Ég byrjaði að fá verkjalausa samdrætti einhverntíma um 16 vikur. Ég vissi ekki alveg hvað samdrættir voru, þetta voru fyrstu börnin okkar, en hafði lesið mér töluvert til um tvíburameðgöngur og hættu á fyrirburafæðingu sem fylgir því. Ég var mjög stressuð yfir þessu, stundum þegar ég lá uppi í rúmi á kvöldin komu samdrættirnir í röðum, hver á eftir öðrum, og ég var svo svo svo hrædd. Þegar þetta var var ég bara komin 20 vikur eða svo. Ég var í skóla á daginn og í mjög erfiðri vinnu líkamlega, var í 25% starfi á kvöldvöktum (1 dagur í viku annar hver fös-sun). Þurfti að lyfta 10 kílóa dunkum og bökkum, ganga um og standa í 4 klukkutíma. Ég bað í mæðraskoðun um að fá vottorð til að geta hætt í vinnunni en hún (læknirinn) vildi ekki gefa mér það, sagði að konur ynnu alveg fram á 28 viku með tvíbura svo ég druslaðist í vinnuna, með verki um allan skrokk. Ég talaði við yfirmann minn sem vildi að ég segði upp fyrst ég gæti ekki unnið, og ég ákvað að gera það. Allan tíman fannst mér ég vera algjör aumingi og reyndi ekki að halda vinnunni vegna þess.
Mér fór að líða betur eftir að ég hætti að vinna, ég var betri í bakinu og grindinni en samdrættirnir héldu áfram að koma svona í röðum á kvöldin stundum. Aldrei með verkjum. Ég nefndi þetta í hverri mæðraskoðun og alltaf var mér sagt að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur ef þær væru verkjalausir og að ég mundi alveg vita það ef ég færi af stað, ég mundi ekki geta sofið fyrir verkjum og það færi sko ekkert fram hjá mér. Mér leið aðeins betur með það. Eitthvað eftir 24 vikur hætti ég að fá svona mikið af samdráttum. Þeir komu vissulega en ekki í röðum eins og ég lísti ofar. Ég hætti að kvarta undan þeim og bara miklu betur með að vera komin yfir 24 vikurnar en þá eru krílin víst talin lífvænleg.
Svo fór ég í mína vikulegu mæðraskoðun einn fimmtudaginn, gengin 31v1d. Ljósan og neminn hömuðust á kúlunni við að mæla legbotninn mér leið af því eins og mér leið í hverri skoðun, var að drepast af því að liggja á bakinu og fékk verki undir rifbeinin í kúluna. Svo var hjartslátturinn hlustaður og þeim þótti hann heldur hraður hjá tvíbura B, ég var því send inn á dagönn í mónitor. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór í mónitor og mér fannst það frekar óþægilegt, vont að sitja svona hálfupprétt með börnin í rifbeinunum og drasl á kúlunni. Ég sat í ritinu í örugglega 30-40 min. Svo var það tekið niður og ég send inn í biðherbergi með lazyboy stólum, þær ætluðu að skoða ritið eitthvað nánar og tala svo við mig.
Eftir 2 klukkutíma eða eitthvað var ég orðin pirruð og vildi fara að komast heim, nennti ekki að lesa bókina sem ég var með og búin að lesa öll blöðin sem voru þarna. Loksins loksins var ég sótt og sagt að fara inn í skoðunarherbergið. Þeim þótti eitthvað óþarflega mikið af samdráttum á ritinu og vildu athuga útvíkkunina. Það var sami leiðindalæknirinn sem gerði það og sagði mér að halda áfram að vinna. Ég lagðist með lappirnar upp í loft á bekkinn og hún athugaði útvíkkunina. Henni brá greinilega, sagði: hér er ekki allt eins og það á að vera! Ég sagði bara: ertu ekki að grínast? Svo hljóp hún fram á gang og kallaði: Guðrún! Ljósan mín kom hlaupandi en ég man ekkert eftir þessari Guðrúnu. Leghálsinn var styttur og mýktur og kominn 1 í útvíkkun. Læknirinn sagði að nú yrði ég í rúmlegu næstu mánuðina ef þeim tækist að stoppa mig og að nú ætti ég að setja mitt líf á hold – með „skammastu þín“ í röddinni.
