Öndunarhlé

Öndunarhlé (e. apnea) stafar einkum af vanþroska í öndunarstjórnstöðvum heilastofnsins og lýsir sér þannig að barn hættir að anda tímabundið og stundum hægir á hjartslætti í kjölfarið (1). Öndunarhlé er standa yfir í fimm til tíu sekúndur teljast eðlilegt öndunarform hjá ungum fyrirburum. Það er nefnt apnea eða öndunarhlé þegar 1) öndun barnsins stoppar í lengri tíma en tíu til fimmtán sekúndur eða 2) þegar öndunarstopp varir það lengi að vart verður breytinga á borð við bláma, hægslátt (e. bradycardia), slekju (e. hypotonia) eða blóðsýringu (e. metaboloic acidosis). Hjá sumum litlum fyrirburum koma þessar breytingar fram eftir aðeins fimm til tíu sekúndna öndunarstopp.

 

Öndunarhlé verða umtalsvert tíðari með styttri meðgöngulengd og eru þá fleiri og alvarlegri (1). Meðal allra fyrirbura fer einn af hverjum fjórum í öndunarhlé og hjá fyrirburum sem fæddir eru fyrir 30 vikur er hlutfallið fjórir af hverjum fimm (2). Aðeins einn af hverjum tíu fyrirburum sem fæðast eftir meira en 34 vikur fer í öndunarhlé (3) en nær allir fyrirburar með fæðingarþyngd undir 1000 g (4) Fyrsta öndunarhléið kemur yfirleitt á fyrsta sólahringnum hjá börnum sem anda án hjálpar en síðar hjá börnum sem njóta öndunaraðstoðar (3). Sé barn án öndunaraðstoðar laust við öndunarhlé fyrstu viku líf síns eru líkur á slíku hléi orðnar hverfandi litlar (2).

 

Öndunarhlé eiga á hættu að ágerast, eigi barnið í öðrum erfiðleikum, svo sem lágum blóðhag eða blóðsykri, of háum eða lágum líkamshita, eða vegna sýkingar. Fleiri öndunarhlé geta gefið vísbendingu um að barnið sé að verða veikt. Þessi hlé vara oft stutt og komast börnin gjarnan sjálf upp úr þeim og byrja að anda. Þau geta þó þurft hjálp, meðal annars með að ýta við barninu og að strjúka því og þannig örva öndunina. Dugi það ekki til, verður að gefa því súrefni. Stundum nægir að rétt koma við barnið til að hjálpa því að ná sér upp. Í undantekningartilfellum getur þurft að anda fyrir barnið með belg og maska. Tíð öndunarhlé eru vísbending um þörf á lyfjagjöf eða öndunaraðstoð (2,3).

 

Þegar öndunarvandi fyrirbura stafar af vanþroska, þá lagast hann yfirleitt með vaxandi þroska, í mörgum tilfellum eftir um 37 vikna meðgöngulengd eða nálægt áætluðum fæðingardegi. Ef barnið fær fleiri eða alvarlegri öndunarhlé og þeim linnir ekki þótt komnar séu 37 vikur í meðgöngulengd, gætu læknar viljað gera fleiri rannsóknir, gefa því annað lyf eða veita öndunaraðstoð (2).

 

Heimildir:

  1. Martin, R. J., Klaus, M. H. og Fanaroff, A. A. (1986). Respiratory Problems. Í M. H. Klaus og A. A. Fanaroff (Ritsj.), Care of the High-Risk Neonate. (3. útgáfa, bls. 171-201). Phildelphia: W. B. Saunders Company.
  2. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.
  3. Thompson, M. W. og Hunt, C. E. (2005). Control of breathing; development, apnea of prematurity, apparent life-threatening events, sunnden infant death syndrome. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 535-548). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
  4. Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.