Emma Sigrún
Ég átti tvær eðlilegar meðgöngur og fæðingar að baki fyrir utan mikla grindagliðnun en strax í byrjun þessara var einhvað öðruvísi. Ég byrjaði snemma á meðgöngunni að fá blæðingar og samdrætti og gat ekki klárað önnina í skólanum þar sem lítil áreynsla leyddi í mikla samdrætti. Á 31 viku komu kröftugar blæðingar og ég var skoðuð uppá lansa. Í ljós kom að ég var með sepa í leghálsinum sem blæddi úr og lá ég inni í þrjá daga til að fylgjast með mér. Ég var á mörkunum að fá sterasprautu en þar sem hætti að blæða hjá mér og öll rit frá barninu komu vel út var ég útskrifuð og send heim.
Viku seinna byrjaði aftur að blæða hjá mér og var ég orðin ansi pirruð á þessum sepa og fór upp á lansa eina ferðina enn. Ætlaði ekki í fyrstu en ákvað að betra að vera alveg viss hvaðan blæðingin kom. Í þetta sinn var það ekki saklaus blæðing eins og hafði einkennt meðgönguna frá upphafi. Leghálsinn hjá mér var orðin hagstæður og belgurinn var farin að síga niður. Þegar ég var búin að vera á fæðingargangi í skoðun í einn klukkutíma byrjaði ég svo að fá samdrætti og verki á tveggja mínútna fresti. Ég fékk sterasprautu og fyrstu plön voru þau að ég átti að liggja inni um nóttina og fá aðra sprautu daginn eftir en allt í einu var hætt við þetta allt saman og ég drifin í keisara.
Þetta var svo óraunverulegt. Allt í einu var dóttir okkar að koma í heiminn, átta vikum fyrir tímann. Hún var 1750 g og 40 cm. Foreldrar mínir og tengdaforeldrar komu og voru okkur til halds fram á biðstofu en maðurinn minn fékk að vera viðstaddur.
Það gekk erfiðlega að mænudeyfa mig en ég var stungin um sjö sinnum áður en deyfingin heppnaðist. Maðurinn minn fékk rétt að líta á hana og koma við hana þegar læknir var að skoða hana en ég sá glitta í hana þegar keyrt var með hitakassann framhjá mér.
Ég man vel eftir þegar barnalæknirinn kom niður til að ræða við okkur um dóttur okkar. Hann sagði frá staðreyndum, að hún væri mjög lítil og veik og þyrfit á öndunarhjálp að halda og næstu sólahringar kæmu í ljós hvernig færi. Ég var mjög reið við þennan lækni lengi vel fyrir að hafa fært mér þessar fréttir. Við gerðum okkur ekki fyllilega grein fyrir því hvað hún var veik.
Á vökudeild tók á móti okkur yndislegt starfsfólk sem ég get aldrei þakkað nóg fyrir allt sem þau gerðu fyrir okkur hjónin og dóttur okkar. Þegar ég sá hana í fyrsta sinn öll stungin og með snúrur út um allt var það ekki eins erfittt og ég bjóst við. Reyndar ósjálfrátt passaði ég mig á því að tengtjast henni ekki of mikið fyrstu daganna. Fyrstu daga var okkur mikið sýnt hvernig allt virkaði, hvað þetta og hitt þýddi í skýrlsunni, hvaða lyf hún var að fá og af hverju. Okkur var kennt að sinna henni og læra inná hana. Hún var í öndunarvél í tvo daga og fór svo á c-pab í sólahring. Á fjórða degi máttum við fá hana í fangið í fyrsta sinn og var það yndislegt að geta loks haldið á barni sínu.
Vökudeildin varð okkar annað heimili og var alltaf gott að koma þangað og spjalla við starfsfólkið, þau voru orðin hluti af fjölskyldu manns. Mér fannst líka gott að sjá hversu vel þau hugsuðu um hin börnin þegar foreldrarnir voru ekki. Þetta var ekki bara færibandavinna heldur var tekinn tími og spjallað rólega við börnin og hugsað um þarfir hvers og eins.
Hún var á vökudeild í sex og hálfa viku og var yndislegt að komast með hana heim. Það var pínu stressandi að allt í einu að vera bara ein með hana en ekki með menntað starfsfólk í kringum hana allan sólahringinn en þetta gekk vel. Við erum mjög heppinn því hún er heilbrigt barn og eina sem sýnir að hún sé fyrirburi er það að hún er mjög nett miðað við aldur.
Þetta er mikil reynsla að ganga í gegnum og það þyrmdi ekki yfir okkur hjónin fyrr en mörgum vikum eftir að hún kom heim. Þá fyrst áttuðum við okkur á því hversu alvarlegt ástandið var og áttuðum okkur á því hvað við vorum búin að ganga í gegnum erfiðar vikur. En í dag er ég smátt og smátt að sætta mig við þetta. Það koma dagar sem ég skoða myndir af henni nýfæddri eða rifja upp þennan tíma og það koma tár en ég tel það hjálpa mér að geta talað um þessa reynslu.
Ég kendi sjálfri mér um hvernig fór og fannst ég vera “gölluð” þar sem ég gat ekki gengið fulla meðgöngu með barnið mitt. Það var mikil barátta að komast yfir þessar hugsanir en með stuðning frá fjölskyldu og starfsfólki vökudeildar þá komst ég yfir það. Líka í hvert sinn sem ég sá framfarir hjá dóttur okkar þá minnkaði samviskubitið mitt.
Kv Hafdís Priscilla