Sýnum hvort öðru skilning og virðingu

Á spítalanum vinna margir aðilar og margir foreldrar eru þar með börnin sín. Foreldrar sem dvelja á nýburadeild ættu að sýna hvort öðru virðingu og skilning. Börnin eru misjafnlega mikið veik og þurfa mismikla aðstoð í mislangan tíma en foreldrar upplifa yfirleitt svipaðar tilfinningar og eru allir foreldrar hræddir um nýfædda barnið sitt. Foreldrar sem eiga fullburða börn eða börn fædd stuttu fyrir tímann gætu upplifað mikið áfall ef innlögn er óvænt og óvíst um alvarleika ástands barnsins.

 

Foreldrum sem eiga litla veika fyrirbura og dvelja lengi á sjúkrahúsinu gæti þótt óþægilegt að fá stöðugt nýja foreldra á deild með sér með börn sem eru þar í nokkra klukkutíma eða daga og fara svo jafn óðum heim. Fyrirburaforeldrar ættu þó að reyna að sýna þessum foreldrum virðingu og skilning því þó þeirra barn sé ekki jafn lítið og óþroskað og litlu fyrirburarnir þá gæti það verið alveg jafn veikt. Erfitt er að vita hvað hafi gengið á á undan, hvort naumlega hafi tekist að bjarga barni eftir erfiða fæðingu, hvort barnið hafi fengið krampa eða súrefnisskort eða sé alvarlega veikt. Jafnvel þó barnið sé rétt í stuttu eftirliti þá gætu foreldrarnir átt slæma reynslu að baki frá fyrri meðgöngu eða vegna annara hluta. Því er gott fyrir alla að venja sig á að sýna öllum virðingu og tillitsemi því við vitum aldrei hvað hinir eru að ganga í gegnum.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.