Áhyggjur

Foreldrar fá upplýsingar um á hvað aldri börn eiga að meðaltali að sýna ákveðinn þroska. Þegar þroski fyrirbura er metinn þarf að miða við leiðréttan aldur barnsins en ekki lífaldur.

 

Foreldrar geta átt í erfiðleikum með að meta hvenær barnið þeirra hefur náð tilteknum þroska. Hvernig á til dæmis að meta málþroska barns? Ef foreldrar skilja að barnið sé að nota eitthvað orð til samskipta við þau sem sé beint til þeirra, þá má segja að barnið sé búið að segja fyrsta orðið. Það skiptir engu máli hvert orðið er og þó enginn skilji barnið nema foreldar þess (1). Fyrirburar geta haft seinkaðan málþroska, en ef skilningur barnsins er góður þá ættu foreldrar ekki að þurfa að hafa áhyggjur þó barnið sé seint til að tala (2).

 

Ef áhyggjur vakna um frávik eða seinkun á þroska barnsins ættu foreldrar að ræða það í skoðun í ung- og smábarnaverndinni eða við lækni (1).

 

Heimildir:

  1. Allen, M. C., Donohue, P. A. og Porter, M. J. (2006). Follow-up of the neonatal intensive care unit infant. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls.953-970). St. Louis: Mosby Elsevier.
  2. Anna Björg Aradóttir, Sesselja Guðmundsdóttir og Geir Gunnlaugsson (Ritstj.). (2009). Ung- og smábarnavernd. Leiðbeiningar um heilsuvernd barna. (Rafræn útgáfa). Reykjavík: Landlæknisembættið. Sótt 13. ágúst 2009 af http://landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4138

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.