Ernir Benediktsson (34 vikur)

Fyrirburar

Síðustu vikur meðgöngunnar dvölin á sjúkrahúsinu, fæðing Ernis og fyrstu dagarnir á vökudeildinni.

24. apríl 2009 klukkan 22:24

Meðganga gengur fínt, fór í síðustu viku upp á spítalameð aukinn bjúg til að fá þær til að athuga blóðþrýstinginn minn, og þær settu mig í mónitor sem þær síðan gleymdu mér í, ég endaði á að vera þar í tvo og hálfan tíma! Græninginn ég vissi ekkert hvað þetta ætti í raun að taka langan tíma og sat róleg og las séð og heyrt… en var þó farið að leiðast fullmikið eftir klukkutíma, hvað þá tvo og hálfan! Í morgun hafði ég síðan áhyggjur af einhverju hreyfingarleysi, en þær áhyggjur voru nú tilefnislausar og er Kólumbus elskulegur sprækur. Hér eru komnar næstum 32 vikur á morgun sigli ég inn í 33. viku meðgöngunnar, sem er alveg magnað fyrirbæri! mér finnst nefninlega alveg bráðum vera komið nóg 🙂

 

27. apríl 2009 klukkan 17:32

Mæðraskoðunin í morgun var ekki eins gleðileg og hinar fyrri. Jú við heyrðum hjartslátt og hreyfingar og Kólumbus í toppstandi, móðirin hinsvegar ekki eins. Við vorum send upp á spítala til frekari rannsókna þar sem ég mældist með of háan blóðþrýsting og 2+ í bjúg… MEN og ég sem er búin að þamba birkisafa og brenninetlute eins og enginn sé morgundagurinn! Ég var sett í mónitor og svo tók Alexander okkur í vaxtasónar sem var gaman, fengum að sjá andlitið á krílinu okkar og hann er að sjálfsögðu fallegastur, ásamt því að fá að vita að hann vex fullkomlega eðlilega og er af réttri stærð. Mér er fyrirskipað að taka því rólega og ætla að læra fyrir próf undir sæng…
Næsta heimsókn er því á fimmtudaginn… góð ráð, straumar og heimsóknir eru vel þegnar!

30. apríl 2009 klukkan 14:25

jæja, hér hefur lítið breyst. Skoðunin í morgun kom svipað út nema núna mældist að eins prótein og hvítur í þvagi, ég rétt gat vælt út að fá að fara heim yfir helgina… svo við erum hérna skötuhjú og ég ligg með tærnar upp í loft með þá fyrirskipun að gera algjörlega ekkert!

02. maí 2009 klukkan 15:46

Fannst þá kominn tími til að læsa, ef ég ætlaði á annað borð að fara að gera þetta að einhverjum svona alvöru persónulegum skrifum um mína óléttu og það sem henni fylgir gott og slæmt. Það er kannski útí hött að skrifa á blogg sem er læst með lykilorði sem hvort sem er fréttist á endanum, en mér þykir einhvern veginn betra að hafa kontrol, sérstaklega á meðan aðstæðurnar eru eins og þær eru, hugsi hver sitt. Ég veit að Benna finnst fáránlegt að læsa blogginu sínu og fleirum sem ég þekki en á meðan ég veit ekki hvert stefnir þá verður þetta bara svona…
Það er kannski ekki fallegt að segja að óléttunni fylgi eitthvað slæmt, enda er óléttan frábær og yndisleg og ég get ekki beðið eftir að fá litla barnið mitt í hendurnar, ég er hinsvegar bara pínulítið hrædd, pínulítið stressuð og finnst svolítið vont að vita ekki hvað gerist næst. Ég er
alveg búin að gráta smá hérna heima en er samt alveg að komast á réttan kjöl held ég.
Ég var sem sagt send heim af spító á fimmtudaginn, eða rétt gat vælt það út að fara heim, því þær vildu helst leggja mig inn. Ég bað um að fá að fara heim því ég ætti eftir eina ritgerð og eitt próf til að klára önnina, og fékk það með því skilyrði að ég myndi gera algjörlega ekki neitt og Benedikt þurfti að lofa að fylgjast sérlega vel með mér. Ég má sem sagt fara á salernið eftir þörfum og 1x á dag í sturtu, ekki borða salt og ekki sterkt. Ef ég fæ stjörnur fyrir augun, höfuðverk eða verki efst í bumbuna á ég að hringja strax á spító, að öðru óbreyttu mæta á mánudagsmorgun í rit, blþr mælingu og flæðissónar.
Fyrir vikið er ég extra meðvituð um allt sem gerist í líkamanum mínum, finn vel fyrir hjartslættinum og er alltaf að pæla í hvort ég sé að sjá stjörnur og einföldustu hungurverkir hræða mig pínulítið, en ég er að reyna eins og ég lifandis mögulega get að slappa af og anda rólega. Benedikt hefur góð áhrif á mig og hjálpar mér með allt og allt.

