Reynslusaga af meðgöngueitrun

Fyrirburar

Mér og manninum mínum var búið að dreyma lengi um að eignast barn. Við ákváðum síðan loksins að láta verða af því og ég hætti á pillunni. Þar sem ég er ekki þolinmóðasta manneskja í heiminum þá tók ég þungunarpróf mánuði seinna en það reyndist neikvætt. Við urðum bæði mjög svekkt en það sýndi okkur að þetta var það sem við virkilega vildum. Mánuði seinna (9. ágúst 2007) fengum við síðan jákvætt próf og urðum heldur betur glöð. Áætlaður fæðingardagur samkvæmt sónar var 18. apríl 2008.

Ég var að drepast úr ógleði fyrstu fjóra mánuðina og það var bókstaflega allan sólarhringinn. En þegar ógleðin ákvað loksins að yfirgefa mig þá var þetta æðislegur tími. Það var yndislegt að finna bumbuna stækka og spörkin aukast. En því miður varði þetta tímabil alltof stutt því ég greindist með meðgöngueitrun í lok janúar (28 vikur).

Það byrjaði allt á því að ég fór í mæðraskoðun þann 31. janúar en þá var alveg brjálað veður, snjóskaflar um allt og blindbylur úti (Ég bý á Akureyri). Maðurinn minn var mjög upptekinn í vinnunni þannig að hann komst ekki með mér. Mér er mjög illa við að keyra í vondu veðri en lét mig hafa það þó að ég ætti erfitt með að sjá veginn á köflum fyrir þessum brjálaða byl. Þetta var snemma morguns og varla byrjað að ryðja vegina þannig að auðvitað tókst mér að festa mig á leiðinni en tókst samt að koma mér hjálparlaust upp aftur. Ég hljóp síðan upp á 4. hæð til að verða ekki alltof sein í mæðraskoðunina. Blóðþrýstingurinn var auðvitað upp úr öllu valdi þannig að ljósmóðurinni fannst ástæða til að senda mig upp á sjúkrahús til nánari skoðunar. Ég hringdi því í manninn minn og bað hann um að koma með þó ég væri samt alveg viss um að þrýstingurinn væri bara veðrinu að kenna . Þrýstingurinn vildi hins vegar alls ekki lækka og síðan greindist pínu lítið merki um prótein í þvagi þannig að læknarnir lögðu mig því inn á sjúkrahúsið til frekari rannsókna.

Morguninn eftir komu 5 læknar inn á stofuna til mín í stofugang. Ég var þá nývöknuð, enn í náttfötunum, átti eftir að bursta tennurnar og greiða mér og leið svona næstum eins og ég væri nakin fyrir framan allt þetta fólk þar sem ég hafði ekki komist lengra en að vaskinum. Einn læknirinn missti sig aðeins í svartsýni því hann fór að romsa út úr sér öllu því versta sem gæti gerst. Hann sagði mér að ég væri með meðgöngueitrun á háu stigi og yrði því send suður sem fyrst þar sem barnið væri í mikilli hættu og hætt að vaxa og ég veit ekki hvað og hvað. Það er ekki gott að tala svona við ólétta konu með hormóna á fullu því ég sá bara svart og þegar læknastóðið var farið gripu ein ljósmóðirin og tengdamóðir mín mig þar sem ég var við það að detta í gólfið. Þær höfðu báðar heyrt það sem læknirinn sagði og fannst óþarfi að fara alveg svona á flug því niðurstöður úr blóðprufunum og þvagsöfnuninni lágu ekki fyrir. Ef ástandið hefði verið svona slæmt þá hefði verið nóg að ein manneskja settist niður með mér og útskýrði hvað væri í gangi en þegar svona margir standa yfir manni þá upplifir maður það sem einskonar árás. Ég var alveg í rusli og ældi og ældi af áhyggjum á meðan beðið var eftir niðurstöðunum. Ég vildi ekki hringja strax í manninn minn og gera hann ómögulegan því hann hafði nóg með vinnunna enda var ekki víst að ástandið væri svona slæmt. En ég hringdi í mömmu mína og fannst mikil hjálp í því úr því að við búum ekki í sama bæ.

