Heilablæðing

Minnstu fyrirburarnir og börn sem orðið hafa fyrir áfalli í fæðingu eiga mest á hættu að fá heilablæðingu. Við fæðingu breytist umhverfi barnsins og um leið blóðflæði og súrefni um heilann. Þetta getur orðið til þess að viðkvæmar æðar í heila barnsins gefi sig og þar blæði. Einkenni heilablæðinga eru oft lítil og er blæðingin yfirleitt greind og metin með ómskoðun á höfði (1). Algengast er að heilablæðing eigi sér stað á þremur fyrstu dögum eftir fæðingu og er ólíklegt að blæðing eigi sér stað eftir fyrstu vikuna í lífi barnsins (2).

Heilablæðingar eru flokkaðar í fjórar gráður eftir alvarleika og eru nefndar gráða 1, 2, 3 og 4. Heilablæðing af gráðu 1 er lítil blæðing inn við hliðarhólf heilans. Gráða 2 er það kallað þegar blæðingin hefur brotist inn í heilahólf. Við gráðu 3 hefur blæðingin vaxið það mikið að orðið hefur útvíkkun á heilahólfinu. Gráða 4 er mikil blæðing í heilavef sem hefur yfirleitt brotist inn í heilahólf (1).

Börn sem fá heilablæðingu af fyrstu eða annarri gráðu eiga jafn mikla möguleika til eðlilegs þroska og börn sem ekki hafa ekki fengið heilablæðingu. Á hinn bóginn eru börn sem fá heilablæðingu af þriðju eða fjórðu gráðu í aukinni áhættu að fá þroskaskerðingu í kjölfar blæðingarinnar (1,3).

Talið er að allt að 60% barna sem fædd eru undir 1000 grömmum fái einhverja heilablæðingu en í flestum tilfellum er blæðingin af fyrstu eða annarri gráðu og um 90% eiga ekki við nein langvarandi vandamál að stríða í kjölfarið (1). Tíðni alvarlegra heilablæðinga hefur farið minnkandi undanfarin ár. Erlendar tölur sýna að um 9-13 % barna með fæðingarþynd undir 1000 g fá alvarlega heilablæðingu en aðeins 2-5% barna með fæðingarþyngd yfir 1000 g. Ef miðað er við meðgöngulengd er tíðni alvarlegra heilablæðinga 16% meðal barna sem fædd eru fyrir 25 vikna meðgöngu en aðeins 1-2% meðal barna sem fæðast eftir meira en 25 vikna meðgöngulengd (2).

Á ensku er talað um intraventricular hemorrhage eða intracranial hemorrhage.

Heimildir:
  1. Askin, D. F. (2002). Major medical problems. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 165-209). California: NICU INK Book Publishers.
  2. Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
  3. Vassilyadi, M., Tataryn, Z., Shamji M. og Ventureyra, C. G. (2009). Functional outcomes among premature infants with intraventricular hemorrhage. Pediatric Neurosurgery, 45, 247-255.