Hildur Arney (29 vikur)

Fyrirburar

Í dag, 14. febrúar 2010 eru liðin 5 ár frá því að dóttir mín fæddist og að því tilefni vil ég setja inn reynslusöguna okkar – frá meðgöngunni, fæðingunni, vökudeildardvölinni og framhaldinu 🙂

Upphafið

Meðgangan gekk vel framan að, fyrir utan blæðingar sem ullu okkur miklum áhyggjum á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Þegar leið á meðgönguna fann ég fyrir mikilli þreytu og var orkulaus. Ég fékk eitt sinn aðsvif þar sem ég þurfti að fá aðstoð frá manninum mínum til að komast heim, mig svimaði, fann fyrir mikilli ógleði og sá ekkert á meðan. Ég fór í mæðraskoðun í Miðstöð mæðraverndar við Barónstíg og mældist svo lág í járni að ljósmóðirin ákveður að kalla til lækni. Fyrir tilviljun var Hildur Harðardóttir yfirlæknir kvennadeildar staðsett í húsinu og var hún kölluð til. Hún hafði engar sérstakar áhyggjur af járnleysinu en hún skoðaði mæðraskýrsluna mína vakti það athygli hennar að ég hafði farið í keiluskurð vegna frumubreytinga tveimur áðum áður og í aðgerð vegna fósturláts fyrr sama ár. Hún vildi því athuga hvernig leghálsinn minn liti út og eftir skoðun sagði hún að hún vildi til öryggis senda mig í leghálsmælingu upp á Landspítala.

Leghálsmælingin kom mjög illa út og við 23 vikur og 5 daga var leghálsinn aðeins um 1.4-1.8 sm, meðan hann ætti helst að vera 3-5 sm. Ég hafði ekki fundið fyrir neinum verkjum á meðgöngunni eða samdráttum.  Það er einmitt einkennandi fyrir leghálsbilun.

Það er rætt við okkur um alvarleika ástandsins og útskýrt fyrir okkur að það séu mjög miklar líkur á því að barnið fæðist fljótlega. Ég fékk þó að fara heim með því skilyrði að ég lægi fyrir í rúmlegu og hafi samband við deildina ef ég finni minnstu verki og komi aftur í skoðun fljótlega.

Eftir viku í rúmlegu heima er ég svo aftur sett í leghálsmælingu til að meta stöðuna og þá kemur í ljós að ástandið er orðið mjög alvarlegt og leghálsinn búinn að fullstyttast og orðinn því um 0 sm og farinn að opnast – og leghálsinn því orðinn eins og hann er í upphafi fæðingar – og því mjög miklar líkur á fæðingu fljótlega. Þetta var sérstaklega slæmt því ég var búin að liggja fyrir og vera verkja og samdráttalaus þessa viku en þrátt fyrir það hafði leghálsinn haldið áfram að styttast.

Meðgöngudeild

Við tók alvara lífsins fyrirburafæðing var yfirvofandi og ég var undir eins lögð inn á meðgöngudeildina í rúmlegu. Ég var sótt í hjólastól og sett beint upp í rúm þar sem mér voru gefnar sterasprautur til að flýta fyrir lungnaþroska barnsins og svo var bara vonað það besta. Þetta var hræðileg tilfinning. Þarna var ég komin og verið að undirbúa mig undir fæðingu barns sem átti ekki að koma í heiminn fyrr en eftir hátt í fjóra mánuði.  Fyrsta nóttin á sjúkrahúsinu var mjög erfið. Ég var í herbergi með konu sem var gengin fulla meðgöngu og var á leið í gangsetningu og mér fannst mjög erfitt að hlusta á hana og gestina hennar tala um hennar meðgöngu og væntanlegu fæðingu. Meðan ég óttaðist að vera að fara að missa barnið mitt, því ég vissi að lífslíkur þess voru ekki góðar á þessum tíma. Ég reyndi að bíta á jaxlinn og halda aftur á tárunum. Ég reyndi líka eins og ég gat að fela það fyrir starfsfólkinu hvað mér leið illa, fannst ég eitthvað svo berskjölduð þarna og vildi ekki byrja að opna mig eða gráta innan um þetta ókunnuga fólk, því ég var svo hrædd um að ég gæti ekki hætt.