06. maí 2009 klukkan 12:45

Ég var lögð inn á fæðingardeild sjúkrahússins á Akureyri síðasta mánudag til ýmissa rannsókna. Eftir að hafa verið undir stöðugu eftirliti með blóð, blóðþrýsting, þvag og hreyfingar barns var ég lögð inn endanlega í dag með verulega meðgöngueitrun. Sem þýðir að ég verð hér þar til sonur minn kemur í heiminn, á stofu tvö á fæðingardeildinni. Það er alls ekki víst að það verði langur tími… samkvæmt doktor Alexander þá eru það svona tvær vikur. Alexander sem sagt kom til mín í morgun þar sem ég var salí róleg að borða morgunmatinn minn. Hann sagði að ég yrði að gera mér grein fyrir því að meðgöngueitrunin væri veruleg og henni bæri ekki að taka létt, ég ætti að fara varlega og við í sameiningu myndum reyna allt til að halda drengnum sem lengst inni.
Ég er ennþá pínu í sjokki, bjóst ekki við því að næst þegar ég kæmi heim til mín væri ég með barnið mitt og orðin mamma. Allt í einu finn ég fyrir því að vera ekki búin að undirbúa neitt og finnst leiðinlegt að geta ekki farið eftir planinu eins og það átti að vera… ég ætlaði alltaf að eyða þessum síðustu vikum í sérlega kósí undirbúning og almenn kósíheit. Nú hinsvegar í breyttum aðstæðum fékk Benedikt þrjá lista, kaupa, koma með og gera.

09. maí 2009 klukkan 12:52

Það er svo gott að vita að maður á góða að sem hugsa til manns, það auðveldar bara allt einhvern veginn. Ég á svo góða vini sem eru búnir að koma í heimsókna og spjalla og hughreysta okkur og færa okkur gjafir og svona.
… en nú er það búið, ég má helst ekki fá mikið af gestum og á að halda símtölum í lágmarki, svona í bili að minnsta kosti. Benni má auðvitað vera samt eins og hann vill. Hann er núna í Reykjavík þessi elska að ná í það sem átti eftir að sækja fyrir soninn, svona skreppiferð. Hann og pabbi í sameiningu ætla að flytja hingað vagn, rúm, baðborð og fleira sem er statt í Reykjavík, svo ég er einhvernveginn bara ein á Akureyri, eða þið vitið… ekki Benni, ekki mamma, ekki pabbi … en það er nú búið á morgun, þá verða allir komnir heim.
Líkamlega ástandið er aðeins að versna, blóðþrýstingurinn hefur hækkað talsvert og ég er búið að auka við skammtinn af blóðþrýstingslyfjunum talsvert. Ég fæ höfuðverk af og til og á stundum svolítið erfitt með að horfa á sjónvarpið og lesa blöðin vegna einhverra smávægilegra sjóntruflana, en þetta eru allt fylgifiskar. í dag er ég samt komin 34 vikur sem er áfangasigur fyrir okkur öll, þannig séð. Ég má eiga á Akureyri og þarf því ekki að fara með sjúkraflugi til Reykjavíkur og þarf ekki sterasprautur til þess að styrkja lungu barnsins því eftir 34 vikur eiga þau að vera fullmótuð, eða að minnsta kosti nægilega vel mótuð. Hann er rúmir 40 sentímetrar að lengd og um tvö og hálft kiló sem eru held ég 10 – 11 merkur. Ég er annars bara óskaplega spennt að fá son minn í heiminn og get ekki beðið eftir að við getum verið öll sama

12. maí 2009 klukkan 19:08

Fæðing

Í heiminn er kominn sonur okkar. Ernir Benediktsson.

