Óli Gunnar

Fyrirburar

Þann 8. Mars 2012 komumst við að því að við ættum von á okkar fyrsta barni. Þvílík gleði og 10. nóvember rækilega merktur á dagatalið sem áætlaður lendingardagur erfingjans. Meðgangan gekk eins og í sögu, mér varð ekki einu sinni óglatt. Það eina sem ég gat hvartað undan var mikil þreyta á fyrsta þriðjungi. Miðvikudaginn 19. september var ég komin 32 vikur og fjóra daga á leið. Dagurinn byrjaði mjög venjulega, ég fór í vinnuna, rölti í kringluna með mömmu og pabba…en ég var samt eitthvað óvenju mikið þreytt og alltaf að fá samdrætti. Var búin að vera svona undanfarna daga, eitthvað hálf ómöguleg og vaknaði stundum á nóttunni við samdrætti. Hugsaði með mér að kannski væri komið að því að minnka bara pínu vinnuna og ætlaði að ræða það í mæðraskoðun í vikunni á eftir. Um kvöldið skutlaði ég svo mömmu og pabba til Keflavíkur þar sem þau voru að fara til Spánar í tvær vikur.

Klukkan hálf 4 um nóttina vaknaði ég við það að ég fann eitthvað leka…hugsaði að það væru tveir valmöguleikar, legvatn eða blóð…hvorugt gott ! Spratt upp úr rúminu og stóð stjörf í smá stund og horfði á blóðropana leka á gólfið. Ég vakti Óskar og skipaði honum að hringja á spítalann til að spyrja hvað við ættum að gera. Óskar ákvað að vera ekkert að tala við einhverja milliliði og hringdi bara beint á sjúkrabíl. Þannig að við fórum niður á spítala með sjúkrabíl. Á leiðinni ákvað drengurinn í bumbunni að sjálfsögðu að vera algjörlega grafkyrr. Ég bað til guðs alla leiðina að barnið væri á lífi ! Þegar við komum niður á spítala fórum inn á skoðunarherbergi á sængurkvennagangi og beint í mónitor. Hjartslátturinn hjá stráknum heyrðist alveg um leið…mesti léttir lífs míns ! Þegar hjartslátturinn var kominn fór mesta stressið úr mér…fannst næstum að við gætum þá bara farið heim fyrst það væri í lagi með barnið 😉 En það var nú ekki alveg svo gott, það hélt áfram að blæða og nú voru komnir smá verkir með samdráttunum. Það kom deildarlæknir til að skoða mig, hún sá að það blæddi einhversstaðar frá leginu en gat ekki sagt meira en það. Hún vildi hafa okkur áfram á spítalanum svo það væri hægt að skoða málið betur næsta dag. Það voru öll rúm full þannig að við komum okkur vel fyrir þarna í skoðunarherberginu í tveimur lazy boy stólum og ég var áfram með mónitorinn. Læknirinn sagði líka að ég skyldi sleppa því að borða eða drekka neitt svona „just in case“.

Einhverntíman um morguninn losnaði svo rúm á deildinni svo við vorum færð þangað. Svo kom fæðingarlæknir og kíkti á okkur. Loksins var gefið grænt ljós á að ég mætti borða 🙂 Læknirinn tók ritið úr mónitornum með sér fram og ætlaði aðeins að kíkja á það. Óskar fór og náði í ristað brauð og djús handa mér. Ég var komin með brauðið í hendina og var að fara að taka fyrsta bitann þegar hjúkrunarfræðingur kom hlaupandi og nánast sló brauðið úr hendinni á mér. Þá var læknirinn búinn að skoða ritið og leist ekkert á það að hjartslátturinn hjá stráknum datt alltaf niður þegar ég fékk samdrætti. Þarna var því ákveðið að gefa mér sterasprautur fyrir lungun á barninu og afturkalla matarleyfið. Þrátt fyrir að a: meiga ekki borða og b: fá sterasprautur til að flýta fyrir lungnaþroska, þá bara hvarflaði ekki að mér annað en að við færum ólétt heim í síðasta lagi eftir helgi ! Við fórum í vaxtasónar þarna um morguninn. Þar var ekki hægt að sjá hvaðan blæðingin kom en ýmislegt kom þó í ljós. Í fyrsta lagi að ég er með hjartalaga leg og strákurinn var eiginlega fastur með hausinn uppi vinstramegin og sat svona á ská með rassinn niður. Í öðru lagi að hann var lítill miðað við meðgöngulengd en samsvaraði sér samt vel.

