Skólaaldur

Sem hópur skora fyrirburar að meðaltali lægra á prófum sem mæla vitsmunaþroska en fullburða börn, en virðast geta bæta sig með tímanum og náð þessum þroska upp. Í rannsókn á vitsmunaþroska fyrirbura fædda með mjög lága fæðingarþyngd (<1500 g ) þar sem próf voru lögð fyrir börnin við 3-8 ára aldur kom í ljós að niðurstöður fyrirburanna bötnuðu með tímanum. Helmingur barna sem við 3 ára aldur greindist með greindarskerðingu voru við 8 ára búin að færast upp og greindust á jaðrinum. Meðal þeirra barna sem greindust á jaðrinum við 3 ára aldur greindust um 66% með eðlilega greind við 8 ára aldur (1).

Fyrirburar eru líklegri en fullburða börn til að eiga við einhverja námsörðugleika að stríða í skóla (2) og eru líkurnar hærri eftir því sem börnin eru styttra meðgengin og léttari við fæðingu (3). Fyrirburarnir eiga frekar í erfileikum með málskilning, lestur, fínhreyfingar, samhæfingu og við stærðfræði. Auk þess sem þeir eru líklegri til að eiga í erfiðleikum með hegðun og athygli og þurfa á sérúrræðum að halda (4,5,6,7). Reikna má með að allt að 50% barna með fæðingarþyngd undir 1500 g eigi við einhverja námsörðugleika að stríða og allt að 60-70% barna með fæðingarþyngd undir 1000 g (8). Allt að þriðjungur barna sem fædd voru eftir 32-35 vikna meðgöngu voru með einhverja námsörðuleika við 7 ára aldur (7). Þeir fyrirburar sem eru fæddir snemma á árinu hafa ákveðið forskot á þá fyrirbura sem eru fæddir seint á árinu því þeir eru auk þess að vera fyrirburar yngri en meirihluti bekkjafélaganna. Sumir fyrirburar fæðast jafnvel fyrir áramót þegar áætlaður fæðingardagur þeirra hefði átt að vera á næsta ári (9). Það er því mikilvægt að skilja þessa sérstöðu barnanna og ef þörf er á, að láta skólann vita að barnið sé fætt fyrir tímann.

Áhættan á námsörðugleikum er til staðar, en með því að styðja börnin er hægt að draga úr líkunum. Menntaðir foreldrar eru taldir líklegri til að styðja börnin sín námslega og hefur verið sýnt fram á að fyrirburar sem áttu vel menntaða foreldra voru mun líklegri til að ganga vel í skóla (10). Foreldrar geta hjálpað börnunum sínum með því að sýna námi þeirra og þroska áhuga og aðstoða þau eftir bestu getu og leita eftir stuðningi fyrir þau þurfi þau hann. Á vefsíðunni UmMig.is eru ráðleggingar hvernig foreldrar geta stutt börn sín í námi.

Heimildir:
  1. Ment, L. R., Vohr, B., Allan, W., Katz, K. H., Scheider, K. C., Westerveld, M., Duncan, C. C., Makuch, R. W. (2003). Change in cognitive function over time in very low-birth-weight infants. Journal of American Medical Association (JAMA), 289, 705-711.
  2. Saigal, S., Ouden, L. d., Wolke, D., Hoult, L., Paneth, N., Streiner, D. L., Whitaker, A. og Pinto-Martin, J. (2003). School-age outcomes in children who were extremely low birth weight from four international population-based cohorts. Pediatrics, 112, 943-950.
  3. Neubauer, A-P., Voss, W. og Kattner, E. (2008). Outcome of extremely low birth weight survivors at school age: the influence of perinatal parameters on neurodevelopment. European Journal of Pediatrics, 167, 87-95.
  4. Allen, M. C., Donohue, P. A. og Porter, M. J. (2006). Follow-up of the neonatal intensive care unit infant. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls.953-970). St. Louis: Mosby Elsevier.
  5. Anderson, P. J., Doyle, L. W. og The Victorian Infant Collaborative Study Group (2003). Neurobehavioral outcomes of school-age children born with extremely low birth weight or very preterm in the 1990s. Journal of the American Medical Association (JAMA), 289, 3264-3272.
  6. Anderson, P. J., Doyle, L. W. og The Victorian Infant Collaborative Study Group (2004). Execute functioning in school-aged children who were born very preterm or with extremely low birth weight in the 1990s. Pediatrics, 114, 50-57.
  7. Huddy, C. L. J., Johnson, A. og Hope, P. L. (2001). Educational and behavioural problems in babies of 32-35 weeks gestation. Archives of Disease in Childhood – Fetal and Neonatal Edition, 83, F23-28.
  8. Aylward, G. P. (2002). Cognitive and neuropsychological outcomes: more than IQ scores. Mental Retardation and Developmental Disabilities Research Review, 8, 234-240.
  9. Kitchen, W. H., Ryan, M. M. Rickards, A. L. og Doyle, L. W. (1989). Fyrirburar: foreldrahandbók (Sigríður Sigurðardóttir þýddi). Reykjavík: Mál og menning (Upphaflega gefið út 1985).
  10. Lin, M., Liu, J., og Chou, S. (2007). As low birth weight babies grow, can well educated parents buffer this adverse factor? A research note. Demography, 44, 225-343.