Ég sagði við ljósuna mína: ég sagði þér að ég væri með samdrætti! Og svo rúlluðu hún og einhver önnur kona mér upp á fæðingargang í sjúkrarúmi. Ég var keyrð inn á stofu 7, einangrunarstofuna – þar sem engin önnur stofa var laus, ekki af því að það átti að einangra mig. Þar var sjónvarp og ég sá bara í himininn. Svo kom ljósa og sprautaði mig með sterum fyrir lungun á strákunum í rassinn, sýklalyf ef það skildi vera sýking að setja mig af stað og tractocil drip til að stoppa. Ég þurfti að biðja um síma til að geta hringt í Einar þar sem ég hafði gleymt mínum.Ég fékk lánaðann síma og hringdi í Einar, sagði honum að ég væri komin með útvíkkun, búið að leggja mig inn og hér ætti ég að vera. Einar spurði bara eins og ég, ertu að grínast? Ég fór reglulega í mónitor og samdrættirnir minnkuðu ekki eins og þær hefðu viljað.
Einar var hjá mér, hann horfði á sjónvarpið og ég upp í loft. Þetta var allt að síast inn ennþá, ég var loksins búin að stimpla það í mig að ég mundi kannski ganga 36-37 vikur. Við sváfum bæði á stofu 7 á fæðingarganginum þessa nótt. Morguninn eftir fór Einar heim til að fá sér eitthvað að borða og ég hélt áfram að horfa upp í loft. Svo komu einhverjir læknar inn (sem betur fer ekki leiðindakonan) og ég útvíkkunin var athuguð aftur. Þá brá lækninum aftur, hún var komin upp í 3-4. Þessi börn koma í dag, sagði hún og ég þurfti aftur að hringja í Einar og biðja hann að flýta sér niður á spítala. Þarna var ákveðið að taka niður drippið og mér að fæða. Næst þegar útvíkkunin var athuguð var hún orðin 5-6. Þarna var ég komin með æðislega ljósu sem mig langar að senda blóm. Nú var ég alltaf í mónitor og með samdrætti á 5 min fresti. Ég var keyrð inn á fæðingarstofu 1 og næst þegar útvíkkunin var athuguð var hún 8 og samdrættir á 3-4 min fresti. Ljósugullið ákvað að leyfa mér að fá smá hvíld frá mónitornum enda var ég búin að vera í honum í nokkrar klst. Kannski klukkutíma seinna voru samdrættirnir alveg dottnir niður, þeir voru orðnir óreglulegri og á 15 min fresti og stundum sjaldnar.
Við sváfum á fæðingarstofunni þessa nótt, ég svaf á meðan ég var í mónitor og mældist lítið af samdráttum. Daginn eftir var ég aftur keyrð inn á stofu 7, það voru engir samdrættir. Einar svaf heima þá nótt og ég skældi þegar ég kvaddi hann. Á fæðingarganginum lá ég samtals í 4 daga og heyrði börn fæðast í hinum stofunum, mér finnst það ótrúleg upplifun og forréttindi að hafa „fengið“ það.
Ég vil taka það fram og undirstrika, yfirstrika og gera mjög áberandi að aldrei fann ég verki með samdráttunum. Ég svaf á meðan útvíkkunin fór frá 1 upp í 3-4 og hefði alveg eins getað verið niðri á Laugavegi að borða ís, mér leið bara vel og fann ekki fyrir verkjum til að tala um. Ef þær hefðu ekki sett mig í monitor hefði ég bara farið heim og svo í skólann seinnipartinn. Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég hefði stoppað ef að ég hefði farið heim og hvað hefði gerst. Ég held að ég hefði ekkert verið að hringja upp á deild, mér hefði ekki liðið nógu illa af samdráttunum. Hefðu þeir þá fæðst á stofugólfinu? Geta börn sem fæðast eftir 31v andað sjálf? Hefðu þeir getað það? Ég veit þetta ekki. Kannski er ég fulldramatísk, ég veit það ekki heldur. Mér finnst þetta bara svo erfið minning. Ekki af því að ég fór af stað fyrir tíma, það var ég búin að búa mig undir og bjóst í rauninni alltaf við að gerðist. Það var aldrei hlustað á mig eða tekið mark á því sem ég sagði. Þessi 1 í útvíkkun gæti hafa verið löngu kominn. Mér líður ennþá í dag, hálfu ári eftir þetta, illa yfir þessu.
