Að láta barninu líða vel á nýburagjörgæslunni

Hér koma nokkur ráð fyrir foreldra um umönnun barna á nýburagjörgæslu. Börn sem fæðast fyrir tímann hafa ekki náð fullum þroska í móðurkviði og á Vökudeild Barnaspítalns er notast við þroskahvetjandi meðferð (1) sem stuðlar að því að börnin vinni upp þennan þroska. Gott er fyrir foreldra að hugsa til þess að það sem barnið þekkir og veitir því öryggistilfinningu, er það sem minnir þau á fyrri reynslu þeirra úr móðurkviði. Barnið er ósjálfbjarga að öllu leyti og treystir algerlega á fullorðna til að komast af. Börn þurfa ekki aðeins umönnun, næringu, hlýju og hreinlæti, þau þurfa líka að finna fyrir ást og umhyggju (2) og þar kemur að mikilvægi foreldra í umönnun fyrirbura.

Heyrn

Heyrn fósturs þroskast á meðgöngunni og það fer að greina hljóð úr nánasta umhverfi. Barninu líkar vel hljóð sem það þekkir úr móðurkviði og því hefur rödd foreldris og hjartsláttur róandi áhrif á barnið og því líður vel á bringunni á foreldri sínu (2). Söngur, tónlist og notarleg umhverfishljóð geta haft góð áhrif á bæði barnið og umönnunaraðilana, það getur hjálpað barninu að slaka á og sofa betur. Foreldrar ættu því gjarnan að tala blíðlega við barnið og syngja eða spila fyrir það tónlist sem hefur róandi áhrif (3,4,5). Starfsfólk á nýburadeildum eru oft jákvætt í garð þess að sungið sé fyrir börnin og tónlist spiluð (4).

Barnið er einnig viðkvæmt fyrir hljóðum í umhverfi sínu, heilinn hefur ekki enn náð þeim þroska að útiloka sum áreiti og hleypa öðrum að og því geta of mörg áreiti í einu angrað barnið og valdið hjá því streitu. Því getur barnið einnig þurft á því að halda að algert næði sé í kringum það og það gæti verið nauðsynlegt að halda öllum áreitum í algeru lágmarki tímabundið meðan barnið nær sér, hafa hljótt og snerta það ekki ef læknar telja það ráðlegt (2,6). Foreldrar ættu að ráðfæra sig við þá sem annast barn þeirra um hvað þeir telji henta því.

Sjón

Börn sem eru fædd löngu fyrir tímann eru lengur að byrja að opna augun eftir fæðingu en þau sem fædd eru styttra fyrir tímann. Barn sem er fætt um 10 vikum fyrir tímann sér, en á erfitt með að ná góðri sjónskerpu. Börnin sjá betur það sem er nálægt þeim og getur barnið séð andlit foreldra sinna og fer að þekkja það frá öðrum. Fjarlægðin frá augum barnsins til andlits foreldris er einmitt ákjósanlegust þegar barnið er í fangi foreldris. Barnið hefur mestan áhuga á að horfa á andlit, skæra liti eða form í svörtu og hvítu og getur verið skemmtilegt að setja myndir hjá barnin til að leyfa því að horfa á (2,6).

Lyktarskyn

Lyktarskyn byrjar að þroskast í móðurkviði og þekkja börnin lyktina af móður sinni eftir fæðingu, lyktarskynið leiðir nýburann að geirvörtu móður að brjóstamjólkinni (2). Barninu gæti þótt gott að finna lykt af móður sinni og föður þegar þau eru fjarri og gætu foreldrar skilið eftir hlut hjá barninu með lykt af foreldrinu, til dæmis taubleyju sem móðir hefur haft inni á sér.