Kringum hádegið losnaði pláss uppi á fæðingargangi þannig að við vorum færð þangað…sem hefði mögulega átt að gefa enn eina vísbendinguna um í hvað stefndi, en nei, ég hélt áfram að vera alveg clueless. Vorum fyrst inn á fæðingarstofu með voða fínu baðkari…en engu sjónvarpi 😉 Ákveðið var að gefa mér legslakandi lyf og sjá hvort samdrættirnir myndu hætta. Þarna var ég orðin verulega þyrst, enda ekkert búin að drekka síðan kvöldið áður, þannig að ég fékk vökva í æð. Svo vorum við færð inn á annað herbergi með engu baðkari, en þar var sjónvarp 🙂 Þar vorum við megnið af deginum. Fljótlega fóru legslakandi lyfin að virka og seinnipartinn var þetta farið að líta ágætlega út. Engir samdrættir, hjartslátturinn hjá stráknum góður, hætt að blæða og ég mátti loksins borða 🙂 Fyrir nóttina vorum við svo færð inn á enn annað herbergi. Óskar kom sér fyrir í lazy boy og ég fékk loksins frí frá mónitornum. Var orðin hrikalega þreytt í bakinu á að liggja kjur með mónitorinn. Þvílík sæla að geta lagst á hliðina 🙂 Fórum að sofa mjög bjartsýn og alveg handviss um að fara fljótlega heim og halda áfram að vera ólétt í svona tvo mánuði.

Um nóttina vaknaði ég klukkan 2 við samdrætti og verki. Fór á klósettið og sá að það var aftur byrjað að blæða smá. Beið í smá stund áður en ég hringdi á ljósmóður…var alltaf að vona að þetta myndi bara hætta af sjálfu sér. En klukkan 4 sá ég að það var líklega ekki að fara að gerast. Þá var mónitornum aftur skellt á og sást að aftur var komið sama mynstur af samdráttum og hægðist á hjartsætti hjá stráknum. Það var því drifið í að gefa mér sterasprautu númer tvö um klukkan 6 um morguninn og ég fékk aftur legslakandi lyf. Fæðingarlæknir kom svo og kíkti á ritið úr mónitornum og leist ekki nógu vel á það. Hún ákvað að skoða leghálsinn til öryggis. Hún varð strax pínu skrítin og fór fram. Kom svo aftur eftir svona tvær mínútur og sagði að leghálsinn væri farinn að opnast þannig að þau ætluðu bara að drífa í að sækja barnið. Þetta kom mér svo mikið á óvart að ég skildi ekki strax hvað hún var að meina og missti út úr mér „sækja barnið hvert?“ Ég sem hélt að við værum bara aftur að fara að bíða í rólegheitum og athuga hvort lyfin virkuðu ekki var bara allt í einu á leiðinni í aðgerð. Ég yrði móðir eftir hálftíma en ekki tvo mánuði.

