Brjóstagjöf

Brjóstagjöf fyrirbura

Mæður fyrirbura eru hvattar til að gefa barninu brjóstamjólk. Móðurmjólkin er talin besta fæðan fyrir barnið og er talin mikilvæg fyrir alla nýbura og sérstaklega fyrirbura. Samkvæmt tilmælum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er hérlendis mælt með því að brjóstamjólk sé eina fæða barnsins fyrstu 6 mánuði lífsins (sé þess kostur) og að barnið fái brjóstamjólk með öðrum mat fram til tveggja ára aldurs (WHO) (1,2,3,4).

Börnin fá vissa vörn gegn sýkingum í gegnum móðurmjólkina og einnig getur mjólkin hjálpað til við að vinna gegn gulu og dregið úr líkum á bólgusjúkdómi í þörmum (NEC). Meltingarfæri fyrirbura eru óþroskuð og viðkvæm og eiga fyrirburarnir auðveldara með að melta brjóstamjólk en þurrmjólk. Einnig er talið að móðurmjólkin hafi jákvæð áhrif á vitsmunaþroska barna (5,4).

Mæður geta framleitt mjólk eftir fæðingu þó barnið fæðist löngu fyrir tímann. Börn sem eru fædd mikið fyrir tímann geta ekki drukkið strax og fer það eftir meðgöngulengd barnsins og ástandi þess hvenær barnið getur lært það. Til að drekka rétt þarf barnið að nota varir, kjálka, tungu, efri góm, kok, barka og vélinda og fyrirburar eiga í erfileikum með að samhæfa það að anda, sjúga og kyngja á sama tíma. Talið er að þau geti náð þeirri samhæfingu eftir um 32.-34. vikna meðgöngulengd, en það er þó misjafnt eftir ástandi og veikindum barns (6). Fyrst um sinn er börnum því gefin brjóstamjólkin í gegnum magasondu og geta báðir foreldrar tekið þátt í því. Þegar barnið fær mjólk í gegnum sonduna er gott að láta það sjúga snuð, litla putta foreldris eða geirvörtuna um leið til að hjálpa því að tengja magafyllinn við sogið.

Mæður eru hvattar til að mjólka sig fljótlega eftir fæðingu svo hægt sé að gefa barninu mjólkina. Mjólk fyrirburamæðra er öðruvísi samansett en mjólk mæðra sem eiga fullburða börn og hentar á margan hátt betur þörfum fyrirburans (4). Hins vegar er brjóstamjólkin ekki fullkomin næring fyrir fyrirburann. Því þarf að bæta kalki, fosfór og próteinum í brjóstamjókina til þess að beinþéttni barnsins verði eðlileg og það þyngist eðlilega. Það geta liðið margar vikur eða mánuðir þar til yngstu fyrirburarnir ná að komast alfarið á brjóstið. Það getur reynst erfitt fyrir margar mæður að mjólka sig þetta lengi og þær gætu þurft góðan stuðning. Það getur verið hughreystandi fyrir móðurina að hugsa að þessi tími eigi eftir að taka enda og að lokum komist barnið á brjóstið og þá sé fyrirhöfnin vel þess virði. Kengúrumeðferð húð-við-húð snerting móður og barns hjálpar til við brjóstagjöf og gott er að leyfa barninu að vera sem mest í fanginu á móðurinni svo lengi sem starfsfólk sjúkrahússins telji það ráðlagt (5).

Arnheiður Sigurðardóttir (7) hjúkrunarfræðingur, brjóstagjafaráðgjafi og lýðheilsufræðingur hefur gert fræðsluefni um brjóstagjöf fyrirbura. Þar kemur fram að nýlegar rannsóknir hafi breytt viðhorfi sérfræðinga til brjóstamjólkur og nú sé farið að líta á brjóstamjólk sem mikilvægan lið í meðferð fyrirbura. Fræðsluefnið má nálgast hér (7) á vefsíðu hennar brjostagjof.is