Við tók svo önnur sterasprauta, fræðsla frá fyrirburasérfræðingi um lífslíkur og batahorfur barnsins og hvaða meðferð biði þess auk þess sem ég fékk að fara í hjólastólnum upp á Vökudeild að skoða deildina og tækin sem barnið mitt þyrfti að dvelja í.

Dagarnir á meðgöngudeildinni liðu svo áfram án þess að ég fengi samdrætti og verki eða legvatn færi að leka. Læknarnir voru alltaf jafn ánægðir að sjá hvað gekk vel og að ég næði að liggja þarna dag eftir dag. Starfsfólkið var yndislegt og ég var þeim mjög þakklát fyrir allt sem þau gerðu fyrir mig. Þeim fannst ég svo jákvæð og sögðust viss um það myndi fleyta mér langt. Ég var í raun bara virkilega þakklát fyrir að vera enn ólétt og geta fengið að liggja þarna með bestu mögulegu þjónustu og eftirlit.

Þegar ég var komin rúmar 27 vikur fann ég óþægilegar pílur og var í kjölfarið skoðuð (mjög varlega). Læknirinn sá í belginn sem umlykur barnið, það þýddi að hann var farinn að bunga niður leghálsinn sem skapaði aukna hættu að rof kæmi á belginn með þeim afleyðingum að vatnið færi að leka. Í framhaldinu var rúminu mínu því hallað þannig að ég lá með fætur ofar og höfuð neðar til að reyna að hægja á ferlinu.

Dagarnir liðu áfram og ég náði langþráðum áfanga að ná 28 vikna markinu sem var mikill sigur fyrir okkur öll. Það var alltaf fjarlægur draumur og þegar þeim áfanga var náð höfðu lífslikur barnsins aukist margfalt frá því ég var lögð inn og sónarmæling sem hafði mælt barnið um 750 g skömmu eftir innlögn sýndi að barnið var nú orðið um 1250 g.

Og áfram liðu dagarnir og ég náði 29 vikum, ég hafði haft það á tilfinningunni í um tvo daga að legvatnið væri að leka en prófin sem ljósmæðurnar á deildinni framkvæmdu sýndu ekki að þetta væri legvatn. Ég svaf svo frekar illa um nóttina og svitnaði og þegar ég vakna svo um morguninn finn ég að ég orðin blaut upp á bak – því ég lá auðvita með fæturnar upp og höfuð niður. Ég dingla á ljósmóður sem sá að ekkert próf þurfti til og er mér rúllað upp á fæðingardeild.

Fæðingin

Morguninn og dagurinn upp á fæðingardeild var mjög viðurburarðlítill. Ég fann enga verki og vatnið virtist bara leka í rólegheitunum. Það var ekki athuguð útvíkkun vegna sýkingarhættu og læknar sögðu að ástandið væri alveg óvist og að jafnvel gæti ég farið aftur niður og legið þar áfram í einhverja daga. Við foreldrarnir vorum því ekkert að láta neina í kringum okkur vita, enda búið að vera svo mikið í gangi undanfarin mánuð að við vildum ekki skapa óþarfa áhyggjur hjá fólkinu okkar.

Eitthvað um átta um kvöldið byrja ég að finna fyrir verkjum, tólf tímum eftir að ég vaknaði. Skömmu síðar kom fæðingarlæknirinn minn og sagði að það hefði verið gott að ég væri að fá hríðar því þau hefðu verið að ræða saman um ástand mitt og skoða gögnin mín. Hún sagði að með tilliti til sögu minnar hefðu þau helst ekki viljað taka neinar áhættur með því að láta mig liggja lengi með farið vatn. Því þá getur skapast hættuástand fyrir barnið og það fengið sýkingu og það gætti leitt til þess að framkvæma þyrfti bráðkeisara jafnvel stuttu eftir að ég færi niður en best væri fyrir barnið að fæðast núna á eðlilegan hátt af sjálfsdáðum.

