Til hamingju með síðuna ég man að þegar ég var á spítala í frakklandi með son minn og skildi ekki neitt hvað væri að gerast þá las ég fullt af sögum reyndar bara af erlendum síðum. Ég ætla að deila með ykkur
viðtali sem tekið var við mig í Mogganum fyrir ári síðan.
Í dag (þegar sagan var send inn) er Þorbergur 2 ára og við góða heilsu og ég er ólétt af öðru barni og allt gengur vel komin 35 vikur.
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir tók viðtalið. Blaðamaður Morgunblaðinu.
6. október 2008 var örlagaríkur dagur í lífi hjónanna Auðar Elfu Kjartansdóttur og Páls Guðmundssonar, ekki síður en íslensku þjóðarinnar. Þann dag fór fæðing sonar þeirra óvænt af stað í 28. viku meðgöngu og á sama tíma og Geir Haarde bað Guð að blessa íslenska þjóð voru læknar að uppgötva að fóstrið var með lífshættulegan ofvöxt í öðru lunganu. Tilviljanir stjórnuðu því að Auður og Páll voru stödd á einu fremsta sjúkrahúsi í heimi í fyrirburalækningum sem að öllum líkindum bjargaði lífi
litla drengsins.a
Tilvera hjónanna Auðar Elfu Kjartansdóttur og Páls Guðmundssonar snerist skyndilega á hvolf í október í fyrra (skrifað okt 2009). Ekki var það hruni íslensku bankanna að kenna, heldur óvæntri fæðingu frumburðar þeirra, tveimur mánuðum fyrir tímann. Þegar fæðingin fór fyrst af stað voru þau stödd í Frakklandi þangað sem þau höfðu skotist til að sækja ráðstefnu. Sá skottúr varð öllu lengri
en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi. „Mér leið mjög vel á meðgöngunni, hreyfði mig mikið og var virk enda mikil útivistarmanneskja. Meðgangan gekk líka eðlilega fyrir sig; ég fór bæði í snemmsónar og 20 vikna sónar sem sýndu ekkert óeðlilegt og allar mæðraskoðanir komu vel út,“ útskýrir Auður. „Það var því ekkert því til fyrirstöðu að ég færi á ráðstefnu í Chamonix í Frakklandi í nokkra daga á vegum vinnunnar, en ég starfa sem sérfræðingur á snjóflóðadeild Veðurstofunnar.“
Páll Guðmundsson, eiginmaður Auðar, ákvað að drífa sig með henni en til að ferðalagið yrði ekki of strembið ákváðu þau að gista tvær nætur í Strasbourg, sem er í um þriggja klukkutíma akstursfjarlægð frá Chamonix. Þau komu þangað laugardaginn 4.október en aðfararnótt mánudagsins 6. október dró til tíðinda þegar Auður varð vör við lítilsháttar blæðingu. „Ég hringdi þá í systur mína, sem er læknir og sérhæfði sig í skurð- og lýtalækningum í Strasbourg. Skilaboðin frá henni voru að ég ætti að liggja
fyrir og í framhaldinu hringdi hún í lækna sem hún þekkti þarna úti sem síðan tóku á móti mér í skoðun. Þá kom í ljós að fæðingin var komin af stað; ég var komin með fjóra í útvíkkun og var strax lögð inn á spítala.“
Í ómskoðun á spítalanum kom í ljós hvað hafði farið úrskeiðis. Litli drengurinn reyndist vera með gríðarmikinn aukalungnavef og mikill vökvi hafði safnast fyrir í brjóstholi hans. Vökvinn hindraði líffærin í að þroskast og stækka og afstaða sumra þeirra var röng vegna þrengslanna. Meðal annars var annað lunga barnsins pínulítið þar sem það hafði ekki haft nægilegt rými til að þroskast eðlilega. Þegar var ákveðið að stöðva fæðinguna. „Þeir notuðu lyfið Trectosil sem er framleitt í smásjá og stöðvar samdrátt legvöðvans,“ útskýrir Auður. „Mér skildist að hver sprauta kostaði 300 þúsund krónur á gamla genginu og ég fékk 27 slíkar sprautur fyrsta sólarhringinn ? þessu lyfi var hreinlega dælt í mig.“
