Viðvera á sjúkrahúsinu

Foreldrar hafa fullan aðgang að nýburagjörgæslunni og mega vera hjá barninu sínu þegar þau vilja, en það má ekki skilja það sem svo að foreldrar þurfi að vera þar öllum stundum. Ef barnið er fætt löngu fyrir tímann á það eftir að vera í langan tíma á sjúkrahúsinu og á eftir að sofa stóran hluta dagsins. Það er mjög mikilvægt fyrir foreldra að hugsa vel um sjálfan sig á meðan barnið þeirra dvelur á deildinni, nærast og hvílast vel og slaka á. Gott getur verið að skipuleggja sig í kringum gjafatíma barnanna og vera hjá barninu þegar það vakir, fær næringu í gegnum sondu, pela eða brjóst og fær nýja bleyju og fara frá meðan barnið sefur (1).

Það er flestum erfitt að vera með barn á sjúkrahúsi og mikilvægt er að hugsa vel um sjálfan sig og maka sinn til að geta reynst barninu sem best. Starfsfólk á Vökudeildinni hefur orðað það þannig að þetta geti verið langhlaup en ekki spretthlaup og því verði foreldrar að passa að hafa orku fyrir allt „hlaupið“. Foreldrar eru oft fljótir að koma sér upp þægilegu heimsóknamunstri um hvað hentar þeim og þeirra fjölskyldu best en það getur verið erfitt að finna jafnvægi á milli þeirra skyldna sem eru heima fyrir, þess að ná að hvíla sig og slaka á og þess að vera með barn á nýburagjörgæslu. Það getur verið hentugt að foreldrar skiptist á að fara til barnsins auk þess að fara þangað saman. Það gefur foreldri tækifæri til að vera með barninu í einrúmi, tengjast því og fóta sig í foreldrahlutverkinu. Það getur líka verið kjörinn tími til að bjóða nánum aðstandanda með í heimsókn til barnsins (1)

Heimildir:
  1. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press