Snertiskyn

Foreldrar mega yfirleitt mjög snemma setja hönd inn í hitakassann og snerta barnið og fá barnið í fangið þegar ástand þess leyfir. Fyrirburar geta verið viðkvæmir fyrir snertingu og þeim þykir ekki gott að láta strjúka sér. En barninu gæti þótt gott þegar hönd foreldris hvílir á því og heldur um það (6) og einnig að halda um fingurinn á foreldri sínu, því það veitir því öryggi. Börnin verða óörugg ef þau liggja óvarin með alla útlimi lausa og útrétta. Það veitir þeim öryggi að hafa hendur og fætur beygð nálægt líkamanum, hendur að bringu og fætur að kvið (eins þau voru í móðurkviði). Hafið þetta hugfast þegar barnið er í hitakassanum, þegar það fær að koma í fangið eða þegar verið er að baða það. Þeim líður vel þegar þau eru vafin notalega í „hreiðrið“ sem þau fá í hitakassanum og í vöggunni finnst þeim gott að hafa sængina vafða þægilega um sig (7).

Þegar fyrirbura sem er stöðugur í lífsmörkum er strokið þéttingsfast og haldið þétt um hann getur það örvað barnið, hjálpað því að þyngjast og þroskast hraðar, dregið úr öndunarpásum og dregið úr gráti. Fyrirburar sem eru ekki stöðugir í lífsmörkum sýna öfug svör við mikilli snertingu og strokum, sýna streitumerki, minni súrefnismettun, gráta frekar og sýna merki um vanlíðan (2). Það er því mikilvægt fyrir foreldra að fá ráðleggingar hvernig snerting henti barnið þeirra hverju sinni.

Hér koma nokkrar ábendingar sem gætu hjálpað foreldrum að skilja hvenær barninu gæti liðið vel og hvenær því gæti liðið illa.

Nokkur merki um líðan barns: (8, 6, 7).
Merki um að barninu líði vel og finnist það öruggt
Það er með stöðugan hjartslátt, öndun og súrefnismettun.Það heldur í fingur foreldris.

Það sýgur snuð eða fingur.

Það liggur afslappað með hendur og fætur nálægt sér.

Litarhaft þess er jafnt og heilbrigt á að líta.

Þegar það liggur vakandi og horfir í kringum sig eða slakar á.

Þú sérð á því að það er rólegt og því líður vel.

Hjatsláttur, öndun og súrefnismettun barnsins er óstöðug.

Litarháttur þess er fölur, flekkóttur eða dökknar.

Það heldur höndunum fyrir andlitið eins og það sé að bera þær fyrir sig.

Það grætur, geispar og hikstar og lítur undan.

Það heldur höndum og fótum stífum út í loftið.

Það skelfur, hrekkur við eða iðar.

Sum börn gefa frá sér mismunandi skilaboð, sem erfitt getur verið að lesa í. Foreldri gæti talið að barninu liði vel og væri tilbúið til samskipta, en sjá svo greinilega vanlíðunartilfinningu hjá því. Það gæti verið t.d. vegna þess að barnið þurfi að ropa og gæti verið tilbúið að halda áfram eftir það (8).

Heimildir:
  1. Ragnheiður Sigurðardóttir, deildarstjóri Vökudeildar,  persónulegar upplýsingar
  2. Gardner, S. L. og Goldson, E. (2006). The neonate and the environment: impact of development. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 273-349). St. Louise: Mosby.
  3. Arnon, S., Shapsa, A., Forman, L., Regev, R., Bauer, S., Litmanovitz, I. o.fl. (2006). Live music is beneficial to preterm infants in the neonatal intensive care unit environment. Birth, 33, 131-136.
  4. Kemper, K. J., Martin, K., Block, S. M., Shoaf, R. og Woods, C. (2004). Attitudes and expectations about music therapy for premature infants among staff in a neonatal intensive care unit. Alternatives Therapies, 10, 50-54.
  5. Neal, D. O. og Lindeke, L. L. (2008). Music as a nursing intervention for preterm infants in the NICU. Neonatal Network, 27, 319-27.
  6. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.
  7. Fern, D. og Graves, C. (1996). Developmental Care Guide for Families with Infants in The NICU Newborn Intensive Care Unit. Murrysville: Children’s Medical Ventures.
  8. Kearns, S. M. (2002). Getting acquainted. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 31-45). California: NICU INK Book Publishers.