Niðurstöðurnar litu síðan mjög vel út en þar sem blóðþrýstingurinn var ennþá hár og smá prótein í þvagi þá sögðu læknarnir að það gæti þróast yfir í meðgöngueitrun síðar þannig að ég fór inn og út af sjúkrahúsinu næstu vikur til að hægt væri að fylgjast með mér. Þegar venjulegt fólk mætti í vinnu á morgnana þá mætti ég á sjúkrahúsið og fór síðan heim þegar búið var að rannsaka mig. Ég mátti helst ekki gera neitt annað en að liggja, liggja og liggja út í eitt og láta þjóna mér. Maðurinn minn stóð sig mjög vel í því hlutverki og ef ég vogaði mér að setjast upp í sófanum til að fá mér vatnssopa þá var hann mættur og vildi fá að gera eitthvað fyrir mig. Það var voða gaman að láta þjóna sér fyrsta daginn, þurfa hvorki að elda né ganga frá og síðan hljóp karlinn reglulega um íbúðina með moppuna og gerði allt sem gera þurfti en eftir prinsessulíf í einn dag þá var þetta bara leiðinlegt. Þegar maður er farinn að öfunda fólk yfir því að taka úr uppþvottavélinni og skúra þá leiðist manni mikið.

Meðgöngueitrun er mjög lúmskur sjúkdómur og ég óska engum að fá það ógeð. Þær konur sem fá þetta finna oft ekki fyrir neinu fyrr en eitrunin skellur á í öllu sínu veldi og þá má engan tíma missa. Þar sem mér fannst ég vera frísk þá var mjög erfitt að þurfa bara að liggja og fá ekki að gera það sem mig langaði til og monta mig aðeins með kúluna mína. Mér hefur nefnilega aldrei fundist ég eins falleg og þegar ég var ólétt. Verst að hafa ekki fengið að njóta þess aðeins lengur.

Síðan kom að því þann 28. febrúar 2008 að próteinmagnið í þvaginu var farið að aukast þannig að ég var lögð aftur inn á sjúkrahúsið. Mér fannst það frekar svekkjandi því þennan dag kom mamma mín að sunnan og í staðinn fyrir að snúast með henni, þvo barnaföt og gera tilbúið fyrir barnið þá lá ég inni á sjúkrahúsi en í staðinn var mamma mikið hjá mér. Hún fór síðan suður aftur á sunnudagskvöldið.

Aðfaranótt mánudagsins 3. mars var ég að stytta mér stundir við að horfa á sjónvarpið og sauma út sængurver handa barninu. Þar sem ég gerði ekki annað en að hvíla mig þá var ég eiginlega hætt að þurfa að sofa að einhverju viti. Ég var því vakandi svolítið frameftir. Síðan um hálf tvöleytið gat ég ekki sofnað því ég fékk einhvern verk í bakið. Ég fór því fram og talaði við ljósmóður og fékk hitapoka til að liggja á. Stuttu seinna varð mér þvílíkt óglatt og ældi og ældi. Ég hélt að ég væri komin með ælupest en þegar ljótur verkur fór að koma í hægri hliðina, sem sagt í lifrina þá leist ljósmóður á vakt ekki á blikuna og hringdi út vakthafandi lækni sem kom strax. Hann þorði síðan ekki öðru en að hringja í fæðingarlækninn sem hafði sinnt mér mest og hann sá strax að eitrunin var komin á mjög hættulegt stig og hringdi í manninn minn og sagði honum að ég yrði að fara í keisara eins fljótt og hægt væri. Ef hann ætlaði sér að vera viðstaddur þá þyrfti hann að koma núna!