Mjólkun

Fyrst um sinn gæti móðir þurft að mjólka sig fyrir barnið og er best að hún komist í mjaltavél sem fyrst eftir að barnið er fætt, en ráðlagt er að það gerist helst innan 6 klst. til að byrja að örva mjólkurmyndun. Í byrjun er notast við mjaltarvél og mjaltasett sem móðir fær lánað á spítalanum. Gott getur verið fyrir móðurina að vera nálægt barninu þegar hún mjólkar sig, til dæmis í hægindastól nálægt barninu inn á nýburagjörgæslunni. Einnig getur verið gott að hafa eitthvað við höndina sem minnir hana á barnið ef hún er fjarri barninu, eða hafa mynd af barninu hjá sér og hugsa til þess. Mæður eru hvattar til að leita hjálpar hjá starfsfólki sjúkrahússins til að aðstoða við brjóstagjöf og mjólkun (1).

Áður en mjólkun hefst skal móðir þvo sér vel um hendurnar og passa að allur búnaður sé hreinn. Gott er að þvo brjóstin og geirvörtunar með heitum þvottapoka og láta heitt liggja við brjóstin í nokkrar mínútur fyrir mjólkun. Bestur árangur næst með því að mjólka bæði brjóst í einu með tvöföldu mjaltarsetti. Móður gæti þó þótt þægilegra að byrja á því að mjólka bara annað brjóstið meðan hún nær tökum á því eða til að ná að nota hina höndina til að styðja við. Þegar lengra er liðið getur verið gott að reyna aftur að nota mjaltarsettið á bæði brjóstin í einu. Sumum mæðrum hefur reynst vel að slaka á yfir sjónvarpi eða útvarpi meðan þær mjólka sig. Börnum er gefin mjólkin sem móðir mjólkar í gegnum sonduna eða í pela eða staupi eftir því hvað hentar hverju barni hverju sinni.

Þegar brjóstagjöf gengur ekki upp

Brjóstagjöf gengur ekki alltaf upp hjá fyrirburum jafnt sem fullburða börnum. Það getur verið vegna einhverra vandræða hjá móður eða barni eða vegna þess að móðir megi ekki gefa brjóst, til dæmis vegna lyfja eða veikinda. Sumar mæður ákveða að hafa barnið ekki á brjósti eða geta það ekki vegna persónulegra ástæðna eða erfiðrar reynslu. Aðrar mæður reyna allt sem þær geta en brjóstagjöf gengur samt ekki upp. Mæður eru hvattar til að ræða við starfsfólkið á deild barnsins og leita aðstoðar brjóstagjafaráðgjafa ef einhver vandamál eru. Oftast er hægt að aðstoða við brjóstagjöfina með réttri aðstoð, leiðbeiningum og ráðgjöf. Brjóstagjafaráðgjafi er starfandi á kvennasviði og veitir aðstoð endurgjaldslaust fyrstu 6 vikur eftir fæðingu (10). Ef barn fær ekki brjóstamjólk frá móður á Vökudeildinni þá er því gefin þurrmjólkurblanda.

Ef brjóstagjöfin gengur ekki hefur það oft slæm áhrif á móðurina og henni finnst hún hafa brugðist. Mæður ættu ekki að ásaka sjálfa sig ef brjóstagjöfin gengur ekki. Þær ættu frekar að hugsa um allt hitt sem þær geta gert til að hjálpa barninu sínu sem best og einbeita sér sem best að því.

Á vefsíðu Heilsugæslunnar má finna upplýsingar um pelagjöf (11).

Fræðslu og leiðbeiningar um brjóstagjöf fyrirbura má finna hér:

Brjóstagjöf fyrirbura. Á vefsíðunni brjostagjof.is

Ónæmisfræði, fyrirburar og brjóstamjólk – Arnheiður Sigurðardóttir

Upplýsingar um brjóstagjöf eftir Karítas Ívarsdóttur og Ragnheiði Bachman (2).

Bæklingur um næringu ungbarna frá Manneldisráði og Miðstöð heilsuverndar barna (3).

Hvað á barnið að drekka mikið?

Snáði er alveg þrælsniðugt forrit sem hjálpar foreldrum að finna réttu skammtastærðina fyrir ungabarnið sitt. Margir fyrirburaforeldrar eru óöruggir um hve mikið barnið þeirra eigi að drekka. Foreldrar lítilla tvíburabræðra sem fæddust fyrir tímann komu með þessa frábæru lausn til að hjálpa sér.

