Fyrirburinn Andrea (29 vikur)

Fyrirburar

Í mars 2004 fengum við barnsfaðir minn að vita að von væri á okkar fyrsta barni
og yrði áætlaður fæðingardagur 1.desember. Að sjálfsögðu voru þetta mikil gleðitíðindi, ári áður höfðum við fest kaup á íbúð og vorum bæði 24 ára og því meira en tilbúin í þetta hlutverk.

Á þessum tíma vann ég á leikskóla og leið mér bara vel á meðgöngunni fyrir utan ógleðina sem kom þó alltaf bara seinnipartinn sem var mjög heppilegt því þá gat ég stundað mína vinnu.

Sumarið leið og við fórum til Ítalíu í smá frí og nutum þess að vera í sólinni. Þegar heim var komið þá vorum við að standa í íbúðarkaupum , mála, græja og gera. Föstudaginn 10.september kvaddi ég samstarfsfólkið og óskaði þeim góðrar helgar eins og um hverja aðra helgi og grunaði mig þá ekki að þetta myndi vera síðasti vinnudagur með þeim. Í kjölfarið eyddum við barnsfaðir minn fyrstu nóttinni í nýju íbúðinni.

Laugardagskvöldið átti að vera kósý og var tekin spennumynd og sofnað svo fljótlega upp úr miðnætti. Þess má geta að í 3 vikur á undan var ég búin að vera með alltaf smá leka og búin að fara 2.-3.svar upp á spítala og var meðal annars búið að segja við mig “þú ert bara með þvagleka” ég man hvað ég var hneyksluð á þessum orðum og hugsaði “ ég myndi nú vita ef ég væri að pissa í mig”

Allavega…. ég vakna svo við það um nóttina þegar ég er að snúa mér að ég finn að það er að leka og finnst það vera óvenjumikið og fer inn á bað, þá er enn meiri leki og mikið blóð. Barnsfaðir minn hringir niðrá spítala og talar við vakthafandi lækni og segir honum stöðu mála,

Þarna var ég komin 28 vikur og mikið vatn greinilega farið og mikil blæðing. Það var ótrúlegt að læknirinn dró aðeins úr því að við myndum koma….en barnsfaðir minn tók ekki annað í mál en að koma með mig niðureftir og það STRAX. Það er víst mjög erfitt að greina legvatnsleka og það var ekki fyrr en ég lá þarna á skoðunarbekknum að ég fann þetta leka og sagði lækninum frá því að þá greindist þetta loksins legvatnsleki!

Mér voru gefin “stopplyf” en þar sem ég var búin að missa nánast allt vatnið þá mátti bara stoppa mig af einu sinni. Í kjölfarið fékk ég sterasprautur til að þroska lungu barnsins.

Ég man hvað ég var í miklu sjokki þessa nótt… ég hafði framan af alltaf verið hraust …aldrei farið í aðgerðir né lagst inn á spítala og var hræddust í heimi við sprautur. Þannig mesti ótti minn þessa nótt var að leggjast inn á spítala!! Ég var náttúrulega í afneitun hvað barnið varðaði. Ég grét svo mikið að barnsfaðir minn fékk að gista hjá mér í nokkra daga en ég var algjörlega rúmföst og mátti mig hvergi hreyfa.

Ég var lögð inn á meðgöngudeildina og þar tóku yndislegar konur á móti mér sem vildu allt fyrir mig gera, get seint þakkað þessum góðu konum.

17.september “hélt” ég upp á 25 ára afmælið mitt inn á meðgöngudeild….barnsfaðir minn var svo góður að gefa mér tölvu og komst ég í samband við umheiminn og gat lesið allt sem viðkom fyrirburum. En það var ótrúlegt hvað maður vissi samasem ekkert um fyrirbura né hafði pælt einhverntímann í því. Svo þegar maður lenti í þessu þá var svo mikið af fólki í kringum okkur sem þekkti til einhvers sem hafði eignast fyrirbura eða var jafnvel fyrirburi sjálfur.

Laugardagskvöldið 18.september var mér gefið lyf til að róa legið því ég var komin með svo mikla samdráttarverki…barnsfaðir minn kom og við horfðum á mynd og ég var alveg í “essinu” mínu enda búið að dópa mig upp af allskyns lyfjum svo ég var vel góð á því  Klukkan 23.30 kvaddi barnsfaðir minn mig og hélt heim á leið, ég náði að sofa í 2 tíma en vaknaði svo upp og þurfti á klósettið…þarna var ég loksins komin með klósettleyfi!

Þegar ég kom á klósettið var farið að blæða all verulega…og hélt ég þarna að þetta væri búið…barnið væri farið!

Mér var komið strax upp í rúm og var sett í línurit, það var mikill léttir að heyra hjartsláttinn. Barnsfaðir minn kom fljótlega og kl 2.15 var ég færð upp á fæðingargang. Klukkan 3 var ég komin með 4 í útvíkkun . Við fengum mömmu til að koma og vera okkar stuðningur.

