Eldri systkini geta átt erfitt með að skilja aðstæðurnar og er það háð aldri og þeim undirbúningi sem systkinið hefur fengið hversu erfitt þetta getur verið fyrir barnið. Ef systkinið er orðið eldra en 4 ára má það koma og heimsækja yngra systkini sitt á Vökudeildina en ef það er yngra má það ekki koma vegna sýkingarhættu. Aldurstakmarkið er 12 ára þegar pestir eða vírusar ganga yfir. Ef eldra systkinið má ekki koma að heimsækja litla barnið má taka myndir og myndband af barninu til að sýna stóra systkininu og hjálpa því að kynnast litla systkini sínum og mynda við það tengsl. Það væri hægt að leyfa því að teikna handa því mynd eða gefa því bangsa eða hlut til að hafa hjá sér.
Börn sem hafa aldur til gætu haft gagn og gaman að því að fá að koma í heimsókn til barnsins og að taka þátt í umönnun þess sé það hægt. Foreldrar sem ungt barn heima geta skipulagt heimsóknir á Vökudeildina í samræmi við hvernig dagurinn er hjá barninu. Ef barnið er í leikskóla á daginn gætu foreldrar til dæmis nýtt þann tíma til að vera hjá fyrirburanum, farið svo heim seinni partinn og hitt eldra barnið og farið svo aftur um kvöldið til fyrirburans þegar eldra barnið sofnar. Ef foreldrar eiga ekki auðvelt með að fá pössun fyrir eldra barn eða börn gætu þau þuft að skiptast á að vera á sjúkrahúsinu og að vera heima hjá eldra barninu.