Afar og ömmur fyrirburans og aðrir nánir gætu líka átt erfitt á þessum tíma. Þau vita kannski ekki hvernig batahorfur barnsins eru eða gera sér ekki grein fyrir veikindum þess. Þau kunna kannski illa við að spyrja foreldra spurninga um barnið og gætu þess vegna haft óþarfa áhyggjur eða ekki gert sér grein fyrir alvarleika ástandsins. Þegar erfiðleikar koma fyrir hjá fólki getur það gerst að fáir hafi samband og fólk hálf partinn forðist viðkomandi því það veit ekki hvað það á að segja eða heldur að það sé að segja eitthvað rangt. Sumir vita ekki hvort það sé við hæfi að koma í heimsókn eða ekki, hvort það sé við hæfi að gefa gjöf eða ekki og óttast að þau séu að trufla eða halda að foreldrarnir vilji næði.
Sumir gætu hringt, oft eða alls ekkert og sumir gætu sagt eitthvað sem foreldrum finnst óviðeigandi eða ekki sagt eitthvað sem foreldrar vildu að hefði verið sagt. Það gæti verið erfitt fyrir foreldra en kannski eru aðstandendur líka hræddir og óöruggir og eru að reyna sitt besta og meina vel. Ef foreldrum líkar eitthvað illa í þessum efnum ættu þeir endilega að láta vita með því að hafa samband sjálf eða biðja einhvern að bera skilaboð á milli.
Það getur líka verið erfitt þegar alltof margir aðstandendur eru að hafa samband og foreldrar þylja sömu upplýsingarnar um líðan barnsins upp aftur og aftur. Þetta getur verið enn erfiðara ef þetta eru slæmar eða erfiðar fréttir. Það gæti reynst sumum gott að fá einn góðan aðila í málið, t.d. ömmu eða systkini, sem myndi bera fréttir frá foreldrum til þeirra nánustu. Einnig hefur sumum reynst vel að halda dagbók á netinu eða setja inn fréttir þangað. Ef foreldrar hafa ákveðið að gera það ættu þeir að hafa hugfast að það sem birtist á netinu gætu mörg þúsund ókunnugir aðilar lesið og því gæti verið heppilegt að hafa slíka síðu læsta með lykilorði fyrir nánustu vini og ættingja.
Það er mikilvægt fyrir vini og ættingja að gera sér grein fyrir því hversu erfitt það er fyrir foreldra að eignast fyrirbura og vera með barn á nýburadeild. Það er ýmislegt sem hægt er aðgera til að styðja foreldrana og fjölskylduna í þessum aðstæðum. Ættingjar og vinir gætu hjálpað, til dæmis með því að bjóða foreldrum í mat, elda fyrir þau, bjóðast til að taka til fyrir þau, passa eldri systkini eða sjá um einhver erindi fyrir þau.