Kl 6.55 var útvíkkun lokið og kl 07.03 að morgni 19.september fæðist litla prinsessan okkar, hún skaust út með látum og í því opnaðist hurðin og inn kom hlaupandi læknalið sem tók hana strax og skoðaði hana örstutt, settu hana í hitakassa og hurðin lokaðist. Ég kallaði….”var þetta strákur eða stelpa?”

Ég var frekar spræk eftir fæðinguna og vildi strax fá að standa upp og fara á klósettið og ætluðu þær varla að leyfa mér það en létu undan að lokum og fylgdu mér. Ég vildi svo fá að fara upp á vökudeild og sjá litlu stelpuna mina en ég mátti ekki fara strax…bæði var verið að rannsaka hana og ég átti að hvílast.

Tveimur klukkustundum síðar fengum við loksins að fara upp á vökudeild. Þegar ég sá litlu stelpuna mína liggja þarna í hitakassanum brast ég í grát. Hún var svo agnarsmá og með allt þetta kolsvarta hár 🙂
Ég fékk hana í fangið í smástund eða á bera bringuna eins og mælt var með…ohh hvað það var yndislegt að fá að halda henni upp að sér.

Stelpan okkar fæddist semsagt á 29.viku+3dagar og var hún 1327gr eða 5 og hálf mörk og 39,5cm.

Þrædd var sonda og henni gefin smá þurrmjólk.
Ég þurfti svo að fara niðrá meðgöngudeild og byrja að mjólka mig. Það var rosalega erfitt og fékk ég stálma en barðist í gegnum þetta til að stelpan mín fengið móðurmjólkina. Ég náði 3,5 ml af broddi sem ég fór með til þeirra um kvöldið sem myndi duga henni í 2 gjafir.

Starfsfólkið á vökudeild var yndislegt og hjálpaði okkur í gegnum hvert einasta skref…strax daginn eftir fengum við að þrífa hana með svampi og skipta á henni en þó bara inn í kassanum.

Á þriðja degi fór ég heim…það var skrítið að fara heim því maður var búinn að hugsa það alltaf þannig að maður færi heim með barnið sitt eins og allir aðrir…en svona var þetta hjá mér og ég ákvað að taka þessu eins og “einskonar vinnu”.

Ég vaknaði alla morgna um 7 og mjólkaði mig og var mætt niðrá vökudeild kl 8. Stofugangur var á milli 9 og 12 og máttu þá foreldrar ekki vera, fór ég þá heim, lagði mig og kom aftur um 13. Fór svo oftast ekki heim aftur fyrr en milli 20 og 22. Svona voru allir dagar og sumir dagar erfiðari en aðrir. Maður var voða strekktur yfir þessum nemum sem voru á henni en tækin píptu ef hún hætti að anda og eins ef neminn datt af. Tækið tók upp á því einn daginn að pípa óvenju mikið og ég fór í panikk en hjúkkan kom og fullvissaði mig um að þetta væri allt í lagi og ég ætti að venja mig á að horfa framan í barnið þegar tækið pípti…en sem betur fer þurftum við aldrei að horfa upp á hana blána eða neitt svoleiðis.

Stelpan okkar sem var svo nefnd Andrea Marín þurfti aldrei neina öndunaraðstoð eða neitt og sögðu læknarnir alltaf að það væri sko ekkert að þessari stelpu hún þurfti bara að stækka.

Og sú varð raunin þann 5.nóvember fengum við að fara heim með Andreu Marín og var hún þá orðin 2.5kg….okkur var ekki gefin nein von í upphafi um að við fengjum að fara fyrr heim en í byrjun desember sem átti að vera fæðingardagurinn hennar, en við vorum heppin því stelpan okkar var sterk 🙂

Í dag er Andrea Marín 8 ára hefur aldrei verið neitt veikindabarn, byrjaði að tala mjög snemma og var mjög skýrmælt .Hún er kraftmikill einstaklingur með mikla orku og ber engin merki um að vera fyrirburi. Henni gengur vel í skóla á marga vini og er í söng og leiklistarnámi en það kom ekkert annað til greina því hún syngur hástöfum allan sólarhringinn 🙂

Þess má geta í lokin að það var aldrei vitað afhverju ég fór af stað…það var rannsakað í þaula en engin skýring. Þeir héldu fyrst að ég hefði fengið sýkingu en svo var ekki.

Starfsfólki á meðgöngudeild og á vökudeild getum við seint þakkað og var Sveinn barnalæknir algjörlega okkar stoð og stytta. Fékk ég greiðan aðgang að honum eftir að heim var komið og gat þá alltaf sent honum póst um einhver áhyggjuefni sem voru stórmál í mínum huga á þeim tíma , enda með fyrsta barn og í þessum aðstæðum.

Það má með sanni segja að Andrea Marín sé kraftaverkabarn 🙂

Kristín Sigurðardóttir