóði sem inniheldur meiri gallrauða (2,3,4).
Heimildir:
- Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
- Anna Sigríður Vernharðsdóttir. (2005). Nýburagula: hlutverk ljósmæðra við forvarnir, mat og meðferð. Ljósmæðrablaðið, 83, 28-34.
- Frank, C. G. og Frank, P. H. (2006). Jaundice. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 548-568). St. Louise: Mosby.
- Kitchen, W. H., Ryan, M. M. Rickards, A. L. og Doyle, L. W. (1989). Fyrirburar: foreldrahandbók (Sigríður Sigurðardóttir þýddi). Reykjavík: Mál og menning (Upphaflega gefið út 1985).