Hér eru fræðigreinar er tengjast brjóstagjöf fyrirbura:

Hver dropi skiptir máli: Brjóstamjólkurbankar og hlutverk þeirra fyrir fyrirbura.

Kristín Linnet Einarsdóttir og Margrét Helga Skúladóttir (2014). BS verkefni, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið.

Lítil skref á þeirra hraða: Hvernig nýta má NIDCAP hugmyndafræði til að styðja við brjóstagjöf fyrirbura.

Soffía Hlynsdóttir og Petrea A. Ásbjörnsdóttir (2014). BS verkefni, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið.

Næring og grátur síðfyrirbura. Samanburður við fyrirbura og fullburða börn.

Valgerður Sævarsdóttir og Bryndís María Björnsdóttir (2014). BS verkefni, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið.

Tíðni og eðli kyngingar- og fæðuinntökuvandamála meðal fyrirbura fæddra fyrir 34. viku meðgöngu.
Ingunn Högnadóttir (2012). Meistaraprófsritgerð, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið.

Sjálfsöryggi mæðra við brjóstagjöf og umönnun fyrirbura Fræðileg samantekt.
Valdís María Emilsdóttir (2011). BS Verkefni, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið.

Brjóstagjöf fyrirbura og veikra nýbura.
Rakel Björg Jónsdóttir og Arna Skúladóttir. Tímarit hjúkrunarfræðinga 2010, 8(5):54-60

Heimildir:
  1. Anna Björg Aradóttir, Sesselja Guðmundsdóttir og Geir Gunnlaugsson (Ritstj.). (2009). Ung- og smábarnavernd. Leiðbeiningar um heilsuvernd barna. (Rafræn útgáfa). Reykjavík: Landlæknisembættið. Sótt 13. ágúst 2009 af http://landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4138
  2. Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachman. (2008). Brjóstagjöf. Reykjavík: Heilsugæslan – Miðstöð mæðraverndar. Sótt 7. apríl 2009 af http://www.hss.is/resources/Files/558_Brjostagjof.pdf
  3. Manneldisráð og Miðstöð heilsuverndar barna. (2009). Næring ungbarna. Sótt 2. ágúst 2009 af http://www.heilsugaeslan.is/pages/1610
  4. Wall, G. (2002). Feeding your baby. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 65-93). California: NICU INK Book Publishers.
  5. Marinelli, K. A. og Hamelin, K. (2005). Breastfeeding and the use of human milk in the neonatal intensive care unit. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. útgáfa, bls. 413-430). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins. (Rafræn útgáfa).
  6. Bu‘Lock, F., Woolridge, M. W. og Baum, J. D. (1990). Development of co-ordination of sucking, swallowing and breathing: ultrasound study of term and preterm infants. Developmental Medicine and Child Neurology, 32, 669-678.
  7. Arnheiður Sigurðardóttir. (2009). Ónæmisfræði, fyrirburar og brjóstamjólk. Sótt 20. september 2009 af http://brjostagjof.is/main/page_fyrirburar_fyrirburar.html
  8. Móðurást. (á.á.). Brjóstagjöf fyrirbura. Sótt 10. ágúst 2009 af http://www.modurast.is/Template1.asp? Sid_NR=587&E_NR=554&VS=1VS1.asp&VT=585&VT2=587
  9. Brjóstagjöf.is. (á. á). Fyrirburar. Sótt 11. september 2009 af http://brjostagjof.is/main/page_fyrirburar_fyrirburar.html
  10. Landspítali Háskólasjúkrahús. (á.á.) Um kvennadeildir. Sótt 1. ágúst 2009 af  http://lsh.is/pages/13372
  11. Fræðslu- og útgáfuhópur í ung- og smábarnavernd. (2007). Pelagjöf – þurrmjólkurgjöf. Miðstöð heilsuverndar barna. Sótt 12. júní 2009 af http://www.heilsugaeslan.is/?PageID=1657

Drífa Baldursdóttir. (2009). Fræðsluefni um fyrirbura á vefsíðunni www.fyrirburar.is