Þarna rauk allt í einu allt í gang. Ég hef aldrei verið jafn upp spennt á ævinni. Grét, titraði og skalf. Eins og einhverjir muna kannski frá því í byrjun sögunnar þá skutlaði ég foreldrum mínum áleiðis til Spánar…ég var ekkert búin að láta þau vita vegna þess að aulinn ég hélt ég gæti bara hringt í mömmu þegar við værum komin heim með ekkert barn og sagt henni að við hefðum þurft að kíkja aðeins niðrá spítala en þetta væri ekkert mál og allt í lagi…vildi ekki valda móður minni áhyggjum í fríinu sínu. Þannig að á leiðinni inná skurðstofu bað ég manninn minn að hringja í mömmu mína og segja henni að við værum á leiðinni í keisara. Inná skurðstofunni var fjöldi manns…þrír barnalæknar, fæðingarlæknirinn, svæfingarlæknirinn, hjúkrunarfræingar…allavega svona 10-15 manns. Ekki alveg vatnsfæðing með dempuð ljós sem ég var búin að láta mig dreyma um 😉 Það var ákveðið að það lægi ekki svo mikið á að það þyrfti að svæfa mig þannig að ég fékk mænudeyfingu. Það var nú reyndar mun minna mál en ég hefði haldið ! Ég hafði samt töluverðar áhyggjur af því að læknirinn gæti ekki deyft mig af því að ég skalf svo mikið og gat með engu móti slakað á, en svo gekk deyfingin eins og í sögu 🙂 Þegar deyfingin byrjaði að virka slaknaði loksins á mér, sem var mjög gott. Svo var bara allt í einu aðgerðin komin af stað ! Það tók innan við hálftíma frá því að keisarinn var ákveðinn og þar til strákurinn var kominn út, klukkan 07:16 þann 21.09, 7 vikum fyrir settan dag. Sem betur fer öskrað hann hátt og snjallt um leið og hann var tekinn út. Það var farið með hann beint yfir á skoðunarborð, svo fékk Óskar að halda á honum í eitt augnablik. Ég man óljóst eftir því að hann kom með strákinn upp að andlitinu á mér og ég reyndi að kyssa hann á kollinn. Svo var farið með hann beint upp á vökudeild. Ég skipaði Óskari að elta barnið ! Aðgerðin sjálf er eins og í móðu, er nokkuð viss um að ég grét allan tímann. Í aðgerðinni kom í ljós að blæðingin hafði komið frá fylgjunni.

Það var mjög skrítið þegar þetta var allt búið. Pínu svona eins og í bíómyndum þegar einhver lendir í óveðri úti á hafi og allt er brjálað en svo er allt í einu klippt yfir á næsta dag þar sem manneskjan vaknar á lygnum sjó og lítur hissa í kringum sig…ég var pínu þannig, lá í rúminu og bara starði steinhissa í kringum mig og trúði því eiginlega ekki hvað væri búið að gerast. Ég fékk að vera ein í herbergi meðan ég var að jafna mig, Óskar kom og sýndi mér mynd af yndislega drengnum okkar. Það sat hjúkrunarfræðingur hjá mér allan tímann af því að ég var með svo lágan blóðþrýsting. Svo þegar blóðþrýstingurinn var aðeins farinn að komast á rétt ról var mér trillað í rúminu upp á vökudeild til að kíkja á litla guttann. Það var ótrúlega undarleg tilfinning að sjá hann þarna í hitakassanum. Pínu lítill, samt svo fullkominn og fallegur…en samt svo fjarri lagi að mér fyndist ég eiga þetta litla barn. Mér var bara rétt að byrja að finnast það raunverulegt að það væri barn í bumbunni og svo var það bara allt í einu komið út.

Óli Gunnar fæddist á föstudagsmorgni, var 1614 gr og 43 cm. Ég reyndi að fara upp til hans eins oft og ég gat, en það var ekki auðvelt. Fyrstu skiptin fór ég upp í hjólastól og reyndi að stoppa eins og ég gat en mér var mjög illt í skurðinum og bara alveg dauð þreytt eftir þetta allt saman. Auk þess vildi ég reyna að koma mjólkurframleiðslu af stað svo ég þurfti að fara niður í herbergið mitt og pumpa mig á 3 tíma fresti. Ég fékk að halda á honum í fyrsta skipti daginn eftir að hann fæddist 🙂

Ég fór svo heim á mánudagskvöldi…og það var alveg hræðilegt. Það var eitthvað svo ótrúlega rangt að fara út af spítalanum og skilja drenginn eftir „aleinan“ í hitakassa. Ég grét alla leiðina heim og þegar við komum heim vissi ég ekkert hvað ég átti af mér að gera. Mig langaði mest að missa mig í að gráta, henda mér í gólfið og bara grenja eins og lítið barn, en ég gat það ekki af því að það var svo hrikalega vont að spenna magavöðvana, þannig að ég þurfti bara að ákveða að láta það bíða. Í staðinn reyndi ég að einbeita mér að því að gera allt sem ég gat þó gert fyrir litla manninn, mjólka mig, sjóða pelana, þvo fötin hans, gera allt klárt fyrir heimsókn til hans daginn eftir.