Verkirnir fóru að aukast hægt og rólega en mér leið mjög vel og gat spjallað og hlegið milli verkja sem var eitthvað sem ég upplifði ekki í fyrri fæðingu og því fannst mér verkirnir ekki orðnir neitt slæmir þrátt fyrir að útvíkkun væri að ljúka. Um klukkan hálf tólf kemur ný ljósmóðir á vakt – þriðja vaktin síðan ég var flutt upp. Skömmu eftir að hún kemur fer allt að gerast og mér fer að líða virkilega illa. Ég fann rosalega sára verki í leghálsinum og þurfti fæðingarlæknirinn að nudda ör á leghálsinum frá keiluskurðinum til að hjálpa leghálsinum að opnast nægilega vel fyrir barnið að komast út. Það var virkilega vont og mér leið eins og það væri verið að stinga mig í sár. Á þessu tímabili var stofan búin að fyllast af læknum og hjúkrunarfólki. Ég man það ekki vel, en það voru þarna tvær ljósmæður, fæðingarlæknir, læknanemi, nýburalæknir frá Vökudeildinni og að mig minnir þrír starfsmenn með honum. Rétt áður en barnið fæðist finn ég rosalegan þrýstin og þarf að æla. Svo grípur fæðingalæknirinn í mig og segir mér að nú sé barnið að koma og ég rembist og litla daman kemur út – 5 mínútur yfir miðnætti og 14. febrúar nýhafinn. . valentínusardagurinn.

Hún var pínulítil og eldrauð og við heyrum hana gráta yndislegum gráti sem ég vissi að væri merki um styrk hjá henni.

Ég man að ég var alveg rosalega hrædd og átti mjög erfitt með að ná að anda eðlilega og róa mig niður. Læknarnir tóku barnið undir eins og lögðu undir hitalampa þar sem hún var ventileruð og ástand hennar metið. Það var erfitt að bíða og vita ekki hvað væri að gerast. Þegar læknarnir höfðu klárað að meta ástand hennar og hún tilbúin til að fara yfir á vökudeildina þá kom læknirinn með hana í lófum sér og leyfði okkur rétt að sjá hana og snerta í örfáar sekúndur áður en hún var sett í hitakassann og rokið af stað með hana yfir á vökudeildina.

Það var mjög erfitt að bíða inni á fæðingardeildinni eftir fréttum af henni. Ég óttaðist stöðugt að einhver kæmi inn til að segja mér að þau hefðu ekki náð að bjarga henni. En ég þorði ekki að sýna það og reyndum við maðurinn minn bæði að fela það fyrir hvort öðru hversu hrædd við vorum. Svo fáum við þær fréttir að hún hafi vegið 1505 g sem voru mjög góðar fréttir og að við mættum fara til hennar fljótlega.

Vökudeildin

Það var ógleymanleg stund að sjá hana í fyrsta sinn á Vökudeildinni. Hún var svo lítill og falleg og mér leið svo vel að sjá hana. Þrátt fyrir að hún væri pínulítil og tengd við allskonar tæki sem ég skyldi ekki og með öndunaraðstoð, þá fann ég fyrir einhverskonar ró við að sjá hana þarna. Öll hræðslan sem ég hafði haft í svo margar vikur á meðgöngudeildinni, hræðslan við að missa hana á meðgöngunni eða í fæðingunni var loksins liðin hjá og þarna var hún komin heil á húfi.

Við vorum hjá henni til að verða þrjú um nóttina þegar starfsfólk hvatti okkur til að fara nú og hvíla okkur smá eftir átök dagsins. Það var búið um okkur í herberginu mínu á meðgöngudeildinni og fékk maðurinn minn að vera þar hjá mér yfir nóttina – sem ég er ævinlega þakklát fyrir. Ég þurfti svo sannalega á honum að halda.