En áfram með söguna. Ég var flutt niður á meðgöngudeildina 4 dögum eftir að ég var lögð inn. Fékk þar stórt herbergi með flatskjá, klósetti og sturtu og gluggum svo að ég sá tré og himinn og bíla. Sá þar glænýju börnin og fannst þau yndisleg. Næsta föstudag fór ég svo í vaxtasónar sem ég átti pantaðann, var keyrð af meðgöngudeildinni í hjólastól. Þar kom inn læknir sem ég hafði hitt stutt uppi á fæðingarganginum. Hún spurði hvernig mér liði og ég sagði, bara vel, mig langar helst að fara hiem.
Það fékk ég svo! Útvíkkunin var athuguð af leiðindalækninum og hún komin niður í 2-3cm. Ég fékk að fara heim 8 dögum eftir að ég var lögð inn. Heima var ég í tvær yndislegar vikur, kúrði uppi í rúmi og lagði mig seinnipartinn. Ég fór reglulega upp á dagönn í mónitor og blóðþrýstingsmælingar, blóðþrýstingurinn fór alltaf hækkandi.
2 vikum seinna á föstudegi, 33v1d var ég lögð inn aftur. Ég var greind með meðgöngueitrun og fékk að vita að ef ég væri ekki af stað sjálf yrði ég gangsett fljótlega. Ég hringdi eina ferðina enn í Einar og lét hann vita og bað hann að koma svo með töskuna með dótinu mínu, hún var tilbúin því ég bjóst alltaf við því að mega ekki fara heim af spítalanum aftur. Leiðindalæknirinn athugaði svo útvíkkunina hjá mér sem var 5-6 þó að ég væri ekki með neina samdrætti og ekkert. Hún var bjartsýn á að ég færi sjálf af stað fljótlega og bauð mér svo góða helgi. Ég fékk svo eftir 2-3 daga að fara í svítuna, litlu kósí stofuna inni í horni með ísskáp. Ég prjónaði, horfði á sjónvarp og hékk í fartölvunni minni og reyndi að láta tímann líða. Svo loksins fékk ég dagsetningu í gangsetingu, 17. maí, þá yrði ég 35v4d. Ég tók því samt mátulega alvarlega, treysti því ekki að ég yrði gangsett þá og beið bara róleg eftir 17. maí.
Kvöldið fyrir 17. maí sat ég og hlustaði á konu í fæðingu öskra í 45 min fyrir ofan mig og hugsaði: ætli ég öskri svona á morgun? Svo morguninn eftir, um klukkan 9, kom ljósa inn og sagði að ég mætti bara pakka saman og fara að fara upp á fæðingargang. Ég var pínulítið hissa en ánægð að þessi rússíbani væri loksins búinn. Hringdi og vakti Einar greyið sem bjóst heldur ekki við því að það yrði neitt gert, fór svo í sturtu og borðaði eina ristaða brauðsneið með smjöri. Hann kom svo og hjálpaði mér að pakka saman og við fórum svo upp á fæðingargang með allt dótið í fylgd ljósu.
Fyrst var tekin blóðprufa til að athuga hvort ég mætti fá mænudeyfingu og ég sett í monitor. Engir samdrættir mældust þar til að tala um og hjartslátturinn hjá gæjunum okkar var fínn. Útvíkkunin var mæld og ljósan hélt fyrst að ég væri með fulla útvíkkun en svo skoðaði leiðindalæknirnn mig og sagði að ég væri með svona 8 í útvíkkun. Ég var búin að ákveða að fá mænudeyfinguna vegna þess að tvíburafæðingar geta víst oftar endað í bráðakeisara og líka af því að stundum getur þurft að ná í seinni tvíburan með handafli og mig langaði ekki að finna neitt fyrir því.