Sunnudagsmorguninn 10. Maí hitti ég Elísabetu fæðingarlækni. Henni leist heldur illa á blóðþrýstinginn minn og svona almennt ástand en sagði svo „við setjum þig líklega samt ekkert af stað í dag…“ mér fannst þetta svolítið fyndið, enda hafði ég ekkert velt því fyrir mér að þetta gæti gerst eitthvað núna, eða strax. Ég tilkynnti þeim mjög stolt og ákveðin að sonurinn ætlaði að vera í maganum fram yfir eurovision. Síðan hringdi ég í Mörtu og mömmu og hló að þessu sem læknirinn hafði sagt, fáránlega uppfinning að hann færi eitthvað að koma í heiminn á næstunni. Benedikt kom síðan frá Reykjavík um kl 20 um kvöldið og við borðuðum saman og horfðum á sjónvarpið aðeins, hann fór síðan heim um hálf ellefu. Ég talaði í símann við mömmu og lagðist svo út af. Ég var ekki búin að liggja lengi þegar ég fann hvernig var að þyrma yfir mig. Ég fann hvernig jukust sjóntruflanirnar og höfuðverkurinn varð meira áberandi ásamt því ég sem var slöpp og með almenna vanlíðan, hausinn var þungur og það var eins og ég fengi fjörfisk inn í hausnum svona einn og einn. Ég hringdi á ljósuna Eddu sem hringdi í Alexander til að spyrja ráða. Á meðan ákvað ég að hringja í Benna til þess að segja góða nótt en hann svaraði ekki og í því gekk Alexander inn og þá fór í gang einhver sú svakalegasta atburðarrás sem ég hef lent í .

Alexander sagði mér að hann væri hræddur um að ég myndi fá fæðingarkrampa og hélt að ég myndi ekki endast í þessu ástandi nema í max 2 daga. Hann sat hjá mér í svona tuttugu mínútur og velti fyrir sér kostum og göllum og eftir að hafa ráðfært sig við svæfingarlækni ákváðu þeir að drengurinn kæmi, strax, með keisaraskurði. Ég hringdi því aftur í Benna í þetta skiptið til að biðja hann að koma strax, sonur hans væri að koma í heiminn, hann var nýkominn úr sturtu og rauk af stað. Allt fór á fullt, Edda setti upp nál í æðina hjá mér og ég fékk magnesíumsúlfat sem á að minnka líkurnar á krömpum, eitthvað var erfitt að ná hjá mér blóði en það tókst í fjórðu tilraun, ég fékk þvaglegg og var skellt í rafmagnsrúm. Svæfingarlækinirinn kom og útskýrði fyrir mér mænurótardeyfinguna, hvað gæti gerst og hvernig hún væri, hvað ég myndi finna og hvað ekki ásamt því að útskýra hvað myndi gerast ef deyfingin virkaði ekki. Við rúlluðum afstað, á miðjum ganginum stoppaði Alexander hersinguna, svona rétt til að heyra hjartsláttinn í prinsinum fyrir aðgerð, dopplerinn fór á bumbuna og hjartslátturinn heyrðist skýr og flottur áður en dopplerinn kom við húðina. Hann hringdi á lyftuna og inn fórum við, ég í rúminu, Benni, 1 hjúkka, Edda ljósa, Siggi svæfingarlæknir, Alexander og vagga fyrir barnið, ég man að helstu áhyggjurnar mínar voru hvort lyftan myndi bera allan þennan þunga því þessi gamla lyfta er bara skráð fyrir 500 kílóum. Það var breytt yfir augun á mér svo birtan myndi ekki trufla augun og auka líkurnar á því að ég myndi krampa, ég hafði akkúrat orð á því að mér liði eins og í óvissuferð. Ég fann strax að mér leið vel hjá þessu fólki og ég treysti því hundrað prósent. Þegar komið var niðrá skurðstofu fóru þau að klæða sig í galla á meðan ég hitti skurðhjúkkur og svæfingarhjúkkur og var sett í undirbúning fyrir aðgerð.