Auður lýsir því hvernig hún upplifði að tilvera sín hefði snúist á hvolf. „Það hafði verið ólga í þjóðfélaginu dagana á undan og bankarnir virtust standa ótraustum fótum svo maður velti því fyrir sér hvort rétt væri að fara í þessa ferð. Skyndilega var búið að kippa okkur út úr öllum raunveruleika ? allt í einu var ég komin á franskt sjúkrahús, fæðingin komin í gang og það eina sem ég vissi var að drengurinn væri mjög veikur inni í mér og alls ekki víst að hann lifi fæðinguna af.“
Dagana á eftir lá Auður fyrir og hreyfði sig ekki nema til að fara á klósett og til að sækja daglega fundi ásamt Páli með helstu prófessorum spítalans þar sem fylgst var með vökvanum í brjósti fóstursins í gegnum þrívíddarmyndir. „Maður fékk fljótlega á tilfinninguna að þessir læknar væru rosalega færir, hér um bil yfirnáttúrulegir snillingar,“ segir Páll. „Þeir töluðu af mikilli þekkingu en voru um leið mjög auðmjúkir í framkomu og leyfðu okkur hreinlega að ákveða með sér hvað skyldi gert. Það var ljóst að nauðsynlegt yrði að gera aðgerð á fóstrinu í móðurkviði en menn deildu um á hvaða stigi það ætti að gerast. Að lokum var ákveðið að bíða með það eins lengi og hægt var og láta fóstrið þroskast á meðan.“ Auður tekur við frásögninni. „Alla þessa daga einbeitti ég mér að því að hugsa jákvætt því um leið og ég hugsaði hálfa neikvæða hugsun fékk ég hríðar. Það var því mjög mikilvægt að ég héldi ró minni og til dæmis gat ég ekki fylgst með einu né neinu sem var að gerast á Íslandi ? fréttir voru of erfiðar fyrir mig.“
Eftir rúma viku var ljóst að ekki yrði beðið lengur þar sem vökvi og bjúgmyndun í öðru lunga barnsins var orðin mjög mikil. „Það var ákveðið að gera aðgerð á fóstrinu inni í mér til að ná vökvanum út,“ segir Auður en aðgerðin var gerð í gegn um sjónvarpsskjá með þar til gerðum löngum prjónum sem stungið var inn í fóstrið gegn um bumbuna. „Ég mátti ekki vera viðstaddur en Auður grét svo mikið þegar skurðstofunni var lokað að læknarnir kölluðu í mig og báðu mig um að vera henni til halds og trausts,
“ útskýrir Páll. „Ég gat því fylgst með á skjánum þegar læknirinn þræddi prjóninn inn í brjóstkassann á barninu. Síðan losaði hann um eitthvað á prjóninum, tæmdi töluvert magn af vatni í ílát og skildi síðan eftir dren úr brjósti drengsins út í legvatnið. Samtímis mátti sjá hvernig líffæri færðust til á rétta staði og litla lungað blés út í eðlilega stærð. Síðan kippti hann prjóninum út með einu handtaki og þar með var þessu lokið. Aðgerðin tók ekki meira en 4 – 5 mínútur en líktist ótrúlegu kraftaverki.“
Auði og Páli hafði verið sagt að aðgerðin væri mjög hættuleg og allt gæti gerst. Hins vegar væri hún nauðsynleg, ekki síst vegna þess að ljóst var að barnið myndi ekki geta andað af sjálfsdáðum eftir fæðingu, yrði vökvinn ekki fjarlægður. „Við hugsuðum samt ekki mikið um að barnið gæti dáið og
læknirinn var þannig að maður var eins rólegur og hægt var að vera við þessar aðstæður,“ segir Páll. „En auðvitað hefði ekki mátt mikið út af bera.“
