Óliver Atlas og Aron Breki (28 vikur)

Fyrirburar

Fæðingarsaga Ólivers Atlas og Arons Breka, fæddir 2.júlí 2010 eftir 28 vikur og 4 daga meðgöngu
Meðgangan gekk mjög vel, allt gekk eins og í sögu. Komin tæpar 20 vikur fór ég að finna fyrir
þreytuverkjum þegar við fórum í göngutúra og vatnskennd/slímug útferð fór að verða reglulegri.
Okkur fannst þetta ekkert óeðlilegt þar sem í bumbunni voru 2 strákar og var ljósmóðirin og
fæðingarlæknirinn okkar okkur sammála. Komin 22 vikur og 6 daga fór ég í smá ferðalag, 3 tímar í
keyrslu hvora leið og ég var alveg uppgefin eftir þetta, á heimleiðinni þegar við stoppuðum til að viðra
okkur gat ég varla gengið nokkra metra, fékk þreytuverki og algjörlega úrvinda. Daginn eftir var svo
allt í himnalagi og „venjulega“ lífið hélt áfram.
Komin 23 vikur og 1 dag, var furðulegur dagur, vinnan gekk vel og þegar fór að róast síðdegis ákvað
ég að skella mér til ljósmóðurinnar, svo stutt að fara þar sem ég vinn á LSH og biðja hana að athuga
hvort að ég væri kannski komin með sveppasýkingu eða eitthvað þar sem útferðin hafði ekkert lagast
frá 20 viku. Ég beið í 3 klukkutíma eftir skoðun og var alveg við það að fara bara og koma aftur síðar,
leið svolítið eins og „paranoja“ óléttu konunni sem er alltaf með vesen. En svo var ég skoðuð og kom
þá í ljós að leghálsinn var orðinn mjúkur nánast fullstyttur (0,4-0,6mm) og komin með 1 í útvíkkun,
læknirinn sá í belginn og smá í koll. Tíminn stöðvaðist, öll völd voru tekin af mér, skyndilega var ég
komin í rúmlegu inni á spítala og mátti ekki hreyfa mig, hafði klósettleyfi og fékk að fara stundum í
sturtu. Ég hringdi í manninn minn í algjöru sjokki, hann átti að koma hann varð bara að redda sér, ég
var á bílnum og mátti ekki fara og sækja hann né bíllyklana eða fötin mín, ég var enn í vinnufötunum.
Mamma og maðurinn minn komu svo fljótlega og tárin brutust fram, ég vissi ekkert hvað var að
gerast, áttaði mig ekki einu sinni á hættunni sem hafði skapast. Næstu dagar voru mjög erfiðir, ég
var hálfsofandi allan daginn og hafði ekki mikið þol til samræðna eða lesa né horfa á sjónvarpið, sem
betur fer fékk maðurinn minn að gista hjá mér strax frá byrjun og var ég í einkaherbergi allan tímann.
Eftir viku var enn ekkert að gerast ég fékk sterasprautur til að flýta fyrir lungnaþroska hjá strákunum
gengin 23 vikur og 5 daga. Dagarnir liðu furðu fljótt, ég fékk aftur matarlystina og fór að taka aðeins
meira þátt í lífinu. Ég var farin að átti mig á þeirri hættu sem strákarnir mínir voru í en núna vissi ég
að þeir áttu sér þó von þar sem sterasprauturnar voru komnar og núna var bara að biðja um einn dag
í viðbót. Hver dagur var stór áfangi og fundum við alltaf eitthvað nýtt til að hlakka til, t.d. á
mánudögum var komin næsta vika meðgöngu (24.vika,25….) og svo fengum við að fara í sónar og
ýmislegt annað. Þegar ég var búin að liggja inni í 5 vikur fór ég að þreytast á þessu ástandi, ég
fékk „hjólastólaleyfi“ og mátti fara að prufa mig aðeins áfram og fara fram á gang til tilbreytingar sem
hafði bara gerst 2 sinnum síðustu vikurnar, á 17.júní fór ég út að hurð í rúmi og svo í hjólastól út á
stétt og svo fór ég í rúminu að skoða vökudeildina. Starfsfólkið var frábært og hugsuðu svo vel um
mann. Á mánudeginum sem ég fékk hjólastólaleyfið fór eitthvað að gerast, ég fór að fá verkjalausa
samdrætti, sem voru óreglulegir þannig að ég hélt mig í rúminu eftir það, næstu daga hélt þetta