Ég skalf frá öxlum og niður af stressi og kvíða og fann hvað ég var hrædd. Það voru þúsund hugsanir í ausnum á mér en ég leyfði mér bara að hafa áhyggjur af einu í einu, á þessum tímapunkti hafði ég áhyggjur af deyfingunni. Benni kom í græna gallanum og hafði orð á því að búnaðurinn væri sérlega þægilegur, það var létt andrúmsloft þegar Siggi svæfingarlæknir fór að lýsa fyrir mér næst skrefum, ég settist fram á bekkinn og hann deyfði mig, það var nú ekki meira mál en það, ég fann rétt þegar hann stakk mig en svo búið. Eftir það dofnaði ég hratt og hafði enga tilfinningu frá brjósti og niður. Svæfingarlæknirinn sat svo hjá mér og lýsti fyrir mér hverju skrefi aðgerðarinnar sem mér þótti mjög gott og vakti hjá mér heilmikla öryggiskennd. Ég fann ekkert, bara eins og hnoð, Alexander sagði mér eftir á að prinsinn hafi verið sitjandi og því aðeins meira mál að ná honum út en þau bjuggust við. Klukkan 01:31 fann ég þegar ég tæmdist við það að þau tóku hann út, hann fór beint á bakvið þegar hann kom svo ég fékk ekki að sjá hann strax, en aðeins augnabliki síðar heyrðist þetta litla ámátlega væl sem á örskotsstundu snerist upp í hvínandi grát og ég hugsaði með mér að það væri ljóst að lungun hans væru í fínu lagi. Ég hætti að gera mér grein fyrir því að það væri einhver að „vinna í mér“ og heyrði bara þetta fallegasta og besta hljóð sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Benni fór og klippti á naflastrenginn.

Ég fékk síðan rétt að sjá framan í elsku drenginn minn og kyssa hann á kollinn rétt áður en farið var með hann upp á barnadeild til frekari skoðunar. Ég man ekkert eftir því sem gerðist í aðgerðinni eftir þetta, ég var bara í einhverju hamingjumóki held ég, það voru örlitlar áhyggjur innra með mér, en Benedikt fullvissaði mig um að hann væri fullkominn í alla staði.

Ég var saumuð saman og komið á gjörgæslu þar sem ég var áfram með magnesíumsúlfatið í æð ásamt góðum skömmtum af verkjalyfjum og því sem fylgir keisaraskurði. Benni sat hjá mér til fimm á milli þess sem hann fékk að hlaupa á barnadeildina og skoða soninn og taka af honum myndir, ég gat ekkert sofið og skalf ennþá, fann máttinn koma í líkamann eftir því sem ég skalf meira enda örugglega einhverskonar eftir á sjokk að ríða yfir.

Erni fékk ég að sjá loksins rétt fyrir hádegi 11. maí, hann var þá orðinn tíu tíma gamall. Yndislegu jósmæðurnar sem sóttu mig á gjörgæsluna keyrði mig í rúminu mínu sem leið lá á barnadeildina þar sem mér var troðið í öllu mínu veldi inn í ungbarnastofuna þar sem litli engillinn minn lá lítill og varnarlaus í hitakassa. Honum var kippt út og skellt á bringuna mína þar sem ég fékk að hafa hann í smá stund og það var örugglega besta stund lífs míns.

Hann var 1805 grömm eða rétt rúmar 7 merkur og 44 sentímetrar og höfuðmálið 32 sentímetrar. Langur og mjór og það fallegasta barn sem ég hef nokkurn tímann augum litið. Honum líður vel og þarf ekki auka súrefni, aðeins hitakassann á meðan hann er að læra að halda á sér hita sjálfur. Ég fór í gær og aftur áðan og fékk að sitja með hann, á meðan hann fékk að drekka, bæði í gegnu sondu og svo sprautu en hann er duglegur, sýnir góð sogviðbrögð og veit sko alveg hvernig á að fara að þessu og mér sýnist hann bara ætla að taka foreldrana til fyrirmyndar og vera duglegur að borða matinn sinn. Hann opnar augun vel og skoðar í kringum sig og er algjört kraftaverk.

