Eldri systkini fyrirburans

Eldri systkini geta átt erfitt með að skilja aðstæðurnar og er það háð aldri og þeim undirbúningi sem systkinið hefur fengið hversu erfitt þetta getur verið fyrir barnið. Ef systkinið er orðið eldra en 4 ára má það koma og heimsækja yngra systkini sitt á Vökudeildina en ef það er yngra má það ekki koma vegna sýkingarhættu. Aldurstakmarkið er 12 ára þegar pestir eða vírusar ganga yfir. Ef eldra systkinið má ekki koma að heimsækja litla barnið má taka myndir og myndband af barninu til að sýna stóra systkininu og hjálpa því að kynnast litla systkini sínum og mynda við það tengsl. Það væri hægt að leyfa því að teikna handa því mynd eða gefa því bangsa eða hlut til að hafa hjá sér.

 

Börn sem hafa aldur til gætu haft gagn og gaman að því að fá að koma í heimsókn til barnsins og að taka þátt í umönnun þess sé það hægt. Foreldrar sem ungt barn heima geta skipulagt heimsóknir á Vökudeildina í samræmi við hvernig dagurinn er hjá barninu. Ef barnið er í leikskóla á daginn gætu foreldrar til dæmis nýtt þann tíma til að vera hjá fyrirburanum, farið svo heim seinni partinn og hitt eldra barnið og farið svo aftur um kvöldið til fyrirburans þegar eldra barnið sofnar. Ef foreldrar eiga ekki auðvelt með að fá pössun fyrir eldra barn eða börn gætu þau þuft að skiptast á að vera á sjúkrahúsinu og að vera heima hjá eldra barninu.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.