Litla dóttir mín var á ynnri gjörgæsludeildinni í um tvær vikur og þurfti öndunaraðstoð frá síblásturstæki (CPAP) í 6 daga. Hún var í hitakassanum fyrstu 3-4 vikurnar og fluttist þá í vöggu og loks yfir á vaxtaræktina. Henni gekk alveg rosalega vel á Vökudeildinni og gekk í raun allt jafn vel og það mögulega gat hjá okkur. Hún var með bjúg við fæðingu sem hefur eflaust bætt við hana nokkrum grömmum við fæðingarþyngdina og léttist hún nokkuð fyrstu dagana. Þegar hún var svo komin yfir á vaxtaræktina fór hún að þyngjast of hratt og var farin að safna vökva aftur. Það reyndist þó ekkert alvarlegt og hún náði að jafna sig. Hún fékk öndunarhlé (apnea) og hægslátt (bradycardia) fyrstu vikurnar eins og eðlilegt er hja börnum sem eru fædd þetta löngu fyrir tímann. Hún fór svo í öndunarhlé aftur á vaxtaræktinni og var aftur tengd við sírita í smá stund en það reyndist ekkert alvarlegt að. Brjóstagjöfin gekk mjög vel. Hún prófaði fyrst að leggjast við brjóstið aðeins viku gömul, bara til að æfa hana. Þegar hún var tæplega mánaðargömul fékk hún að prófa fyrir alvöru að drekka og fór fljótlega að drekka mjög vel.

Eftir tveggja mánaða dvöl á Vökudeildinini fengum við svo loks að fara með litlu dömuna okkar heim þann 11 apríl – þegar ég hefði átt að vera komin 37 vikur á leið með hana – þá var hún orðin 2800 g að þyngd.

Systurnar saman í sængurlegunni og á vökudeildinni

Það er ekki hægt að segja þessa sögu án þess að minnast á fæðingu litla frænda sem er risastór partur af þessu öllu. En svo ótrúlega vildi til að systir mín, sem er ári eldri en ég, átti einnig fyrirbura seinna sömu nótt og ég. Dóttir mín fæðist rétt eftir miðnætti og um tveimur klukkutímum síðar er systir mín komin inn á sjúkrahús gengin rúmar 33 vikur með fylgjulos og er sett í bráðakeisara seinna um nóttina. Litli frændi fæðist og er fluttur á Vökudeildina til frænku sinnar og við systurnar fáum að fara saman í herbergi á kvennadeildinni. Þar liggjum við systur saman sængurleguna og förum saman að heimsækja litlu börnin okkar á Vökudeildina. Amma og afi fengu því tvö barnabörn þennan valentínusardag. Frændsystkinin eru góðir vinir og þykir gaman að deila afmælisdegi 🙂

Fyrstu árin

Hún var mjög létt sem ungabarn – þó tekið væri tilliti til þess að hún væri fyrirburi og virtist þyngjast mun hægar en allir hinir fyrirburarnir í kringum okkur. Fyrsta árið var því mikið hugsað um brjóstagjöfina og næringu, en hún var á brjósti í 10 mánuði. Hún var greind með astma sem ungabarn og fékk púst fyrstu tvö árin en svo virtist hún ná sér. Hún var stundum veik sem barn, en í raun ekkert meira veik en mörg fullburða börn. Hún var örlítið sein til í hreyfiþroska, að byrja að sitja og labba, en var farin að sitja um 8 mánaða og tók fyrstu skrefin 15 mánaða og tók sér góða tvo mánuði að leggja af stað og var því orðin um 17.5 mánaða þegar hún fór að ganga. En það er algengt að fyrirburar séu seinni til að byrja að ganga og við höfðum engar áhyggjur.  Hún er fædd það mikið fyrir tímann að hún telst í aukinni áhættu með sjón og heyrn – en hafa skoðanir hjá læknum sýnt að hún virðist hafa mjög góða sjón og heyrn. Hún er núna orðin 5 ára og er hraust og heilbrigð stelpa sem fylgir jafnöldrum sínum algerlega í öllu. Hún hefur mjög góðan málþroska og vitsmunaþroska og er mjög skýr og flott stelpa, sem hefur gaman að því að syngja og leika sér úti, vill ekki klæðast kjólum og ekki bleiku. Hún kann orðið á tölvuleiki, þekkir stafi, kann að teikna mjög vel og klippa og er með mjög góðar fínhreyfingar og samhæfingu (sem er eitthvað sem ég óttaðist að hún gæti átt í erfileikum með). Hún er að æfa sund í sundskólanum sínum og kann orðið að synda mjög vel.