Starfsmenn FSA eiga heiður skilinn, þessa nótt var okkur báðum bjargað og þau létu það líta út fyrir að vera ekkert mál, mér leið aldrei eins og ég væri bráðatilfelli eða það væri eitthvað stress, þeim tókst að láta mér líða vel og gera fæðinguna alveg eins góða og hún gat orðið, við eigum góðar minningar og þökkum þeim fyrir það, Alexander, Siggi svæfingarlæknir og Edda ljósa fá öll fullt hús stiga.

Komin til Reykjavíkur! 15. maí 2009

Enn ein rússíbanaferðin er hafin, og hófst með látum á miðvikudaginn síðasta. Ernir elskulegur virtist þá vera kominn með einhverja sýkingu í kringum naflann og hafði ekki melt matinn sinn nægilega vel. Barnalæknarnir á Akureyri ákváðu því að senda okkur með sjúkraflugi til Reykjavíkur því þau töldu honum betur borgið í höndum vökudeildarinnar á LSH.

Ég man lítið sem gerðist þennan dag en seinna kemur pistill sem snýr að hryllings bákninu Landspítalanum og þeirri ömurlegu þjónustu/meðferð sem ég fékk sem sjúklingur.

Ernir er strax allur að braggast, hann er búinn að fara í ótal blóðprufur og röngtenmyndatökur og allskyns rannsóknir og þeim sýnist helst hafa verið sýking í kringum naflastúfinn. Hann er á sýklalyfjum og fastaði í 2 daga, sem hljómar alveg hræðilega þegar maður er bara rétt um 1800 grömm. Hann hafði ekki alveg melt matinn sinn og því vildu þeir útiloka gat á görnum eða eitthvað slíkt og hafa nú gert það með röngtenmyndum. Hann fékk að borða í gær og fær núna 6ml af móðurmjólk á 2 tíma fresti ásamt næringu í æð og fitu í æð. Það er nú ekki oft sem er svo lítið utan á manni að maður þurfi að fá fitu í æð. Hann fékk líka smá gulu og var í ljósum í einn dag en er laus við þau núna. Hann er með pottþétta öndun, púls og súrefnismettun og öll lífsmörk upp á tíu! Ennþá vitum við ekkert hvert næsta skref er, en í þessu tökum við bara hænuskref. Hann er búinn að fá að prófa brjóstið aðeins og var aðallega fúll yfir því að það kom ekkert úr þessu drasli, en hann leitaði, og prófaði og sleikti og fann smá bragð og virtist bara líka mjög vel svo þetta kemur bara með kaldavatninu. Á meðan mjólka ég eins og belja í fjósi bara og set í frystinn.

Ernir er auðvitað fallegasta barn í heimi og höfum við foreldrarnir þakkað fyrir það daglega að hafa fengið heiðurinn af því að vera foreldrar hans. Hann er mikil hetja og augljós kraftur í honum. Stundum er hann alveg á fleygiferð í hitakassanum og er hérumbil skriðinn af stað stundum!

Hann má fá einn gest á dag fyrir utan okkur svo gestakomur eru hérumbil ómögulegar, það kemur til af því vökudeildin er gjörgæsludeild og þar á ekkert að vera fólk í rauninni annað en foreldrar og starfsfólk.

Takk fyrir góðar kveðjur og einstaka hugulsemi. Við erum endalaust þakklát.

19. maí 2009

Ernir er í dag 8 daga gamall. Í gær á eins vikna afmælinu sínu var hann viktaður og var heil 1840 grömm. Hann er því búinn að þyngjast um 110 grömm á 5 dögum sem er frábært. Hann braggast vel og er kominn úr hitakassanum og yfir á vöggustofuna á Vökudeildinni. Eftir að hafa gengið í gegnum ýmsar rannsóknir þarna á vökudeildinni komust læknarnir að þeirri niðurstöðu að Ernir hefði verið með sýkingu í kringum naflastúfinn sem er nú í rénum. Hann klárar sýklalyfjakúrinn sinn á morgun og þá loksins losnar hann við nálina sem hann er með í höfðinu. Ernir er líka búinn að vera með svolitla gulu sem þeir hafa haldið niðri með ljósum, hann fer væntanlega aftur í blóðprufu á morgun og ef hann mælist aftur yfir mörkum þá fer hann örugglega aðeins meira í ljósin.

