Vökudeild Barnaspítala Hringsins

Vökudeild Barnaspítala Hringsins er nýburagjörgæsludeild og sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Deildin er staðsett á þriðju hæð Barnaspítala Hringsins og er gangur á milli Fæðingardeildar og Vökudeildar. Deildin sinnir fyrirburum og veikum nýburum og flest börn leggjast inn við fæðingu eða stuttu eftir hana. Nýburaskeiðið nær yfir fyrstu 28 dagana eftir fæðingu og því leggjast börn sjaldnast inn á Vökudeild eftir eins mánaðar aldur.

 

Starfsemi deildarinnar nær yfir allan sólarhringinn allt árið um kring, enda þarfnast sjúklingarnir sólahringsumönnunar. Nafn deildarinnar vísar til þess að ávallt er vakað yfir skjólstæðingunum.

 

Vökudeildin var stofnuð árið 1976 og var þá staðsett á Kvennadeild Landspítalans. Þegar hinn nýi Barnaspítali Hringsins var opnaður árið 2003 fluttist Vökudeildin þangað í nýja og betri aðstöðu. Á deildinni eru 10 gjörgæslurými á tveimur sjúkrastofum og 12 rými fyrir minna veik börn á þremur sjúkrastofum.

 

Helstu áherslur Vökudeildarinnar eru einstaklingshæf fjölskylduhjúkrun, þar sem lögð er áhersla á að barn jafnt sem foreldrar séu skjólstæðingar deildarinnar. Beitt er þroskahvetjandi hjúkrun þar sem tryggð er umönnun við hæfi barnsins eftir aldri þess og þroska. Leitast er við að tryggja sem best að fyrirburar nái að þroskast og dafna á sem bestan hátt. Það er meðal annars gert með því að láta þau liggja í svokölluðum hreiðrum í hitakössum, draga úr áreiti frá ljósum og hávaða, veita verkjameðferð, stuðla að brjóstagjöf og að auki er veitt svonefnd kengúru-umönnun.

 

Við Vökudeildina starfa læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Í tengslum við deildina starfa einnig félagsráðgjafar og sjúkrahúsprestur.

 

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.