Þegar barn fæðist mikið fyrir tímann þarf það að vera á nýburadeild í margar vikur eða mánuði. Foreldrum er því oft boðið að nefna barnið, því það þykir persónulegra og viðkunnanlegra að tala um barnið með nafni og þá er hægt að merkja tæki og eigur barnsins með nafni þess.
Í rannsókn Jónínu Einarsdóttur (1) kom fram að foreldrar lítilla fyrirbura völdu þeim oft nöfn sem höfðu sérstaka merkingu fyrir þau, til dæmis nafn látins vinar, þekktrar baráttukonu, eða í höfuðið á ástvinum. Nöfn sem foreldrar völdu út í loftið ,,vísuðu gjarnan á líf, ást, trú á Krist, von eða birtu“. Nöfnin voru oft valin þar sem foreldrum þótti þau sterk, eiga vel við eða að barnið þyrfti á því að halda. Í sumum tilfellum höfðu foreldrar ákveðið nafn á barnið fyrr á meðgöngunni sem þeim fannst svo ekki henta barninu eftir fæðinguna vegna veikinda þess og völdu því annað nafn sem þeim fannst henta barninu betur.
Skírn og nafngift eru tveir ólíkir hlutir þó það sé algengt að fólk tali um að börn og hlutir séu skírðir nafninu sínu. Skírn er trúarleg athöfn sem felst í því að taka barn inn í kristna trú og við það tilefni er barninu gefið nafn hafi það ekki fengið það, þar sem allir þeir sem skírast þurfa að bera nafn svo hægt sé að skrá það. Á Íslandi hefur verið sú hefð að gefa barni nafn við skírn og hafa þessar athafnir því runnið saman í hugum margra (2). Foreldrar sem þess óska geta fengið barn sitt skírt á Vökudeild. Foreldrar kjósa gjarna að barnið sé skírt ef óvissa ríkir um framtíð þess eða það er að fara í aðgerð. Einnig geta foreldrar viljað skíra til að blessa barnið og vernda það og fundið styrk í skírninni. Sumum foreldrum í rannsókn Jónínu Einarsdóttur fannst heilsa barnsins batna í kjölfar skírnarinnar (1).
Á vefsíðunni ungi.is (3) er ýmis fróðleikur um nöfn og nafnavél til að aðstoða við valið. Þar er líka fjallað um tvíburanöfn.
Hér má nálgast upplýsingar um skírn á vefsíðu Þjóðkirkjunnar (5).
Heimildir:
- Jónína Einarsdóttir. (2005). Máttug mannabörn fædd fyrir tímann. Í „Ungir Íslendingar í ljósi vísindanna“: Erindi flutt á málþingi umboðsmanns barna og háskólarektors 5. nóvember 2004 (bls. 269-276). Reykjavík: Háskólaútgáfan
- Einar Sigurbjörnsson. (2001). Hvers vegna er nafni barns haldið leyndu fram að skírn? Vísindavefurinn, 18.07.2001. Sótt 1. ágúst 2009 af http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=1798
- Ungi.is. (á.á.) Ertu að leita að góðu nafni? Sótt 1. ágúst 2009 af http://ungi.is/?gluggi=nofn
- Nöfn og merking þeirra (á.á.). Nöfn og merking þeirra. Sótt 1. ágúst 2009 af http://www.barnaland.is/barn/76541/ (vefsíða óvirk árið 2015)
- Þjóðkirkjan. (á.á). Skírn. Sótt 20. október 2009 af http://www.kirkjan.is/truin/skirn