Hann er núna miðað við meðgöngu 35vikna og 2 daga gamall og hegðar sér sem slíkur, hann sefur, hikstar, hnerrar og horfir í kringum sig og skoðar heiminn. Hann grætur sama og ekkert enda gerir hann sér ekki grein fyrir því að hann sé svangur, hann fær reglulega í magann á þriggja tíma fresti og þá móðurmjólk í gegnum sonduna. Ég mjólka mig þessa á milli og skemmst er frá því að segja að ég mjólka bara eins og belja. Í gær fékk Ernir að prófa brjóstið í fyrsta skipti og drakk 8 ml sem er góður árangur hjá svona litlu kríli, í næstu gjöfum á eftir var ekkert hægt að prófa því hann svaf bara eins og grjót, en þetta komum við nú til með að reyna daglega þar sem það er stór hluti af vaxtarræktinni og í þeim hluta að komast heim. Það er næsta skref að kenna honum að drekka og koma reglu á fæðið hjá honum, þyngja hann svolítið og svo komumst við heim. Hjúkrunarfræðingar og læknar hafa talað um 1 – 2 vikur í viðbót. Ernir er nú samt svoooo duglegur að við vonumst til þess að þetta verði frekar fyrr en síðar.

Við foreldrarnir höfum það gott. Erum svo þreytt að þaðtekur varla tali. Við förum á spítalann upp úr hádegi og

erum fram yfir 14 gjöfina og mætum síðan reglulega á þriggja tíma fresti til þess að sinna prinsinum, skipta á honum, vigta hann og klæða og gefa honum að borða. Þess á milli sefur hann eins og engill. Við berjumst við að fá greitt úr fæðingarorlofssjóði, að ég fái námslán og margt fleira því kerfið virðist nú tregt sem aldrei fyrr. Við látum það samt ekki fá á okkur. Erum sérstaklega hamingjusöm með fallega drenginn okkar og erum sammála í því að við erum augljóslega mjög góð í að búa til börn, það verður þó langt í næsta 🙂 Við fengum íbúð hjá Barnaheill á Rauðarárstíg og getum dvalið þar á meðan barnið er á sjúkrahúsinu. Ættingjar og vinir bjóða okkur síðan sífellt í heimsókn og mat og styðja þétt við bakið á okkur.

Ég hef sagt það áður og segi það enn… gott er að eiga góða að.

Takk fyrir góðar kveðjur og stuðning.

Lokaorð

Textinn hér á undan var skrifaður í dagbókafærslum á bloggsíðunni minni. Mikið er gott að eiga textann í dag til þess að geta rifjað upp allar tilfinningarnar sem áttu sér stað á þessum tíma, ég man í rauninni ekkert hvernig þetta var, nema með því að lesa þennan texta. Ernir útskrifaðist af vökudeildinni 2. Júní eftir 20 daga á vökudeildinni, 2 daga dvaldi hann á sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann er í dag 5,5 mánaða mjög hraustur strákur sem hefur nokkurn veginn náð jafnöldrum sínum bæði í lengd og þyngd. Við forum einu sinni í viku í sjúkraþjálfun þar sem Ósk sjúkraþjálfari kennir okkur ýmsar góðar æfingar af því Ernir er svolítið linur í höndunum og var lengi að halda haus. Ég sjálf berst enn við of háan blóðþrýsting og er nú í bæði í líkamsrækt og blóðþrýstingslækkandi matarprógrammi í von um að ég þurfi ekki að fara aftur á blóðþrýstingslækkandi lyf. Ég hugsa stundum um það hvernig það hefði verið að ganga með hann fulla meðgöngu, hvernig þá allt hefði farið, ég reyni samt í staðinn að líta jákvæðum augum á þessa reynslu okkar og set hana varlega í reynslubankann fyrir framtíðina.

Ernir fyrirburi mánaðarins apríl 2013