Nóttina eftir aðgerðina dró svo aftur til tíðinda. „Ég vakna í einu vatnsbaði og var þá komin með fulla útvíkkun. Mér var því sagt að ég yrði strax að fæða,“ segir Auður sem átti þó erfitt með að meðtaka þann boðskap þar sem þeim hjónum hafði verið sagt að barnið yrði tekið með keisaraskurði. „Ég vissi bara að drengurinn var mjög veikur og var nýbúinn að fara í gegn um aðgerð þannig að ég var mjög hrædd um hvort hann myndi ná að anda.“ Páll heldur áfram: „Það urðu því hálfgerðir krísufundir þarna um nóttina; það var hringt í prófessorana og heim til Þórdísar systur Auðar. En fæðingin gekk vel og drengurinn fæddist 1800 grömm, eða rúmlega sjö merkur.“
Litla krílið sýndi strax góð viðbrögð og andaði eðlilega þrátt fyrir smæðina. Engu að síður ógnaði ofvöxturinn í lunganu lífi barnsins svo aðeins sex tímum eftir fæðingu fór litli drengurinn í aðra stóra aðgerð til að fjarlægja ofvöxtinn. Auður fékk ekki að sjá barnið eftir fæðinguna heldur
var hlaupið með það inn á vökudeild. Þangað fékk hún ekki að koma fyrr en hún fékk máttinn í fæturnar á ný, en hún hafði verið mænudeyfð. „Það varð því svolítið kapphlaup hjá mér að sjá hann áður en hann færi í aðgerðina,“útskýrir hún. Páll fékk hins vegar að kíkja á strákinn tveimur tímum eftir fæðinguna. „Þarna lá hann og grét ekki einu sinni. Mér fannst strax að ég næði einhverjum tengslum við hann og þótt hann ætti ekki að geta séð mig hafði ég á tilfinningunni að hann horfði á mig og segði: „Þetta verður allt í lagi.“ En það var samt mjög erfitt að sjá hvað hann var lítill og ekkert nema skinn og bein.“
Skömmu síðar lagðist þetta agnarsmáa barn undir hnífinn. „Þarna hófst annar kafli sem var líka mjög erfiður,“ heldur Páll áfram. „Það var þó traustvekjandi að vita að sérfræðingurinn sem gerði aðgerðina var einn af færustu læknum í heimi á þessu sviði en hann hafði gert hundrað svona aðgerðir áður. Í aðgerðinni kom hins vegar í ljós að lungnaofvöxturinn var tengdur við hjarta barnsins með slagæð þannig að klippa varð á slagæðina og loka henni með því að binda þrjá hnúta á hana í höndunum. Það hefði enginn getað gert nema færasti læknir.“
Það var erfið sjón sem mætti hinum nýbökuðu foreldrum þegar þeir sáu son sinn næst. „Hann var allur í leiðslum og tækjum og skurðurinn náði frá bakinu allt undir holhöndina,“ segir Auður. „Alls lágu átta slöngur inn og út úr honum. Það var ólýsanlega erfitt að sjá barnið sitt svona.“ Mikil vakt var við sjúkrarúm drengsins og til dæmis var alltaf fyrirburahjúkrunarkona stödd innan við fimm metra frá honum.
Litli drengurinn fékk strax nafnið Þorbergur Anton ? Þorbergur í höfuðið á bróður og afa Auðar og Anton í höfuðið á lækninum sem bjargaði lífi hans. Næstu daga á eftir voru tvísýnir en fljótlega fór vonin að aukast um að sá stutti myndi braggast. Það var stór stund þegar Auður mátti halda á syni sínum eftir þrjá, fjóra daga. „Einn sigurinn var að eftir rúma viku fékk hann tvo millilítra af brjóstamjólk í fyrsta sinn sem var dælt beint ofan í maga á honum. Reyndar náði hann ekki að melta hana svo að henni var dælt
aftur upp. Þannig gekk þetta næstu daga og vikur; maður fylgdist stöðugt með því hvað hann innbyrti mikla mjólk dag frá degi,“ segir Auður.