Ég vildi bíða með mænudeyfinguna þangað til ég væri komin með verki en leiðindalæknirinn pressaði mig í að fá hana áður en ég væri gangsett, þá er auðveldara að sitja kyrr og það allt. Mér fannst það frekar óhuggulegt en það var samt alls ekki vont eins og ég hafði svo oft heyrt. Svo var deyfingin látin virka og síðan, klukkan 12, var belgurinn sprengdur. Það koma þetta líka skrítna hljóð þegar belgurinn var sprengdur og svo lak frá mér vatn í stórum gusum og ég gerði bara grín að því. Þetta setti samt enga samdrætti af stað svo að það var sett upp drip. Dagurinn leið ofsalega hratt og með litlum verkjum og klukkan varð 4 og komið að vaktaskiptum. Ég var eiginlega ánægð að hafa náð að bíða svo lengi af því að mér líkaði ekkert of vel við lækninn sem hefði þá verið viðstödd. Eins var ég búin að biðja ljósuna að passa að það yrði ekki óþarfa fólk og helst enga karla, þar sem að við tvíburafæðingar er alltaf barnalæknir, fæðingarlæknir, ljósmóðir og sérfræðingur og mér fannst það feikinóg. En leiðindalæknirinn var með nema sem átti sko víst að fá að sjá, kom inn og sagði með „skammastu þín“ tóninum að neminn yrði að fá að vera viðstaddur. Hann var hins vegar líka farin af vakt þannig að hvorugt þeirra var, sem ég er mjög ánægð með.
Við vaktaskiptin kom ný ljósa sem var frábær, Halla Ósk – og þá fór allt að gerast. Hún hækkaði í drippinu, skoðaði mig, og sagðist finna koll og bað mig að prófa að rembast með næsta samdrætti. Mér þótti hálfasnalegt að rembast án þess að þurfa það en ég prófaði það og fannst það gera voða lítið, ég hef sennilega ekki rembst af neinum krafti. Hún hélt áfram að fá mig til að rembast með samdráttunum og hækka í drippinu og eftir einhvern tíma fór ég sjálf að þurfa að rembast með.
Ég remdist í 2 klukkutíma, og ekkert gekk, þær hótuðu að klippa og nota sogklukku og ég hugsaði bara: fínt! Mér var farið að finnast þetta frekar vont og orðin mjög þreytt þarna. Sérstaklega fékk ég sting í hægri mjöðmina þegar ég rembdist þar sem deyfingin lá aðeins til vinstri. Ég var komin í þessi asnalegu ístöð og var alveg sama Svo fór loksins að sjá í kollinn á A og hann var með svepp á höfðinu sem er víst sérstakt höfuðlag, bjúgmyndun af því að hann hafði verið skorðaður svo lengi og að auki var hann í framhöfuðstöðu og reigði höfuðið eitthvað asnalega.
Á einhverjum tímapunkti fékk ég súrefnisgrímu af því að það var farið að hægja á hjartslættinum hjá A í samdrætti eða eftir, ég man ekki hvort. Einar hjálpaði mér að anda í hana á undir lokin, ég var orðin svo þreytt að ég ég hafði enga orku í að lyfta grímunni. Ljósan var svo yndisleg að bíða með að kalla á stóðið af læknum þangað til A var svo gott sem fæddur.
Svo kom hann loksins klukkan 17:57 og einhver af þessum læknum hélt við kúluna á meðan til að stýra B ofan í fæðingarveginn. Ég er eiginlega alveg viss um að ég sagði með grátstafina í kverkunum að ég ætti eftir að fæða annað. A grét ekki fyrst og fór beint til barnalæknisins sem ég held að hafi sogað upp úr honum og gert eitthvað fleira. 7 min seinna var B fæddur og mér fannst það nú bara pís of keik Ég fékk hann beint upp á magann og hann var svo hlýr og lítill og yndislegur Ekkert löngu seinna fékk ég A í fangið líka og þeir kúrðu báðir hjá mér allsberir og yndislegir.
Eftir þetta havarí var ég svo saumuð og ég vil geta þess að ég varð ekkert vör við að hafa rifnað. Ég held að ég hafi misst frekar mikið blóð, ég var alveg hvít í framan kvöldið eftir fæðinguna og gat ekki staðið upp fyrr en svona 6 tímum eftir hana.
Við fengum svo loksins loksins að fara heim, 8 dögum eftir fæðinguna. Guttarnir sluppu báðir við guluna og voru farnir að þyngjast.