Böðun

Ef barnið er fætt mikið fyrir tímann er húð þess mjög þunn og viðkvæm (1) og er það því ekki sett í bað fyrstu vikurnar (2). Barninu er fyrst um sinn þvegið með svampi í hitakassanum og geta foreldrar tekið þátt í því og er það stundum nefnt ,,kattarþvottur“. Þegar barnið hefur stækkað og þroskast fær það svo að fara í baðvatn. Ekki er ráðlagt að baða fyrirbura oftar en á fjögurra daga fresti (3). Börnin eru yfirleitt böðuð í þar til gerðum vaski í vinstra rýminu á Vökudeildinni (vaxtarræktinni) eða í bala. Barninu getur þótt notalegt að fara í bað og það getur verið góð stund fyrir fjölskylduna. En barnið getur einnig fundið fyrir miklu óöryggi. Það er því mikilvægt að hafa rólegt umhverfi á meðan, passa að barninu verði ekki kalt og muna hvernig barninu þykir gott að láta halda á sér þegar það er fært í og úr baðinu (með hendur og fætur nálægt líkama) (4,5). Þegar það fer ofan í vatnið er að sjálfsögðu mikilvægt að passa upp á öryggi barnsins og halda vel utan um það. Gott ráð er að foreldri setji handlegg undir bak og haldi með sömu hönd utan um handlegg barnsins við öxl og hafi þannig gott tak á barninu og lausa hina höndina til að þvo barninu. Þegar barnið er látið ofan í vatnið er gott að setja fætur barnsins varlega upp að enda vasksins svo barnið finni öryggi undir fótunum og leyfa því að beygja og rétta úr fótunum meðan því er leyft að fljóta rólega. Ef barnið er baðað í vaskinum er gott að setja taubleyju ofan í hann svo barnið finni mýktina og aðra taubleyju ofan á bringu þess svo það finni öryggið og því verði ekki kalt ef hún fer upp úr vatninu.

 

 

Heimildir:

  1. Papageorgiou, A., Pelausa, E. og Kovacs, L. (2005). The extremely low-birth-weight infant. Í M. G. MacDonald, M. M. K. Seshia og M. D. Mullett (Ritstj.), Avery‘s Neonatology (6. Útgáfa, bls. 460-485). Philadelphia: Lippincott Williams & Wilkins (Rafræn útgáfa).
  2. Peters, K. L. (1998). Bathing premature infants: physiological and behavioral consequences. American Association of Critical Care Nurses, 7, 90-100.
  3. Quinn, D., Newton, N. og Piecuch, R. (2005). Effect of less frequent bathing on premature infant skin. Journal of Obstetric, Gynecologi, and Neonatal Nursing, 34, 741-746.
  4. Fern, D. og Graves, C. (1996). Developmental Care Guide for Families with Infants in The NICU Newborn Intensive Care Unit. Murrysville: Children’s Medical Ventures.
  5. Madden, S. L. (2000). The Preemie Parents´ Companion: A Essential Guide to Caring for Your Premature Baby in the Hospital, at Home and Though the First Years. Boston: The Harvard Common Press.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.