Vökudeild Barnaspítala Hringsins er nýburagjörgæsludeild og sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Deildin er staðsett á þriðju hæð Barnaspítala Hringsins og er gangur á milli Fæðingardeildar og Vökudeildar. Deildin sinnir fyrirburum og veikum nýburum og flest börn leggjast inn við fæðingu eða stuttu eftir hana. Nýburaskeiðið nær yfir fyrstu 28 dagana eftir fæðingu og því leggjast börn sjaldnast inn á Vökudeild eftir eins mánaðar aldur.
Starfsemi deildarinnar nær yfir allan sólarhringinn allt árið um kring, enda þarfnast sjúklingarnir sólahringsumönnunar. Nafn deildarinnar vísar til þess að ávallt er vakað yfir skjólstæðingunum.
Vökudeildin var stofnuð árið 1976 og var þá staðsett á Kvennadeild Landspítalans. Þegar hinn nýi Barnaspítali Hringsins var opnaður árið 2003 fluttist Vökudeildin þangað í nýja og betri aðstöðu. Á deildinni eru 10 gjörgæslurými á tveimur sjúkrastofum og 12 rými fyrir minna veik börn á þremur sjúkrastofum.
Helstu áherslur Vökudeildarinnar eru einstaklingshæf fjölskylduhjúkrun, þar sem lögð er áhersla á að barn jafnt sem foreldrar séu skjólstæðingar deildarinnar. Beitt er þroskahvetjandi hjúkrun þar sem tryggð er umönnun við hæfi barnsins eftir aldri þess og þroska. Leitast er við að tryggja sem best að fyrirburar nái að þroskast og dafna á sem bestan hátt. Það er meðal annars gert með því að láta þau liggja í svokölluðum hreiðrum í hitakössum, draga úr áreiti frá ljósum og hávaða, veita verkjameðferð, stuðla að brjóstagjöf og að auki er veitt svonefnd kengúru-umönnun.
Við Vökudeildina starfa læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Í tengslum við deildina starfa einnig félagsráðgjafar og sjúkrahúsprestur.
- Myndir frá vökudeild
- Helstu vandamál fyrirbura á nýburagjörgæslu
- Tæki, búnaður og meðferð
- Brjóstagjöf
- Kengúrumeðferð