Eins og gefur að skilja fylgdi öllum þessum vendingum mikill taugatitringur. „Maður vissi frá fyrstu mínútum á sjúkrahúsinu að það væri ekki sjálfgefið að barnið myndi lifa þetta af. Þetta var bara annað hvort eða,“ segir Auður og Páll kinkar kolli. „Þetta voru mjög erfiðar fretter strax í upphafi og ég man að ég fór afsíðis og dró andann djúpt um leið og ég fann fyrir tárunum. Svo varð maður einfaldlega að taka þá afstöðu að vera sterkur og styðja við bakið á Auði. Eftir átta vikur þarna úti gerðist eitthvað og það kom tímabil þar sem ég gat ekki talað. Ég hreinlega missti málið og svaraði ekki þegar hún var að reyna að tala við mig.“ Auður segir þetta ekki skrýtið því sjálf hafi hún verið mjög grátgjörn á þessum tíma og
átt erfitt. „Ég þurfti geysilega mikið á honum að halda svo að hann setti sjálfan sig alveg til hliðar. Ég hefði aldrei komist í gegn um þetta án hans.“
Auði leið miklu betur eftir að þau mæðginin voru innrituð á svokallaða kengúrudeild á sjúkrahúsinu. „Upprunalega er hugmyndin frá Bólívíu þar sem sjúkrahúsin höfðu ekki efni á hitakössum. Barnið er lagt upp að brjósti móðurinnar sem virkar þá eins og hitakassi fyrir það. Þetta er kölluð kengúruaðferð og það sýnir sig að barnið þroskast og þyngist hraðar en í hitakassa. Þarna lágum við saman á einkastofu og ég sá alveg um hann. Þá fannst mér þetta verða svolítið viðráðanlegt, jafnvel þótt ég gæti lítið hreyft mig úr rúminu.“
Eftir um fjórar vikur á kengúrudeildinni var tími kominn til að fara heim. Litla fjölskyldan flaug í byrjun desember í sjúkraflugi til Íslands, með áætlunarflugi Icelandair. Læknir fylgdi þeim alla leið auk þess sem
sjúkrabíll flutti þau að og frá flugvélinni og inn á Barnaspítala Hringsins. Þar voru þau í fimm daga, áður en þau fengu loksins að flytja inn á eigið heimili, og hefja eðlilegt fjölskyldulíf.
Það var þó annað Ísland sem blasti við þeim en tveimur mánuðum áður. „Maður hafði ætlað að skjótast burtu í nokkra daga svo þetta var svolítið skrýtið,“ segir Auður. „Úti hafði maður lítið fylgst með gangi mála hér heima. Jú, Frakkarnir sögðu af og til: „Úllalla, þið eruð frá Íslandi!“ með skrýtnum svip án þess að skýra það nánar. En maður skynjaði það á ættingjum og vinum sem maður talað við í síma að þeir voru í svolitlu losti.“
„Þetta hafði ýmis óþægindi í för með sér fyrir okkur úti,“ segir Páll. „Við lentum í erfiðleikum út af greiðslukortum og gjaldeyri en síðar voru okkur sendir peningar í gegn um utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofurnar í París og Strasbourg. Einhvern veginn var manni þó sama um þessa kreppu. Hún
var víðsfjarri, vissulega eitthvað leiðinlegt og sorglegt en ekkert sem maður hafði áhyggjur af við þessar aðstæður. Allt var svo yfirdrifið að maður hafði eiginlega ekki pláss fyrir kreppuna.“
Upplifun Auðar af fréttum í dag er því blendin. „Það er stöðugt verið að rifja upp að ár sé frá hruninu en ég kannast engan veginn við þessa atburði. Mér finnst þjóðfélagið lítið hafa breyst nema kannski þjóðarsálin því við Íslendingar misstum svolítið sjálfstraustið. Auðvitað samhryggist maður þeim sem hafa misst vinnuna og kreppan hefur komið illa við en við búum ennþá í algerlega frábæru landi. Hvað mig snertir er magnað að fá að vera þátttakandi í samfélaginu aftur og geta gengið út með barnavagn.