Næsta meðganga

Hildur Arney eignaðist litla systur örfáum dögum áður en hún varð 2 ára. Við foreldrarnir vorum frekar smeik að leggja í aðra meðgöngu, enda var ég búin að kynna mér vel alla áhættuþætti.  Það var ákveðið að setja upp leghálssaum hjá mér við 16 vikur til að loka leghálsinum sem fjarlægja átti við 37 vikur. Ég mátti ekki vinna á meðgöngunni og þurfti að taka því mjög rólega og fara eftir mörgum varúðarráðstöfunum. Ég var í áhættumeðgönguvernd á Landspítalanum og þurfti að mæta þangað í skoðanir, sýnatökur, sónar og leghálsmælingar. Meðgangan gekk öll mjög vel og ég fékk enga teljandi samdrætti eða verki alla meðgönguna. Þegar ég svo náði 37 vikum var saumurinn tekinn. Það hafði greinilega reynt vel á hann, leghálsinn var vel þynntur og opinn og saumurinn farinn það langt inn í leghálsinn að það varð að svæfa mig til að ná að fjarlægja hann. Búist var við fæðingu strax við fyrstu samdráttaverki vegna þess hve leghálsinn var stuttur og opinn. Næstu þrír dagar liðu þó tíðindalitlir og ég fékk enga teljandi samdrætti eða verki og allt hélst rólegt. Á fjórða degi fer svo fæðingin af stað á fullu, ég er heima um morguninn og sef milli samdráttaverkja og fer svo í bað áður en ég fer á sjúkrahúsið. Þegar ég kem á sjúkrahúsið er ég komin með 10 í útvíkkun. Þrátt fyrir það er ég ekki með neina sterkar fæðingahríðir og finn ekki rembingstilfinningu. Það er því allt fremur rólegt á fæðingardeildinni og þurfa konurnar að hvetja mig áfram að reyna að rembast til að koma stelpunni í heiminn. Hún fæðist svo 2 klst eftir komuna á sjúkrahúsið. Dásamleg 14 marka dama. Eftir fæðinguna nær legið á mér ekki að dragast saman og það blæðir mikið og þarf að hnoða mig að krafti. Fljótlega eftir það er farið að hafa áhyggjur af barninu og hún sögð erfiða við öndun. Það er kallaður til barnalæknir og farið með hana á Vökudeildina. Þau tala um meðgöngulengdina og þroska lungna.  Eftir að þau fara með hana fæ ég hálfgert áfall. Stóra tilbúna barnið mitt sem átti að vera allt í lagi með! Ég fer að óttast verulega um hana og þegar maðurinn minn kemur til baka frá því að tilkynna fjölskyldunni um komu hennar er ég öll skjálfandi, eflaust bæði af fæðingunni, blóðmissinum og vegna barnsins. Við fáum svo fljótlega að fara til hennar og í þetta sinn er ég föst í hjólastólnum. Hún var í hitakassa inni á Vökudeildinni. Það tóku á móti okkur nokkur kunnuleg andlit sem gott var að hitta aftur. Eftir nokkurra klukkutíma eftirlit á Vökudeildinni fáum við svo að taka hana með okkur yfir á Hreiðrið þar sem við sváfum öll þrjú saman um nóttina og daginn eftir kom hún heim til systkina sinna. Alveg hreint dásamlegt J Að vísu þurfti hún svo að leggjast inn aftur í sólahring í ljósameðferð vegna gulu og fengum við mæðgur einkastofu á sængurkvennagangi. Öndunarerfiðleikarnir við fæðingu og guluna segja læknar að sé bæði vegna þess að hún var „bara“  37 vikur. Svo það er greinilegt að hver einasta vika telur, jafnvel þetta lengi.

Kveðja Drífa Baldursdóttir og litla hetjan mín hún Hildur Arney