Honum dauðbrá og flýtti sér til mín en á þeim tíma gat ég ekki legið kyrr fyrir verkjum. Var á tímabili komin í kuðl undir rúm og ælandi í þokkabót. Þetta var mjög skrítin tilfinning, ég gat varla hreyft mig en alls ekki legið kyrr. Sem sagt mjög skrítin blanda. Ég var svo drifin niður á skurðstofu og barnið kom síðan í heiminn ellefu mínúntum yfir sjö, bara nokkrum klukkutímum eftir að ég veiktist þannig að það sést hvað þetta er lúmskur sjúkdómur. Það mátti í rauninni ekki tæpara standa því ég var lífshættulega veik og var á gjörgæslu í tvo sólarhringa. Ég hrapaði niður í blóðflögumagni þannig að senda þurfti blóðflögur spes að sunnan. Tendamóðir mín vinnur á sjúkrahúsinu og vissi því allt um ástand mitt og hún greyið svaf ekkert næstu nótt á eftir fyrir áhyggjum því hún var dauðhrædd um að ég hefði nóttina ekki af. Hún þorði ekki að segja manninum mínum (syni sínum) frá ástandinu fyrr en ég var úr hættu því hún vildi ekki koma honum úr jafnvægi. Mamma mín var líka mjög hrædd og dreif sig norður með hraði.

Ég fékk að sjá dóttur mína nýfædda og kyssti hana á ennið. Mér var sama þó hún væri ennþá öll útötuð í fósturfitu. Ég sá hana síðan ekki aftur fyrr en seinni partinn daginn eftir. Þá var ég svo máttlaus að til stóð að hún kæmi til mín en hún hætti að anda í lyftuni þegar hún var á leiðinni til mín og því var hún drifin strax til baka. Maðurinn minn var vitni að þessu og honum dauðbrá þegar barnið byrjaði að blána upp. En fyrirburar eiga það til að „gleyma“ að anda og fá því oft lyf fyrst eftir fæðingu. Mér var því keyrt í rúminu til dóttur minnar og fékk að taka hana í fangið. Blóðflögumagnið fór síðan að aukast aftur og ég fór að hressast. Barnið var hins vegar allan tímann hin sprækasta og kom læknunum mikið á óvart þegar hún þurfti ekkert súrefni, bara andaði sjálf eins og ekkert væri. (Fyrir utan þetta eina skipti) Í rauninni hefði hún ekki mátt fæðast á Akureyri fyrren eftir 34 vikur en ég var bara komin 33 vikur og 3 daga en þar sem ég var orðin svo veik að þá var ekki hægt að senda mig suður. Barnið var líka svo duglegt og því fengum við að vera áfram á Akureyri enda best að vera þar. Ég var síðan útskrifuð þann 9. mars og fékk að fara heim en barnið varð að vera lengur á sjúkrahúsinu. Hún var þar í næstum fimm vikur.

Ég hafði miklar áhyggjur af því að geta aldrei haft barnið á brjósti en sem betur fer reyndust þær áhyggjur ástæðulausar. Það gekk reyndar ekki alveg þrautalaust fyrir sig en var þess virði. Eftir að hafa verið á milli svefns og vöku í nærri 2 sólarhringa þá tók það mjólkina smá tíma að streyma framm. Ég var því ekkert smá glöð þegar það loksins gerðist. Fyrstu vikurnar þurfti ég að nota mjaltavél á 3 tíma fresti (samt ekki á nóttunni) og það var 20-30 mín. í hvert skipti. Síðan var mjólkin hituð upp og sett í sprautu og síðan var dóttur minni gefin mjólkin í gegnum sondu en það er slanga sem er sett upp í nefið og liggur þaðan niður í maga. Móðurmjólkin reyndist vera eins góð næring og sagt er því barnið þyngist hratt og þegar hún var 3 vikna þá fékk hún loksins að fara á brjóst. Það tók hana nokkur skipti að ná tökum á því og á tímabili hélt ég að það tækist ekki en sem betur fer héldum við áfram að reyna. Það að hafa barn á brjósti er frábært en þegar maður losnar úr mjaltavélinni fyrir vikið þá er það ennþá betra.

