Börn á nýburagjörgæslu þurfa gjarnan á öndunaraðstoð að halda vegna þess að þau eru fædd fyrir tímann eða vegna mikilla veikinda. Sum þurfa enga hjálp, önnur aðeins litla hjálp í stuttan tíma meðan enn önnur krefjast mikillar aðstoðar dögum og jafnvel vikum saman (1). Barnið þarf að anda að sér lofti sem inniheldur meiri þéttni/styrk súrefnis en það getur fengið af eigin rammleik. Loftið sem við öndum að okkur inniheldur um 21% súrefni. Auka súrefni er allt það súrefni sem barninu er gefið umfram þessi 21% sem fást úr andrúmsloftinu, allt upp í 100%. Auka súrefni er hitað og settur í það raki og er hægt að gefa það á mismunandi hátt eftir því sem hentar best hverju sinni (2).
Síblástur – CPAP
Þetta tæki er kallað síblásturstæki á íslensku (3) en yfirleitt er talað um það sem CPAP (borið fram sípap). CPAP er skammstöfun á enska heitinu sem er Continuous Positive Airway Pressure og gæti útfærst sem stöðugur jákvæður loftþrýstingur (fyrir öndun barnsins). Barnið andar sjálft en síblásturstækið sér fyrir stöðugu flæði lofts og þrýstir því niður til lungnanna. Þannig þarf barnið minni orku til að anda og það hjálpar til þess að koma í veg fyrir að litlu loftsekkirnir í lungunum falli saman (1,2).
Síblásturstækið flytur loftið til barnsins um slöngu sem endar í tveimur litlum rörum, sem falla beint inn í nasir barnsins. Börn á síblásturstæki geta haft uppbrett nef og för á kinnum eftir böndin á tækinu. Slíkt er ekkert til að hafa áhyggjur af, það lagast með tímanum (1,2). Síblástur er áhrifarík leið til að aðstoða fyrirbura við öndun og getur minnkað líkurnar eða komið í veg fyrir að barkaþræða þurfi barnið og tengja við öndunarvél (Glittermann, Fusch, Gittermann, Regazzoni og Moessinger, 1997; Morley o.fl., 2008).
Öndunarvél
Fyrirburar geta þurft á öndunarvél (e. ventilator) að halda til að aðstoða þá við öndun. Þá er slanga, sem tengd er við vélina, þrædd inn um öndunarveg barnsins sem flytur loft og súrefni til barnsins í réttu magni og í réttum þrýstingi við hvern einasta andardrátt. Veikustu börnin þurfa oft á tíðum mikið magn af súrefni (allt að 100%) og við frekar háan þrýsting. En eftir því sem barnið nær meira valdi á öndun sinni er þrýstingur öndunarvélarinnar minnkaður og barnið aðstoðað með færri andardrætti á mínútu (1).
Barn í öndunarvél getur andað sjálft í takt við hana. Þegar lungnasjúkdómur barnsins fer að batna er tímabært að venja barnið af öndunarvélinni og grípa til tækjabúnaðar sem veitir minni öndunaraðstoð, til dæmis síblásturstækis. Barnið getur líka óvart tekið úr sér barkaslönguna úr öndunarvélinni. Sé þrek þess enn of lítið verður það að fara aftur í vélina. Í sumum tilfellum nær barnið að anda sjálft og er þá gengið úr skugga um nauðsyn eða nauðsynjaleysi áframhaldandi öndunarvélarmeðferðar. Barn í öndunarvél getur ekki grátið því staðsetning barkaslöngunnar gerir því ókleift að beita raddböndunum. En gráti það eigi að síður er ljóst að slangan hefur færst til (2,1).
„Höfuðbox“ og öndunargríma
Börn sem geta andað sjálf en þurfa auka súrefni geta fengið það í gegnum box, sem sett er yfir höfuð þess eða gegnum trekt sem sett er að vitum barnsins eftir þörfum. Súrefnisbox hentar fyrir börn sem liggja á opnu hitaborði. Þegar foreldrar fá barnið í fangið er hentugt að gefa því súrefni í gegnum slöngu með trekt á endanum (1,2).
Súrefnispípa/gleraugu
Súrefnispípur eða súrefnisgleraugu (e. nasal/oxygen cannual) henta börnum sem sjálf geta dregið andann en þarfnast aukasúrefnis. Súrefni flyst þá til barnsins í gegnum litlar plastslöngur sem liggja undir nösum barnsins. Plastslöngurnar liggja síðan bak við eyrun og aftur fyrir háls barnsins. Þær líkjast þannig gleraugum og af því er dregið orðið súrefnisgleraugu (1,2).
Heimildir:
- 1 Zaichkin, J. (2002b). A different beginning. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 15-31). California: NICU INK Book Publishers.
- 2 Bradford, N. (2000). Your premature baby. London: Frances Lincoln Ltd.
- 3 Þórður Þórkelsson. (2009). Lífslíkur fyrirbura. Læknablaðið, 95, 105.