Stundum velti ég því fyrir mér hvernig í ósköpunum er hægt að hafa áhyggjur af þessu. Sjáið þið ekki hvað lífið er stórkostlegt?“ spyr hún og hlær.
Þrátt fyrir að vera ósnortin af kreppunni fóru Auður og Páll ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum á tímabili, þegar útlit var fyrir að himinhár sjúkrahúsreikningur lenti á þeim. „Við vorum með mjög góðar tryggingar og héldum því að þetta væri í lagi enda gera tryggingafélögin ekki athugasemdir við að óléttar konur ferðist milli landa allt fram í áttunda mánuð. Seinna, þegar hlutirnir voru orðnir mjög erfiðir, tilkynnti
tryggingafélagið heima okkur að við værum ekki tryggð,“ segir Páll. Rökin voru þau að þar sem fæðingin varð í þrítugustu viku hefði ferðalagið átt sér stað innan við mánuði fyrir barnsburðinn og því væru þau ekki tryggð. „Þar með var þetta orðið mál upp á 30 ? 40 milljónir hjá okkur, ekki síst vegna hinna dýru lyfa sem Auður fékk í upphafi.“ Auður var þó æðrulaus. „Ég hugsaði sem svo að ef við yrðum gjaldþrota þá yrðum við bara gjaldþrota en það væri ekki það sem skipti máli í lífinu.“Málið leystist svo eftir að hópur fólks fór á fund hjá tryggingafélaginu og útskýrði málið nánar. Stóri reikningurinn var því borgaður á endanum, en ýmsir minni reikningar hafa lent á fjölskyldunni.
Þau segja það ótrúlega gæfu fyrir þau að fæðingin hafi farið af stað í Strasbourg. „Sjúkrahúsið þar er fremst í Frakklandi í fyrirburafæðingum og þar eru færustu læknar í heimi þegar kemur að aðgerð á fóstri sem Auður þurfti að fara í. Slík aðgerð hefur aldrei verið gerð hér á Íslandi. Hann hefði sennilega ekki lifað af meðgönguna hér heima og örugglega ekki lifað af fæðinguna með vökvann í brjóstholinu. Þar fyrir utan hefði trúlega enginn læknir hér heima framkvæmt stóru lungnaaðgerðina sem varð svona
krítísk út af slagæðinni.“
Frá því að Þorbergur Anton litli byrjaði að fara fyrst út í vagninum sínum í janúarlok hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hann var stuttu síðar útskrifaður sem fullkomlega heilbrigður drengur og hefur síður en svo verið pakkað í bómull síðan. Í sumar fór hann t.a.m. tíu sinnum í bakpoka upp á Esju með mömmu sinni og hefur m.a.s. farið yfir Fimmvörðuhálsinn með sama hætti, en foreldrar hans eru mikil náttúrubörn, enda Páll í starfi framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands. Þá fór Þorbergur til Spánar með
foreldrum sínum og á fund í Noregi hjá norska Ferðafélaginu. „Þar voru tíu manns á fundinum og hann sat, brosandi og hlæjandi, uppi á borði og allt var bara dásamlegt,“ segir Páll með áherslu. Síðasta fimmtudag, 15. október hélt Þorbergur Anton litli svo upp á fyrsta afmælisdaginn. Hann er lífsglaður drengur sem lífgar upp tilveru foreldra sinna á hverjum degi. „Það er eiginlega ekki hægt að hugsa neitt neikvætt þegar hann er annars vegar,“ segir Auður. „Manni finnst ótrúleg hamingja og ólýsanleg gleði fylgja því að vera foreldri.“
Úr dagbók Páls í Frakklandi
Þriðjudagur 14.október
Þetta var ótrúlegt. Aðgerðin hafði tekist vel og nú var bara að bíða og vona að meðgangan héldi áfram sem lengst.
