Unglings og fullorðinsár

Í bandarískri rannsókn þar sem fylgst var með börnum sem fædd voru undir 1500 g yfir 20 ára tímabil og þau borin saman við samanburðarhóp barna sem fædd voru eftir fulla meðgöngu kom í ljós að fyrirburarnir voru enn við 20 ára aldur að meðaltali lægri og léttari en jafnaldrar þeirra. Munur var á þyngd stúlknanna en ekki var marktækur munur á hæð og líkamsþyngdarstuðli (e. Body Mass Index – BMI). Hjá strákum var munur í meðalþyngd, hæð og BMI stuðli (1). Þeir fyrirburar sem fæddust of léttir miðað við meðgöngulengd mældust að meðaltali léttari en þeir fyrirburar sem fæddir voru með eðlilega fæðingarþyngd. Einnig hefur stærð móður áhrif og voru mæður fyrirburanna að meðaltali lægri en mæður í samanburðarhópum (2,1).

Í rannsókn Hack o.fl. (3) á líðan fyrirbura við 20 ára aldur var rætt við unga fólkið og foreldra þeirra og við samanburðahópa sem skipaðir voru ungu fólki sem fætt var eftir fulla meðgöngu og foreldra þeirra. Þar kom fram að ungir menn sem fæddir voru fyrir tímann töldu sig síður eiga við fráviks/afbrotahegðun að stríða. Foreldrar ungra manna sem fæddir voru fyrir tímann töldu syni sína frekar eiga við hugræn/andleg vandamál (e. thought problems) en foreldrar fullburða ungra manna. Hlutfallslega fleiri ungar konur sem fæddar voru fyrir tímann sögðust vera hlédrægar eða óframfærnar og töldu sig síður sýna fráviks- og afbrotahegðun en fullburða samanburðarhópur. Foreldrar ungra kvenna sem fæddar voru fyrir tímann töldu þær frekar eiga við kvíða, depurð eða vandræði varðandi athygli en foreldrar fullburða ungra kvenna (3). Fyrirburarnir (<1500 g) greindu frá minni áfengisnotkun og vímuefnanotkun, fráviks- og afbrotahegðun en jafnaldrar og var minna um þunganir meðal unglingstúlkna í fyrirburahópnum en samanburðarhóp. Þessi munur hélst einnig eftir að unglingar með frávik voru greindir frá í fyrirburahópnum (4). Fyrirburar (<1500 g) luku að meðaltali styttri skólagöngu en jafnaldrar þeirra og höfðu að jafnaði slakari meðal námsárángur en þeir (4).

Rannsóknir hafa sýnt að samvera og gott samband foreldra og barna er besta forvörnin gegn áfengis og vímuefnanotkun og frávikshegðun (5). Íþróttir og æskulýðsstörf hafa forvarnargildi og geta foreldrar stutt börnin í því starfi. Vinahópurinn er áhrifamikill en foreldrar geta haft bein og óbein áhrif á vinaval barna sinna. Íslenska módelið í forvörnum byggist á því að efla eigi ungmenni, styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf og stuðla að samveru foreldra og barna (6)

Rannsókn á afdrifum lítilla fyrirbura (<1000 g) á fullorðinsárum sýndi að fyrirburarnir komust yfir þau vandræði sem þau áttu í æsku og stóðu sig vel í lífinu sem ungt fólk við 23 ára aldur og voru niðurstöður þeirra ekki ólíkar fullburða jafnöldrum (7). Í einni rannsókn kom í ljós að þó léttburar (<2500 g) hefðu sýnt lakari árangur í skóla þá hafði það ekki félagsleg og tilfinningaleg áhrif til fullorðinsára. Við skoðun á persónuhögum við 26 ára aldur sýndu fyrrum léttburarnir sömu niðurstöður og samanburðaraðilar, hvað varðar menntun, starfsframa og hamingjusamt einkalíf (8).

Í flestum þessara rannsókna er miðað við fæðingarþyngd. Börnin í þessum langtíma rannsóknum sem í dag eru orðin fullorðið fólk var fætt með lága fæðingarþyngd en eftir lengri meðgöngulengd en litlu fyrirburarnir í dag. Það gæti haft áhrif á framtíðarhorfur litlu fyrirburanna sem eru að fæðast í dag hvað þeir eru fæddir mikið fyrir tímann. Á sama tíma hafa þó orðið miklar framfarir í meðferð fyrirbura og framtíðarhorfum. Foreldrar ættu því að geta leyft sér að vera bjartsýnir á framtíð barna sinna (7).

Hér er frekari fróðleikur:

Disabilities and health of extremely low-birthweight teenagers: a population-based study
Ingibjörg Georgsdóttir, Gígja Erlingsdóttir, Birgir Hrafnkelsson, Ásgeir Haraldsson og Atli Dagbjartsson. 2012, Acta Peadiatrica, Vol. 101, issu 5, bls. 518-523.

 

Litlir fyrirburar – lífsgæði á unglisárum Glærukynning á meistaraverkefni
Hólmdís Freyja Methúsalemsdóttir, 2012.

 

Skynúrvinnsla unglinga sem fæddir voru litlir fyrirburar. PDF skjal
Gunnhildur Jakobsdóttir, Halla Rós Arnardóttir og Sigurbjörg Harðardóttir (2011).  BS verkefni, Háskólinn á Akureyri, Heibrigðisvísindasvið.

Heimildir:
  1. Hack, M., Schluchter, M., Cartar, L., Rahman, M., Cuttler, L. og Borawski, E. (2003). Growth of very low birth weight infants to age 20 years. Pediatrics 112, 30-39.
  2. Darendeliler, F., Çoban, A., Baş, F., Bundak, R., Dişçi, R., Şükür, M. ofl. (2008). Catch-up growth in appropriate- or small-for-gestational age preterm infants. The Turkish Journal of Pediatrics, 50, 207-213.
  3. Hack, M., Youngstrom, E. A., Cartar, L, Schluchter, M., Taylor, H. G., Flannery, D., Klein, N. og Borawski, E. (2004). Behavioral outcomes and evidence of psychopathology among very low birth weight infants at age 20 years. Pediatrics, 114, 932-940.
  4. Hack, M., Flannery, D. J., Schluchter, M., Cartar, L., Borawski, E. og Klein, N. (2002). Outcomes in young adulthood for very-low-birth-weight infants. The New England Journal of Medicine, 346, 149-157.
  5. Álfgeir Logi Kristjánsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, John P. Allegrante og Ásgeir R. Helgason. (2008). Social correlates of cigarette smoking among Icelandic adolescents: a population-based cross-section study. BMC Public Health 8:86.
  6. Inga Dóra Sigfúsdóttir, Þórólfur Þórlindsson, Álfgeir Logi Kristjánson, Kathleen M. Roe og John P. Allegrante. (2008). Substance use prevention for adolscents: the Icelandic model. Health Promotion International, 24, 16-25.
  7. Saigal, S., Stoskopf, B., Steiner, D., Boyle, M., Pinelli, J., Paneth, N. og Goddeeris, J. (2006). Transition of extremely low-birth-weight infants from adolescence to young adulthood, comparision with normal birth-weight controls. Journal of American Medical Association (JAMA), 295, 667-675.
  8. Strauss, R. S. (2000). Adult functional outcome of those born small for gestational age: twenty-six-year follow-up of the 1970 British birth cohort. Journal of American Medical Association (JAMA), 283, 625-632.