Þegar hún losnaði úr hitakassanum eftir rétt rúmar 3 vikur flutti ég á sjúkrahúsið til hennar þar sem hún var æfð í að fara á brjóst. Við vorum í einangrunarherbergi því ef það kæmi upp einhver pest á barnadeildinni þá áttum við ekki að smitast. Eftir tíu daga var hún algjörlega hætt með sonduna og farin að drekka sjálf úr brjóstinu og þá loksins fengum við að fara heim. Þetta var 6. apríl 2008. Með réttu hefði hún ekki átt að vera fædd á þeim tíma. Og það var ekkert smá ljúft að komast með hana heim.

Fyrstu vikurnar sem við vorum heima gekk allt svo vel. Hún drakk og svaf þess á milli. En síðan fékk hún bakflæði en það er mjög algengt meðal fyrirbura því meltingarvegurinn er ekki alveg fullþroskaður. Við vissum í fyrstu ekki hvað var í gangi, barnið grét og grét og svaf eiginlega ekkert. Ég hélt að ég hefði borðað eitthvað sem hefði farið mjög illa í hana og var að lokum hætt að þora að borða sjálf. Á þessum tíma var maðurinn minn farinn að vinna aftur og ég var því mikið ein með hana. Eina nóttina sofnaði hún ekki fyrr en kl 9 morguninn eftir. Þá var ég búin að vaka með henni og ganga um gólf alla nóttina og var vægast sagt orðin þreytt. Á tímabili var ég ákveðin í því að eignast ekki fleiri börn og hugsaði meira að segja um að láta taka mig úr sambandi en það leið hjá. En sem betur fer tók þetta leiðindatímabil enda en það var ekki fyrren heimilislæknirinn okkar (sem er í fjölskyldunni) fattaði að þetta væri vélindabakflæði. Þá var barnið sett á lyf og við það varð hún aftur drauma barnið sem svaf, drakk og skoðaði umhverfi sitt þegar hún var vakandi.

Ég var mjög hrædd um að barnið yrði mjög fyrirburaleg í útliti, alveg glær og veikluleg en þær áhyggjur voru óþarfar því hún er svo falleg og hraust. Ég hafði líka áhyggjur af því að þurfa að vera með annan fótinn alltaf á sjúkrahúsinu því ég hélt að hún yrði svo viðkvæm að hún myndi fá allar þær pestir sem kæmu upp. En þetta sýnir bara fávisku mína því það að eignast fyrirbura er ekki eins og að eignast fatlað barn. Það eina sem sást á henni var að hún var mjög nett og var fyrsta árið minni en jafnaldrar sínir. Læknarnir voru búnir að vara mig við því að hún gæti orðið eftir á í þroska en það hefur hún ekki verið. Hún var alltaf mjög fljót að öllu og kemur öllum sífellt á óvart. Þetta tók hins vegar allt mjög mikið á mig. Þó ég skilji alveg mikilvægi þess að hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús og ekki mega neitt þá situr það samt enn í mér. Þetta var hálfgerð frelsissvipting. Síðan er ekki skemmtileg tilhugsun um að hafa verið í lífshættu og hafa kannski misst af þessu yndislega barni. Ég tárast enn þegar ég hugsa um hvað þetta var erfitt og þegar ég átti að segja frá minni reynslu á foreldranámskeiðinu sem ég var á þá fór ég bara að hágráta. Þá dóttir mín að byrja á bakflæðistímabilinu og ég var extra viðkvæm. Þá hélt sálfræðingur sem var á staðnum að ég væri með fæðingarþunglyndi en það reyndist samt ekki vera. Hjúkkan sem kom heim að vigta barnið var þeirrar skoðunar að þessi reynsla sæti svolítið í mér enda var þetta mjög erfið reynsla. Ég hef ekki ennþá jafnað mig alveg á þessu og ég held því að það geri mér gott að deila þessari reynslu með öðrum. Ég hefði viljað á sínum tíma heyra frá foreldri sem hefði eignast fyrirbura því það var alls ekki eins og ég hélt að það yrði. Það að eignast fyrirbura þarf ekki að vera heimsendir.

Við hjónin erum mjög stolt af barninu okkar og okkur finnst við vera mjög heppin með að hafa eignast hana því hún er fallegasta og duglegasta barnið sem við höfum séð.