Blóðhagur - tímabundið blóðleysi

Rauð blóðkorn sjá um að flytja súrefni um blóðið. Tímabundið blóðleysi (e. anemia of prematurity) á sér stað þegar fjöldi rauðra blóðkorna fellur niður fyrir eðlileg mörk (1). Flestallir fyrirburar verða blóðlausir fyrstu vikurnar eftir fæðingu. Hjá flestum er vandamálið tímabundið og lagast þegar þeir stækka. Fyrirburar geta orðið mjög veikburða af blóðleysi, verða þreyttari, þyngjast hægar, eiga í meiri vandræðum og eru líklegri til að gera hlé á öndun. Ef börnin sýna þessi einkenni í kjölfar tímabundins blóðleysis þarfnast þau blóðgjafar til að fjölga rauðum blóðkornum (2). Nær alltaf þarf að gefa minnstu og veikustu fyrirburunum blóð (1).

 

Meðan barnið er í móðurkviði fær það súrefni í gegnum fylgju móður. Þegar það fæðist og byrjar að anda þarf það ekki jafn mikið af súrefni í blóðið og hægist þá á framleiðslu rauðra blóðkorna. Þegar of lítið verður eftir af þeim verður vart við blóðleysi. Einnig getur það átt sér stað vegna þess hve oft þarf að taka blóðprufu úr barninu (1). Til að mæla blóðhag er mælt magn blóðrauða (hemóglóbíns) í blóðinu. Járn hefur áhrif á blóðrauða og því er nauðsynlegt að gefa fyrirburum járn til að halda blóðhag í jafnvægi. Járninntöku kannast margar konur við frá mæðraverndinni á meðgöngutímanum (2).

 

Heimildir:

Aher, S., Malwatkar, K. og Kadam, S. (2008). Neonatal anemia. Seminars in Fetal & Neonatal Medicine, 13, 239-247.

  1. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.