Tvíburasystur

Fyrirburar

Ég átti tvíburastelpur 26. sept. 2007, gengin 35 vikur + 2 daga. Fæddar rétt um tvö kíló eða átta mörk hvor stelpa og ca. 44 og 45 cm.

Klukkan fimm að morgni 25. sept. fer vatnið hjá tvíbura a og þá förum við uppá spítala. Mér leið ágætlega en var orðin mjög þreytt af svefnleysi í nokkrar vikur fyrir fæðingu.

Við förum inn á fæðingastofu og höldum auðvitað að allt sé að fara af stað en ekkert gerist og einhvern tímann eftir hádegi 25. sept. erum við send á meðgöngudeild til að bíða. Seint um kvöldið 25. sept. er ég komin með mikla verki, þó ekki fæðingahríðir. Við förum aftur upp á fæðingastofu og læknir setur upp drip og mænudeyfingu.

Stuttu eftir miðnætti fæðist svo tvíburi a eftir frekar stuttan rembing. Þegar a er fædd fær b svo mikið pláss að hún nær að vefja naflastrengnum utan um sig miðja og situr föst. Læknirinn togar mikið í fæturna á henni og á endanum slitnar naflastrengurinn inni í mér og þá skiptir engum togum að læknirinn fer með báðar hendur inn í mig og nær á endanum að skófla barninu út í bókstaflegri merkingu.

Þegar þarna er komið er ég alveg búinn á því og í miklu uppnámi þegar ég horfi á aðstoðarlæknana lífga barnið við. Lengstu þrjár mínútur sem ég nokkurn tíma upplifað.

Þegar börnin eru fædd fæ ég sama og ekkert að sjá þær því ég á eftir að fæða fylgjuna og þær þurftu að komast á vökudeild. Mér er keyrt inn á skurðstofu og læknar undirbúa sig undir að þurfa að sækja hana með aðgerð. Í þessu kemur ljósmóðirin og leggur hendurnar létt á magann og fyrir einhverja guðs lukku kemur fylgjan af sjálfu sér. Ég er hins vegar svo illa farin eftir fæðinguna að læknar þurftu að svæfa mig til að geta saumað.

Að morgni 26. sept. vakna ég svo á gjörgæslu og veit ekkert um börnin eða af hverju ég gat ekki hreyft fæturna. Ég fékk þó fljótt mátt í fæturna og er trillað upp á fæðingardeild fyrir hádegi. Þá bið ég um að fá að fara og sjá börnin sem voru auðvitað í góðri gæslu á vökudeildinni. Hjúkrunarfræðingurinn sem er á vakt og talar við mig segir hins vegar að ég geti ekki farið á vökuna til að sjá börnin fyrr en einhvern tíma eftir tvö, hafði ekkert séð þær síðan um nóttina. Þarna brotna ég algjörlega saman og skil engan veginn þessa ákvörðun. Seinna um daginn fer ég svo á vökuna og sé börnin í fyrsta sinn, rúmum tólf tímum eftir fæðingu.

Dvölin á vökudeild stóð í átta daga og fengum við frábæra þjónustu í alla staði. Ég get því miður ekki talað jafn vel um fæðingadeildina þar sem ég mætti litlum skilningi og hjúkrunarfólk virðist ekki í öllum tilfellum hafa kynnt sér mitt mál áður en það mætti inn til mín. Ég var langt niðri andlega og það sem varð mér til lífs var að ljósmóðirin mín, Bjarney Hrafnberg kom daglega til að ræða við mig í þessa viku sem við vorum á spítalanum.

Ég þarf auðvitað ekki að segja foreldrum sem eiga fyrirbura hvernig manni getur liðið með Þetta allt saman, fyrst um sinn drakk tvíburi b ekki og ég þurfti að hella upp í hana til að koma einhverju ofan í hana. Ég gat lítið sem ekkert haft þær á brjósti og finnst mér áróðurinn fyrir brjóstagjöf jaðra við ofsóknir á fæðingadeildinni.

Dætur okkar eru alveg einstakar eins og öll börn auðvitað, þær dafna vel orðnar sjö ára og eru frískar og flottar þrátt fyrir litla sem enga brjóstamjólk.

Kær kveðja

Margrét