Nudd

Nudd veitir félagslega nánd og snertingu sem er tengd vellíðan en ekki sársauka og getur verið gott að nota nudd á sjúkrahúsinu og eftir að heim er komið (1). Ekki er talið að mjög litlir eða mjög veikir fyrirburar hafi gott af nuddi og er ekki ráðlagt að nudda þá, en þegar börnin stækka og þroskast má byrja að kynna þau fyrir nuddi. Rannsóknir hafa sýnt að nudd hefur jákvæð áhrif á börn og nudd getur dregið úr streitueinkennum hjá fyrirburum (2,3,4,5) og hjálpað þeim við að halda á sér hita (6). Rannsóknir hafa sýnt að börn sem reglulega voru nudduð þyngdust hraðar og útskrifuðust fyrr heim af sjúkrahúsinu (7).

Fyrirburar eru mjög viðkvæmir fyrir snertingu og ef foreldrar hafa áhuga á að nudda barnið sitt þurfa þau að gera það þannig að barnið njóti þess. Snertingin má ekki vera of laus svo hún pirri ekki barnið en heldur ekki of föst – hæfilegur þrýstingur skilar árangri (8,7). Ráðlagt er að nudda barnið frá höfði niður að hálsi, frá hálsi að herðum, niður bakið að mjöðmum, niður lærin og fæturnar, svo sé strokið aftur til baka upp lærin og strokið niður hendurnar frá öxlunum. Allar hreyfingar eru gerðar eins báðum megin (8). Foreldrar skulu ráðfæra sig við þá sem annast barnið þeirra til að vita hvort og hvenær ráðlagt sé að nudda barnið. Nudd getur verið gott fyrir barnið áfram eftir að heim er komið. Einnig getur verið gott fyrir viðkvæma húð barnsins að borin sé á hana jurtaolía eða olía sem hentar sérstaklega ungabörnum og viðkvæmri húð (9,10).

Heimildir:
  1. Ferber, S. G., Kuint, J. Weller, A., Feldman, R., Dollberg, S., Arbel, E og Kohelet, D. (2002). Massage therapy by mothers and trained professionals enhances weight gain in preterm infants. Early Human Development, 67, 37-45.
  2. Diego, M. A., Fields, T., Hernandez-Reif, M, Deeds, O., Asceencio, A. og Begert, G. (2007). Preterm infant massage elicits consistent increases in vagal activity and gastic motility that are associated with greater weight gain. Acta Pædiatrica, 96, 1588-1591.
  3. Dieter, J. N. I., Field, T., Hernandez-Reif, M., Emory, E. K. og Redzepi, M. (2003). Stable preterm infants gain more weight and sleep less after five days of massage therapy. Journal of Pediatric Psychology, 28, 403-411.
  4. Hernandez-Reif, M., Diego, M. & Field, T. (2007). Preterm infants show reeduced stress behaviors and activity after 5 days of massage therapy. Infant Behavior & Development, 30. 557-561.
  5. Mendes, E. W. og Procianoy, R. S. (2008). Massage therapy reduces hospital stay and occurrence of late-onset sepsis in very preterm neonates. Journal of Perinatology, 28, 815-820.
  6. Diego, M. A., Fields, T. og Hernandez-Reif, M. (2008). Temperature increases in preterm infants during massage therapy. Infant Behavior & Development, 31, 149-152.
  7. Field, T., Diego, M. A., Hernandez-Reif, M., Deeds, O. og Figuereido, B. (2006). Moderate versus light pressure massage therapy leads to greater weight gain in preterm infants. Infant Behavior & Development, 29, 574-578
  8. Field, T. (1995). Massage therapy for infants and children. Developmental and Behavioral Pediatrics, 16, 105-111.
  9. Kiechl-Kohlendorfer, U., Berger, C. og Inzinger, R. (2008). The effect on daily treatment with an olive oil/lanolin emollient on skin integrity in preterm infants: a randomized controlled trial. Pediatric Dermatology, 24, 174-178.
  10. Vaivre-Douret, L., Oriot, D., Blossier, P., Kasolter-Péré, M., Zwang, J. (2008). The effect of multimodal stimulation and cutaneous application of vegetable oils on neonatal development in preterm infants: a randomized controlled trial. Journal of complications. Child: Care, Health and Development, 35, 96-105.