Sebastian Aron (27 vikur)

Fyrirburar

Sebastian Aron

Hér er svo fæðingarsagan hans Sebastian Aaron.

Ég hafði ekki hugmynd um að ég væri ófrísk þegar ég leitaði á læknavaktina 11. júní 2001. Læknirinn sendi mig niður á kvennadeild þar sem ég var með óstjórnlegar blæðingar. Sá læknir sagði mér að ég væri ólétt og eftir ómun kom í ljós að ég var gengin 16.vikur. Næstu vikur var ég að mestu leiti inni á meðgöngudeild, og þegar ég komst heim mátti ég ekkert gera sem var mjög erfitt þar sem ég var með tæplega ársgamalt barn fyrir heima. Ég fékk þó nokkrar sterasprautur áður en barnið fæddist.

En drengurinn fékk nóg af meðgöngunni og skellti sér í heiminn á 27.viku, þann 3.september 2001
Hann var 1388g og 40 cm og alveg fullkominn!

Við höfum aldrei kynnst eins yndislegu starfsfólki og því sem var á vökudeildinni. Við vorum á gömlu vöku sem var auðvitað alveg hræðilega lítil og við vorum öll klesst saman eins og í sardínudós.
Drengurinn dafnaði ágætlega og þurfti aldrei að fara í öndunarvél en súrefnismettunin var mjög slæm og hann þurfti að hafa c-pap ansi lengi. Hann fór á vöku 2 (neðri hæð) í lok oktober og fékk loksins einkaherbergi 12. nóvember. Við vorum mjög fegin því þar sem við vorum búin að vera svo rosalega lengi á staðnum og ekkert hyllti undir að drengurinn væri á heimleið.

Hann mátti sjaldan drekka þar sem hann hrapaði svo mikið í mettun eftir að erfiða, því fékk hann sitt í sondu. Blóðgjöf fékk hann tvisvar sinnum og stera tvisvar. Hann sprengdi vögguna utan af sér og fannst mér alveg hræðilegt þegar hann átti að fara í rúm. Mér fannst það svo varanleg. Jólin héldum við án hans og ekki kom að heimferð fyrr en í miðjum janúar, hann sonur minn var því á vökudeild í 4 og ½ mánuð á vökudeild. Mér fannst erfitt að geta ekki sýnt systkynum mínum eða vinum barnið, en þegar hann fór á vöku 2 gat ég farið með hann að hurðinni og sýnt þeim hann í gegnum gler.

Hann fékk væga heilblæðingu og vökvasöfnun varð í höfðinu á honum og er hann með víð heilahólf líka, en þrátt fyrir þetta er hann að standa sig vel í skóla og hefur mikinn áhuga. Hann fær mikinn stuðning í skólanum sem er að koma sér vel þar sem hann er svo mótækilegur fyrir þekkingu.
Hann er með ADHD og væga þroskaskerðingu, en þetta er allt saman hlutir sem hægt er að vinna með og háir honum svosem ekki. Lungun eru ágæt í dag en voru það ekki fyrstu árin. Hann sonur minn er svo heppinn að hafa fæðst hér og fengið þessa rosalega góðu heilbrigðisþjónustu sem við höfum og við foreldrarnir urðum því ekki gjaldþrota í að borga fyrir hana.

En það sem fór mest í mig á þessu tímabili voru spurningar um framtíð barnsins þegar hann lá inni að berjast fyrir lífi sínu. Oft svaraði ég ekki símanum því ég hreinlega vildi ekkert spá í hvað ef spurningar. Ég kynntist yndislegri konu sem var með sinn fyrirbura við hliðina á okkur og við gátum rætt málin og verið nokkurskonar sáluhjálp. Við erum ennþá vinkonur í dag og erum mjög lukkulegar með litlu hetjurnar okkar.

Kveðja Jóhanna Iðunn