áfram og jókst hægt og rólega. Á fimmtudeginum fann ég hvað þetta jókst jafnt og þétt og komnir
verkir með, um kvöldið var þetta reglulegt en datt þó alltaf niður á milli. Um nóttina var ég svo sett í
mónitor og í kjölfarið fékk ég bricanyl til að stöðva samdrættina, leið ekki vel af því en náði samt að
sofna. 3 tímum seinna vaknaði ég og var þetta að aukast aftur. Um morguninn var svo ákveðið að
kíkja á mig og athuga hver staðan væri. Um hádegið var ég svo skoðuð og var þá komin með 5-6 í
útvíkkun, mér var því rúllað upp á fæðingargang þar sem biðin hófst. Verkirnir voru alls ekki
óbærilegir, ég dormaði fram eftir degi en jafnt og þétt jókst útvíkkunin. Samdrættirnir hins vegar
duttu reglulega niður og voru ekki nógu reglulegir, undir miðnætti var ákveðið eftir mikla þrjósku af
minni hálfu að mænudeyfa mig til að annað hvort komu fæðingunni almennilega af stað eða til að
hvíla mig (allt myndi þá detta niður), á meðan ljósmóðirin fór fram að kalla á svæfingarlækninn þá
sprakk 1. belgurinn af 3. Ekki var lengur þörf á mænudeyfingu, tíminn leið fljótt og fljótlega kom
Óliver Atlas í heiminn, kl:02:37, 1070gr og 39 cm. Hann kom öskrandi í heiminn og var lagður á
magann á mér, ég þorði ekki að snerta hann var svo hrædd um að ég myndi sýkja hann, hann fékk
apgar 6 og 10 mínútum síðar apgar 7. Um 10 mínútum síðar kl:02:47 kom Aron Breki í heiminn,
1140gr og 40cm, hann var líflaus og frekar blár fékk apgar 1 og 10 mínútum síðar apgar 6.
Strákarnir voru strax færðir á vökudeildina, Aron Breki fór í öndunarvél í sólahring og svo á CPAP
en Óliver Atlas fór beint á CPAP. Við vorum í 2 mánuði á vökudeildinni, tíminn var fljótur að líða en
jafnframt mjög erfiður þá sérstaklega fyrri mánuðurinn. Á ýmsu gekk, strákarnir fengu báðir „vægar“
blóðsýkingar og fleiri „hefðbundin“ fyrirburavandamál. En skyndilega fór allt að ganga á ógnarhraða,
strákarnir losnuðu við CPAPið og úr hitakassa rúmlega mánaðargamlir, nálarnar fuku og eftirlitstækin
sem þeir voru tengdir, pela og brjóstagjafir hófust og gengu vel, strákarnir þyngdust hratt þegar
til baka er litið er ótrúlegt að hugsa til þess hvað þeir voru duglegir, algjörar hetjur. Starfsfólkið á
vökudeildinni studdi okkur og hugsaði um okkur ásamt því að hugsa um strákana dag og nótt. Við
erum svo þakklát fyrir allt, erum svo reynslunni ríkari að hafa kynnst fólkinu á vökudeildinni og öðrum
foreldrum, þetta er skrýtinn heimur að búa á vökudeildinni.
2. september vorum við útskrifuð af vökudeildinni, Aron Breki var þá orðinn 2524gr og 47cm,
Óliver Atlas 2754gr og 47cm. Eftir að heim var komið fengu strákarnir kviðslit, Óliver byrjaði, fórum
6.september með hann í aðgerð, svæfingin fór eitthvað illa í hann og fór hann aftur á CPAP í hálfan
sólahring á vökudeildinni. Þetta var rosalegt sjokk, Aron Breki fylgdi svo í kjölfarið og fór um 10
dögum síðar í sína fyrri aðgerð og svo aftur um 10 dögum síðar í sína seinni aðgerð. Aron Breki var
mænudeyfður og gengu þær aðgerðir mun betur, hann var fljótur að jafna sig. Í dag eru strákarnir
orðnir tæplega 4 mánaða og eru orðnir rúm 4kg og rúm 4,5kg, algjörar hetjur, farnir að brosa og hjala
og allri stórfjölskyldunni og vinum finnst þeir algjörar hetjur.
Í dag erum við ótrúlega þakklát fyrir strákana okkar, að búa á Íslandi og eiga þetta flotta starfsfólk á
spítalanum. Strákarnir þroskast eðlilega og virðast ætla að koma út úr þessari lífsreynslu með stæl.