Miðvikudagur 15. október
Klippt var á naflastrenginn og hann tekinn og farið með hann í annað herbergi. Auður hágrét og ég stóð og hélt í höndina á henni í hálfgerðu losti. Þetta var ekki alveg samkvæmt bókinni þegar pabbinn klippir á
naflastrengin og barnið er fært að brjósti móður sinnar og allir brosa út að eyrum og tárast af gleði. Við vorum þarna tvö eftir algjörlega í lausu lofti og með ótal spurningar í hausnum. Er allt í lagi með hann, er hann lifandi, andar hann, grætur hann, af hverju heyrum við ekki neitt?
Fimmtudagur 16. október
Einn dagur liðinn frá því að litli kom í heiminn. Nóttin var erfið. Skrýtið að hafa hann ekki hjá okkur. Áttum bæði erfitt með að sofa. Við kíktum nokkrum sinnum um nóttina upp á litla, hann er á gjörgæsludeild fyrirbura á 8. hæð. Það er mjög erfitt að sjá hann. Í ljósakassa með mikið af snúrum og
drasli, pínulítill og grannur.
Föstudagur 17. október.
Auður er byrjuð að mjólka sig og því fylgja gífurlegar tilfinningar og mikið hormónaflæði. Í hvert sinn sem ég kem inn í sjúkrastofuna dreg ég andann djúpt. Auður er þá annað hvort í miklu grátkasti eða hlæjandi í símanum. Ég reyni að segja henni að þetta sé allt eðlilegt. Ég heimsótti litla nokkrum sinnum í gær og er smá saman að lengja heimsóknirnar. Ég finn að það skiptir hann miklu máli að við séum hjá honum.
Laugardagur 18. október
Við fengum að fara aðeins út í hádeginu, í göngutúr og að fá okkur að borða. Ég beið út í bíl eftir Auði og þegar hún kom sá hún ekki bílinn þar sem hún gekk framhjá mér og ég var svo ótillitsamur að flauta og við það hrökk hún öll í kút og fór að hágráta. Síðan grét hún mestalla leiðina niðri í bæ. Ég var að reyna að segja henni að það væri bara eðlilegt…Við ákváðum að fara á stað sem okkur leist vel á og komum inn þar. Hann var mjög þéttsetinn. Ca þriggja ára strákur sat við eitt borðið og var eitthvað að öskra við borðið meðan við biðum eftir að vera vísað til sætis. Það var nóg til þess að Auður fór að hágráta og við drifum okkur út og leituðum að öðrum stað og fundum hann og var vísað til sætis. Við vorum ekki fyrr sest en Auður fór að gráta. Fyrir einstaka tilviljun var þó stór stafli af sérvéttum við hliðina á borðinu okkar og við ákváðum að sitja áfram. Sérvettubunkinn var ca helmingi minni þegar við vorum búin að borða.
Aðfaranótt 19. október
Ég fór upp til hans um þrjúleytið í nótt og sat hjá honum í klukkutíma. Hann var sofandi en skynjaði samt þegar ég kom. Ég talaði til hans og song einhverjar vísur og hélt í hendurnar hans…Það er vægast sagt mjög erfitt að sjá litla skinnið við þessar aðstæður, og síðan líka hvað hann er lítill, fótleggurinn á honum er ekki mikið stærri en vísifingurinn minn og þó er ég ekki með stóra putta.