Verkir og verkjastillandi meðferð

Fyrirburar finna til sársauka og vegna þess hve taugakerfi barnanna er óþroskað er talið að fyrir 32 vikna meðgöngulengd geti börnin jafnvel fundið enn meiri sársauka en eldri einstaklingar (1). Verkjastilling er því ein þeirra meðferða sem veittar eru á nýburagjörgæslu. Það er gert til að barninu líði sem best (2). Verkjastilling getur verið í formi lyfja eða með því að gefa barni sykurlausn á snuð. Einnig hafa verkjastillandi áhrif þættir á borð við að drekka af brjósti móður, að vera í fangi foreldris eða finna fyrir huggun frá því (1). Börn geta ekki orðið háð verkjalyfjum, en þau geta myndað þol gegn þeim. Ekki hefur verið sýnt fram á neikvæð tengsl fyrirbura við foreldra ef þeir eru hjá þeim þegar þeir upplifa sársaukafulla aðgerð (til dæmis nálarstungu). Hlutverk foreldra við að styðja barnið sitt og hugga er talinn mjög mikilvægur liður í verkjameðferð (2).

Heimildir:
  1. Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
  2. Gardner, S. L, Hagedorn, M. I. E. og Dickey, L. A. (2006). Pain and pain relief. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 223-270). St. Louise: Mosby.