Drengurinn stóð sig svo eins og hetja, þurfti enga öndunaraðstoð, ekki súrefni og varð ekki gulur. Hann fékk til að byrja með lyf sem hjálpaði honum að anda reglulega, en fljótlega þurfti hann það ekki lengur. Þrátt fyrir að sýna brjóstinu strax mikinn áhuga var hann svo lítill að hann hafði ekki kraft til að drekka sjálfur og þurfti því að fá næringu í gegnum sondu. Hann var líka frekar blóðlítill fyrst og var því gefið blóð. Fljótlega varð hann kraftmeiri og gat drukkið smá af brjósti með aðstoð mexíkanahatts. Hann fékk svo ábót, fyrst í gegnum sonduna en seinna meir í pela. Það var ekki fyrr en hann var orðinn rúmlega tveggja mánaða sem hann gat drukkið nógu mikið af brjóstinu til að hætta að þurfa að fá ábót úr pela.

Dagarnir á vökudeildinni komust fljtólega í rútínu. Ég mjólkaði mig heima á kvöldin og morgnanna og fór með mjólkina í kælitösku niður á spítala. Við vorum komin til hans milli 9 og 10 á hverjum morgni. Fylgdumst spennt með þegar læknarnir komu á stofugang og vorum alltaf jafn glöð þegar þeir skoðuðu pappírana og tilkynntu að strákurinn stæði sig ljómandi vel, þyrfti bara að stækka meira. Á þriggja tíma fresti var svo gjafatími. Þá sáum við um að gefa stráknum að borða, vikta, mæla ábót, gefa honum mjólk úr sprautu í gegnum sonduna og skipta á bleyju. Tvisvar í viku voru svo baðdagar og þá fengum við að baða hann. Þetta er ekki alveg það sem maður sér fyrir sér þegar maður á von á barni. Að allt fari eftir klukkunni, að þurfa að spyrja um leyfi til að halda á barninu sínu fyrstu dagana. Í raun fannst mér bara eins og ég væri að hugsa um barn sem einhver annar ætti, það var alltaf einhver annar sem vissi betur hvað mátti og hvað mátti ekki gera með þetta barn. Ekkert svona „mamma á mig og hún veit best“. Starfsfólkið á vökudeildinni gerði samt allt sem þau gátu til að láta okkur líða vel og ég er mjög þakklát í dag fyrir hvað þau lögðu sig fram um að kenna okkur að gera hlutina frekar en að gera fyrir okkur. Svo leið bara tíminn og við fögnuðum hverju litlu skrefi. Hvert gramm sem hann þyngdist um, í hvert skipti sem hann drakk meira af brjósti eða pela heldur en síðast, þegar hann var færður úr hitakassa yfir í vöggu með hitadýnu og mátti fara í föt…það var svo gaman þegar hann mátti fara í föt, þá leið mér pínu meira eins og ég væri mamma hans. Bara það að geta klætt hann í litla sæta samfellu sem ég var búin að velja handa honum skipti svo miklu máli.

Við vorum í 3 vikur á vökudeildinni og fengum svo að fara heim. Þá var Óli Gunnar bara 2 kíló. Þökk sé góðum undirbúningi á vökudeildinni vorum við nokkuð örugg að fara með hann heim. En þó fundum við óneitanlega mikið fyrir ábyrgðinni sem fylgir því að fara heim með svona lítið barn. Við lifðum fyrst algjörlega eftir klukkunni, á þriggja tíma fresti átti drengurinn að borða. Þá þurfti að vekja hann, vikta hann, leggja hann á brjóstið, vikta hann svo aftur til að sjá hvað hann drakk mikið, mæla hvað hann átti að fá mikla ábót í pela, gefa honum pelann, skipta á honum og svo þurfti ég að mjólka mig til að eiga alltaf nóg af mjólk til að gefa honum ábót. Á þessum tíma sváfum við foreldrarnir ekki sérstaklega mikið. Þegar hann var orðinn rúmlega 3 kíló gátum við loksins byrjað að leyfa honum að borða bara þegar hann fann sjálfur fyrir svengd. Það var mikil gleði þegar við gátum skilað viktinni og mjaltavélinni J

Í dag er Óli Gunnar 6 mánaða og kátur með lífið. Hann var 6,5 kg í fimm mánaða skoðun og þroskalega fylgir hann alveg börnum sem eru fædd á sama tíma og hann hefði átt að fæðast.

Í lokin vil ég bara senda innilegar hjartans þakkir til vökudeildarinnar. Yndislegra fólk er ekki hægt að hugsa sér !

Kv. Sólveig María